Færsluflokkur: Bloggar

Samkvæmisleikur Fréttablaðsins

Skoðanakönnun Fréttablaðsins segir ekkert og hefur ekkert erindi í fréttir. Fréttablaðið verður að vekja athygli á hversu ónákvæm og óáreiðanleg könnun blaðsins er. Þegar átta hundruð eru spurð og rétt rúmur helmingur tekur þátt í leiknum verða fyrirvararnir yfirþyrmandi. Til að mynda er vonlaust að hafa gagn af framlagi Fréttablaðsins þegar meta á hver staða flokkanna er í einstaka kjördæmum og þess vegna er ekkert gerandi með niðurstöðurnar þegar leitast er við að segja til um hversu marga þingmenn hvert framboð fær.
Þrír formenn stjórnmálaflokka leiða lista í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ekkert í starfi Fréttablaðsins segir okkur nokkuð um átök eða hvernig fylgi einstakra framboða er. Sama er að segja um önnur kjördæmi. Hvert er hægt að sjá hver staðan milli flokkanna er. Þeim, sem hafa gaman af þjóðfélagsmálum, veldur Fréttablaðið miklum vonbrigðum. Það er sama hvað það ágæta fólk sem komst að þessari niðurstöðu reynir, það getur aldrei sagt okkur hvaða fimm þingmenn Framsóknarflokkur fær kjörna, samkvæmt þessu, og sama gegnir um alla aðra útreikninga.
Fréttablaðið státar af því að vera stærsti fjölmiðill landsins. Þannig vegtyllum fylgir ábyrgð. Gera verður kröfur til þeirra sem telja sig stærsta, einkum þegar svo skammt er til kosninga. Fréttablaðið verður að leggja meira á sig, kosta meiru til og taka þátt í umræðunni með því að gera alvöru kannanir. Skipta verður svörum betur milli kjördæma þannig að unnt verði að mæla og fylgjast með því sem er að gerast.
Vel má vera að samkvæmisleikir dugi til að mæla með ónákvæmni stöðu milli framboða þegar lítið er að gerast. Svo er ekki nú. Rúmir tveir mánuðir eru til kosninga og það ber að taka alvarlega. Nú reynir á að hægt verði að sýna hver átökin eru milli flokka og hvar. Hvaða frambjóðendur virðast ná kjöri og hverjir ekki.
Áður var getið um Reykjavíkurkjördæmi syðra, forvitnileg átök eru víðar. Spennandi er að vita stöðu milli flokka í einstaka kjördæmum. Fyrir þau sem hafa gaman af stöðu stjórnmálamanna er ekkert að annað að gera en bíða eftir Þjóðarpúlsinum. Vont er til þess að hugsa ef fleiri ætla ekki að gera alvöru kannanir nú þegar svo skammt er til kosninganna.
Vinstri grænir áttu sviðið þessa helgina og virðast ætla að komast á lokasprett kosningabaráttunnar í fínu formi. Það sem getur skemmt fyrir þeim flokki er nýtt framboð sem mun leggja áherslu á umhverfismál, en hvað sem sagt verður og gert er ekki nokkur vafi að vinstri grænir hafa forskot í þeim málaflokki og hafa lengst allra talað fyrir umhverfismálum. Það er þeirra að verja forystu sína í þeim málaflokki. Fleiri vilja sneið af grænu kökunni og ekki er ólíklegt að fólk sem hefur ekkert sagt eða gert til þessa til að tjá vilja sinn í umhverfismálum stökkvi á vagninn og freisti þess að gera sig marktækt í umræðunni. Mikið los virðist vera í stjórnmálunum eftir langt samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og þess vegna er trúlegt að tækifæri nýrra framboð séu mörg.
En hvar tækifærin eru og hvar ekki er ómögulegt að segja. Eitt er víst, samkvæmisleikur Fréttablaðsins hefur engu svarað um það.


Allt í plati

Íslendingar eru varaðir við að trúa samgönguáætluninni sem Sturla Böðvarsson sveiflar nú af krafti. Fátt er eins óábyggilegt og slík plögg og einkum og sér í lagi skömmu fyrir kosningar. Stjórnmálamenn hafa ítrekað gerst sekir um að segja allt annað en þeir meina. Og aldrei þarf að hafa meiri vara á orðum þeirra en einmitt þegar þeir láta einskis ófreistað til að endurnýja starfssamning sinn við þjóðina.
Samgönguáætlunin er með því hættulegra sem boðið er upp á. Auðvitað vilja allir kjósendur sem bestar samgöngur. Þess vegna er þess gætt að hafa mola eða meira handa kjósendum um land allt. Suðurstrandavegur er fínt dæmi um alvöru málsins. Ítrekað hefur verið lofað að svo og svo miklu af peningum verði varið til að gera þennan langþráða veg. Jafnharðan hafa loforð og vilyrði verið svikin. Flest bendir til þess að hann verði Hallgrímskirkja nútímans, að það taki áratugi að leggja veginn. Loforð um annað kunna að verða dregin upp úr ósannindahatti samgönguráðherra, hver sem hann verður á hverjum tíma, um breytta forgangsröð og hraðari framkvæmdir. Hættan er sú, að áfram verði allt í plati.
Frambjóðendurnir munu finna fleira en samgönguáætlun til að skreyta sig með og það er ljóst að hluti kjósenda mun láta gabbast. Enn og aftur munu skyndireddingar stjórnmálamanna gagnast einhverjum og sérstaklega þeim sem fara með völdin, þeim sem hafa aðgang að almannasjóðum.
Mikið er í húfi og mikið er lagt undir. Meðal frambjóðenda er fólk sem veifar röngu sverði frekar en engu. Þótt mesta hættan sé af því fólki sem fer með fjármuni ríkisins og geti þess vegna misnotað almannafé sjálfu sér til framdráttar, þá er það ekki svo að hægt sé að slá slöku við gagnvart þeim sem eru óbreyttir stjórnarþingmenn eða stjórnarandstæðingar. Kjósendur verða að varast fagurgala sem stígur langt yfir öll siðferðismörk. Af honum verður meira en nóg.
Fínasta dæmi um hvernig misfarið er með almannafé er sú ráðagerð Sivjar Friðleifsdóttur ráðherra að láta skrifa, hanna, prenta og dreifa kosningabæklingi um eigin plön um framtíð eldri borgara. Það var ekki eins og ráðherrann hafi tekið peninga úr sjóði sem hún hefur, nei hún hirti peninga úr framkvæmdasjóði aldraðra. Í stað þess að nota þá peninga til þess sem þeir eiga að fara í, kaus ráðherrann að gerast svo ósvífinn að skerða sjóðinn enn og aftur og það til þess eins að boða eigin ráðagerðir. Reynslan af þess konar er svipuð og af samgönguáætlunum. Allt í plati. Ekkert að marka.
Vel má vera að Siv takist að hífa fylgi Framsóknar upp um einhvert smáræði með því að veikja framkvæmdasjóð aldraðra. Allt er þetta fyrirkomulag ekki merkilegra en svo að hún kemst upp með þetta. Sama er að segja um Sturlu Böðvarsson. Hann kemst upp með að veifa samgönguáætlun sem er í besta falli vegvísir, en ekki vegur og alls er óvíst að svo verði nokkru sinni.
Mikilsvert er ef kjósendur skynja að þetta er þeirra tími, ekki stjórnmálamannanna. Það er okkar að taka ákvarðanir, það er okkar að greina hismið frá kjarnanum, það er okkar að láta ekki fagurgalann ná í gegn og það er okkar að refsa þeim sem taka peninga úr sjóðum, sem þeir hafa í raun ekkert með að gera, til að borga undir eigin drauma, drauma sem eru í plati og ekkert er að marka.

Dagblað

Sex dagar eru þar til DV verður aftur að dagblaði. Þar með hefst á ný útgáfa elsta dagblaðs á Íslandi. Þetta verða merk tímamót í sögu fjölmiðlunar hér á landi.
Döpur ganga DV er á enda og fram undan eru spennandi tímar í sögu þessa merka blaðs, sem hóf göngu sína með útgáfu Vísis árið 1910. Fram að síðustu aldamótum var saga DV og forvera þess, Vísis og Dagblaðsins, merk og mikilsvirði á hverjum tíma. Halla tók undan fæti um aldamótin og hrakfarir útgáfunnar urðu miklar. Fyrst með gjaldþroti þáverandi útgefenda og síðan með misheppnaðri tilraun að breyta DV í óvenju aðgangshart og óvægið blað. Þjóðin hafnaði þeirri útgáfu, rétt eins og þeirri sem varð gjaldþrota. Áskrifendum fækkaði og eins seldist blaðið í mun minna upplagi en áður var. Að endingu varð DV að vikublaði.
Um áramótin síðustu urðu enn kaflaskil í í sögu blaðsins. Nýtt útgáfufélag tók við rekstrinum með það að markmiði að gera DV að dagblaði að nýju og breyta efnistökum og áherslum til muna. Það hefur verið gert og viðbrögð kaupenda eru öllum sem að blaðinu standa hvatning til áframhalds. DV verður að dagblaði á ný næsta fimmtudag og keppikeflið er að DV verði nauðsynleg viðbót við þau blöð sem fyrir eru. DV verður harðara fréttablað en hin blöðin, en langt frá því sem það var þegar verst gekk og þjóðin sagði nei takk. Trú okkar er að DV verði betra fréttablað en hin dagblöðin.
Með blaði eins og DV opnast möguleikar til að taka fyrir stór mál, mál sem kosta vinnu, eftirgrennslan, þolinmæði, stundum þrjósku og það sem mest er um vert, þurfa pláss. Það sést best í úttektum DV síðustu vikur. Breiðuvíkurbörnin er fréttaþáttur sem á sér ekki margar hliðstæður í íslenskum fjölmiðlum. Þrátt fyrir alvarleika málsins og eftirköst af starfinu í Breiðuvík er varla hægt að segja að aðrir fjölmiðlar hafi haft afl til að fylgja því máli eftir. Kastljós Sjónvarpsins tók mörg viðtöl, en vann litla sem enga heimildarvinnu aðra. Aðrir fjölmiðlar gerðu það sjálfsagða. Þeir tóku viðtöl við einstaka ráðamenn. Það var nánast allt og sýnir hver þörfin er fyrir DV. Frá áramótum hefur DV unnið og birt marga aðra greinaflokka og lesendur eru að gera upp hug sinn. Sala DV hefur tekið stökk upp á við og við sem störfum á blaðinu verðum dag hvern vör við breytt viðhorf til DV.
DV hefur það umfram dreifiblöðin tvö að vera algjörlega háð lesendum. DV hefur það umfram áskriftardagblöðin tvö að treysta mun meir á daglega lausasölu. Þess vegna verður DV að vera meira spennandi en hin blöðin fjögur. DV er lesendadrifið blað, dreifiblöðin eru dreifingardrifin og áskriftarblöðin verða ekki eins bundin því að verða fersk og heillandi dag hvern.
Miklar breytingar eru að verða á dagblaðamarkaði. Tvö dreifiblöð verða, tvö klassísk morgunblöð og eitt síðdegisblað, DV. Það verður prentað nokkru fyrir hádegi fjóra daga vikunnar. Helgarblaðið verður stærra og prentað á fimmtudagskvöldum og borið út til áskrifenda árla næsta dag.


Aðgerðarleysi er afstaða

Margir bera ábyrgð á Breiðuvík, Bjargi, Kumbaravogi, Silungapolli og öllum hinum geymslustöðunum fyrir börn þess tíma, börnin sem fullorðna fólkið vildi ekki hafa fyrir augunum, vildi ekkert með hafa? Sú kynslóð sem ber mesta ábyrgðina hefur nú lokið starfsdegi sínum og nýtur þeirra forréttinda sem fylgja því æviskeiði. Þeirra forréttinda að vera ekki ásökuð um kuldalegt uppeldi og afskiptaleysi gagnvart þeim sem verst voru sett og mest máttu þola. Í ljósi uppljóstrana DV og nokkurra annarra fjölmiðla er ekki annað hægt en að sú kynslóð Íslendinga sem bar ábyrgðina spyrji sig hvers vegna þjóðin lét þetta viðgangast.

Uppeldisaðferðir og úrræði voru vissulega önnur þá en nú. En má vera að fjöldi fólks hafi neitað að hugsa um afleiðingar þess að vista börn fjarri mannabyggðum og það í áraraðir? Má vera að ábendingar þolenda um harðræði og misþyrmingar hafi ekki fengið hljómgrunn þar sem ekki var vilji eða geta til að taka á vandanum svo ekki þyrfti að hafa hin óæskilegu börn nærri.

Staðreyndir eru til um hverjar afleiðingarnar urðu af dvöl og kvöl Breiðuvíkur. Nærri níutíu prósent þeirra drengja sem þar voru í geymslu urðu afbrotamenn. Til samanburðar kemur um helmingur þeirra sem settir eru í fangelsi í fyrsta sinn, þangað aftur. Með því er hægt að segja að Litla-Hraun sé ekki eins mannskemmandi og Breiðavík var.

Það er ekki bara hægt að leita ábyrgðar hjá stjórnmálamönnum. Það verður líka að leita skýringa í þeim tíðaranda sem var uppi og hvers vegna afskiptaleysi fólks og harðneskjan var slík. Sú kynslóð sem ákvað að fela vondu börnin og þau óvelkomnu bjó oft við erfiðar aðstæður. Vinnustaðafyllerí voru víða vikulegt fyrirbæri og óregla, sérstaklega karlmanna, var meira áberandi en nú er og sennilega tíðari á heimilum en nú þekkist. Feður voru frekar refsivald en uppalendur.

Þau okkar sem nú er á miðjum aldri, erum börn þessarar kynslóðar. Það er fólk á miðjum aldri sem nú fellur saman af harmi og sársauka vegna myrkurs æsku sinnar. Ekki er nóg að leita ábyrgðar hjá stjórnmálamönnum. Heil kynslóð er ábyrg, ekki allir jafnt en ábyrgðin liggur víða. Aðgerðarleysi er afstaða og getur vissulega leitt til ábyrgðar.

Uppeldisaðferðir nútímans eru aðrar en áður var. Nú tíðkast að þegar börn eru fyrirferðarmikil og láta ekki vel að stjórn í skólum og heima er þeim gefið rítalín. Kannski verður önnur umræða eftir fjörutíu ár, umræða um meðferðina á rítalínkynslóðinni. Um það er erfitt að segja, en ef svo verður verður ekki hægt að benda einungis á ráðamenn. Við verðum hvert og eitt að taka ábyrgð, foreldrar, afar og ömmur, kennarar, læknar, ráðamenn og við öll sem myndum samfélagið. Við megum ekki skemma fólk með svipuðum hætti og sú kynslóð gerði sem nú ber ábyrgð á Breiðuvík, Bjargi, Kumbaravogi og Silungapolli.


Þeir töpuðu æskunni

Hvers vegna nýtti Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ekki tækifærið og bað þolendur viðbjóðsins í Breiðuvík afsökunar fyrir hönd embættisins sem hann gegnir? Var það vegna þess að stjórnmálamenn samtímans eru svo geldir, svo kjarklausir að þeir þora ekki að standa upp og segja það sem þeim býr í brjósti?

Þolendur viðbjóðsins í Breiðuvík vilja að þeir verði beðnir afsökunar af yfirvöldum. Ekki vegna þess að þeir sem nú stjórni hafi tekið ákvarðanir um hryllinginn, ekki vegna þess að embættismennirnir beri persónulega ábyrgð á þeim glæpum sem framdir voru í Breiðuvík. Alls ekki. Heldur vegna þeirra embætta sem þeir gegna núna, viljinn er til að ráðherrar og forseti biðji þolendurna afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar, og ekki síst fyrir hönd þeirra sem áður gegndu embættunum. Það er málið.

Þolendur ofbeldisins í Breiðuvík voru sviptir æskunni, sennilegast skemmdir fyrir lífstíð og nú eru einhverjir möguleikar á að bjarga megi seinni hluta ævi þeirra sem enn lifa, þeirra sem hafa ekki tekið eigið líf eftir hörmungar eða látist af öðrum orsökum.

Hver er tregða ráðamanna, þarf að bíða eftir nefndarvinnu til að taka á málinu? Eru afleiðingarnar ekki augljósar? Kannski skynja ráðamenn ekