Hrífast af farþeganum


Eftir að DV opnaði Breiðuvíkurmálið og eftir að DV fann týndu skýrsluna var aðeins einn fjölmiðill sem tók eftir hversu alvarlegt Breiðuvíkurmálið er, það var fréttastofa Ríkissjónvarpsins og fréttakona þaðan fékk inni í Kastljósi sama dag til að halda áfram með málið. Eftir það kviknaði áhugi Kastljóssins, en hingað til hefur það aðeins sinnt einföldustu þáttum málsins, tekið viðtöl og fátt annað. Það er meira en hinir fjölmiðlarnir hafa gert.
Enginn fjölmiðill, annar en DV, hefur sýnt málinu nægan áhuga. Áhugaleysi fjölmiðla er illskiljanlegt og sennilega verður ekki hægt að skilja hvers vegna áhuginn á þessu vonda máli er ekki meiri meðal fjölmiðlafólks en raun er á. Kjarklausustu fjölmiðlarnir hafa látið duga að segja af viðbrögðum, viðbrögðum stjórnmálamanna, helst ekki annarra. Með afskiptaleysinu er engin hætta á að fjölmiðill finni andbyr, þurfi að taka erfiðar ákvarðanir um framsetningu og fréttamat. Sennilega er það þess vegna sem stórir fjölmiðlar kjósa lognið, aðgerðarleysið.
Alþingismenn vöktu athygli þegar nokkrir dagar voru frá því að DV opnaði Breiðuvíkurmálið. Málið var ekki rætt á Alþingi fyrr en þingmennirnir, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fremsta í flokki, höfðu séð tárin falla og hrausta menn brotna saman. Þá fyrst áttuðu þingmennirnir sig á málinu. Þeir náðu ekki málinu með að lesa DV þó að þar væri vitnað um hrottaskapinn og birtar staðreyndir úr ritgerð Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings, ritgerð sem DV fann en hún hafði verið falin í þrjátíu ár. Þingmennirnir, að Guðrúnu Ögmundsdóttur undanskilinni, sýndu að þeir áttuðu sig ekki á Breiðuvíkurmálinu fyrr en menn grétu í sjónvarpinu. Það þurfti tár til að opna augu þingmanna. Þeir kappkostuðu að mæra farþegann í Breiðuvíkurmálinu, Kastljósið, en viku ekki orði að þeim fjölmiðli sem af krafti fór í gryfjuna, fann særðu mennina, fann skýrsluna sem stjórnmálamenn þess tíma földu og upplýsti um þetta vonda mál.
Það er ekki traustvekjandi ef stjórnmálamenn samtímans skynja ekki þjóðfélagið nema með mynd og hljóði. Má vera að texti á blaði sé ekki nóg. Má vera að fólkið sem hefur kosið að verða fulltrúar þjóðarinnar sé svo upptekið af smærri málum að það skynji ekki stærstu mál samtímans nema vera matað sem smábörn, að það þurfi að stappa ofan í það matinn - og helst með tárum, annars nærist það bara ekki.

Flatreka á versta tíma

Samfylkingin er flatreka þegar síst skyldi og þegar flokkurinn hefur haft öll tækifæri til að sækja fram, til að styrkjast og til að verða virkilegt afl í íslensku samfélagi. En hvað hefur farið úrskeiðis, hvað hefur orðið til þess að Samfylkinguna rekur stjórnlaust og bjargarvana?
Andstæðingar flokksins hafa alla tíð sótt fast að honum og þeim hefur tekist að búa til þá mynd að ekkert mark sé takandi á Samfylkingunni, hún segi eitt í dag og annað á morgun og jafnvel eigi hún til verri hliðar, þær að ekki sé sama hvaða forystumaður tali hverju sinni. Fullyrt er að Samfylkingin sé sem vindhani. Staksteinar Morgunblaðsins og aðrir nafnleysingjar kölluðu Össur Skarphéðinsson ótt og títt vindhana meðan hann var formaður flokksins. Það var sama hvað Össur reyndi að má af sér stimpil vindhanans og það var sama hvað flokksfélagar lögðu honum mikið lið í þeirri baráttu. Samfylkingunni tókst ekki að má stimpilinn af formanninum og flokknum. Eftir að Össur féll í formannskjöri er hann ekki lengur kallaður vindhani, hann er ágætlega liðinn og vel um hann talað. En ekki flokkinn.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sóttist eftir formennsku og fékk. Hún felldi sitjandi formann nokkuð örugglega. Flokksmenn væntu mikils af henni og töldu bjartari tíma fram undan. Þær væntingar hafa ekki gengið eftir og nú þegar komið er að lokaspretti í kosningabaráttunni er ljóst að Samfylkingin hefur ekki einu sinni farið í þjálfunarbúðir og baráttan verður flokknum erfið.
Andstæðingar Samfylkingarinnar hafa ekkert gefið eftir. Með réttu og með röngu er hún úthrópuð sem sundurlaus hjörð sem ekki sé á byggjandi. Enn og aftur finnur Samfylkingin engar varnir og er flatreka, nýja formanninum tekst jafnvel verr en þeim fyrri að stýra flokknum í skjól undan gagnrýninni og árásunum. Sú er staða Samfylkingarinnar fáum mánuðum fyrir kosningar.
Það sjást brestir í hinum ýmsu stoðum flokksins. Jón Baldvin Hannibalsson sem í langan tíma talaði um Ingibjörgu Sólrúnu sem mestu framtíðarvon íslenskra stjórnmála hefur fengið nóg af vandræðaganginum. Samfylkigin er sökuð um að hafa haft uppi óþarfa og óþolandi málþóf á Alþingi. Samt er það svo að það eru þingmenn vinstri grænna sem tala mest. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar, af einhverjum ástæðum, varist að gagnrýna vinstri græna í líkingu við það sem þeir gera með Samfylkinguna, með þeim árangri að Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist nú sem annar stærsti flokkurinn.
Hugsanlega verður sú staða uppi eftir kosningar að í fyrsta sinn verði hægt að mynda meirihlutastjórn á Alþingi án þátttöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að aðrir flokkar en þessir miklu valdaflokkar geti myndað meirihlutastjórn. Ef svo fer verða úrslit kosninganna söguleg og vissulega spennandi. En til að það gangi eftir verður Samfylkingin að komast úr brimgarðinum og á siglingu. Ábyrgðin er þess flokks og þess fólks sem honum stýrir. Til að það gangi eftir verður forystan að ná áttum. Sú kenning er í stjórnmálum að sá sem er stór og sterkur hefur sjálfstraust og óttast ekki, sá talar ekki mikið, ruggar ekki bátnum, lætur minni flokka og framboð um hamaganginn. Nýjasta útspil formanns Samfylkingarinnar um misnotkun valds stjórnarflokkanna er dæmi um taugaveiklun, ekki vegna þess að það stenst ekki, heldur vegna þess að málflutningurinn var ekki nógu góður, ekki nógu trúverðugur. Það vantaði borðleggjandi dæmi og það vantaði sjálft höggið.

Hvað ef?

Hefðu Baugsmenn aldrei keypt hlut í fjölmiðli og ef æðsti stjórnandi Morgunblaðsins hefði ekki átt beina aðild að upphafi Baugsmálsins er nokkuð víst að mun meira væri fjallað um Baugsmálið en gert er og gert hefur verið.

Staða málsins er svo sérstök að sennilegasta eru engin fordæmi til um neitt ámóta. Útreið ákæruvaldsins er svo sláandi að hún kallar á sérstaka skoðun. Hvernig má það vera að ríkislögreglustjóri sem gerir hver mistökin af öðrum skuli ekki þurfa að taka pokann sinn? Hefur hann ekki misst traust? Og hvað með þann sem mestu ræður, dómsmálaráðherrann?

Sé kenningin rétt að Baugsmenn hafi keypt í fjölmiðlum til þess eins að hafa áhrif á umfjallanir um Baugsmálið rétt, er ljóst að þeir hafa fallið á eigin bragði. Eins ótrúlegt og Baugsmálið er er með ólíkindum hversu lítið fjölmiðlar fjalla um það. Breytingin verður á þegar fjallað verður um í héraðsdómi minnsta anga málsins, það er þegar komið verður að einkaneyslu einstakra manna. Gægjuþörfin mun ná allri athygli, meðan verður ekkert fjallað um rúmlega fjögurra ára klúður og ofbeldi lögreglunnar.

Ætti aðrir en Baugur í hlut, þá er trúlegast að umfjöllunin í samfélaginu væri með öðrum hætti en nú, hún væri harðari, beittari og markverðari.


Dreifikraninn

Mikið var ég gáttaður þegar ég las Fréttablaðið í morgun. Þar er frásögn af því að Ár og dagur, sem gefur út Blaðið, kanni málssókn gegn mér. Gott og vel með það. Það er ekki ástæða þess að ég varð gáttaður. Heldur vegna þess að þetta er í annað sinn sem Fréttablaðið vitnar í rangindi Sigurðar G. Guðjónssonar, þar sem hann ber mig alvarlegum sökum, kolröngum.

Áður tíðkaðist það á Fréttablaðinu að ef einhver var borinn þungum sökum átti að leita til hans og gefa honum færi á að bera hendur fyrir höfuð sér. Sú regla er greinilega ekki lengur virk á Fréttablaðinu, það er blaðinu til skammar.

Í stað þess að stunda sjálfsagða blaðamennsku hefur Fréttablaðið greinilega tekið upp kranablaðamennsku af verstu gerð. Í tvígang hefur blaðið kosið að taka upp alvarlegar ásakanir á mig án þess að gera minnstu tilraun til að leyfa mér að verjast. Einu samskiptin sem Fréttablaðið hefur átt við mig vegna þessa máls er að ritstjórn blaðsins hefur beðið mig um hjálp til að finna símanúmer Sigurðar G. Guðjónssonar.


Rakari en hver?

Vegna skrifa Steingríms Sævarrs langar mig að segja stutta sögu og ágæta.

En fyrst að Steingrími:

"Þau geta stundum verið "skemmtileg" dómsmálin sem eru í gangi. Þannig má sjá þetta inn á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur (nafnið tekið út af síðuskrifara og Xin sett í staðinn) þar sem einkanúmerið passar svo vel við:

 

"D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2007 í máli nr. S-2087/2006:

Ákæruvaldið

gegn

XXXX

            Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar 2007, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík, 27. nóvember sl., á hendur XX, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið með einkamerkinu RAKARI, að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2006, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,25‰) um bifreiðastæði við Frakkastíg í Reykjavík."

 

Rakari...en hver?"'

Fyrir mörgum árum var ég á Melavellinum að horfa á KR. Meðal stúkugesta var Egill rakari, einn þekktasti stuðningsmaður KR fyrr og síðar, enda er hans getið í lagi Ómars Ragnarssonar, Jói útherji. Jæja, aftur á Melavöllinn. Leikurinn var við það að hefjasts. Sauðdrukkinn maður kom í stúkuna, sá Egil og starði. Sagði síðan drafandi röddu; er þetta ekki Egill rakari? Egill svaraði að bragði; ég veit ekki hvor okkar er rakari.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband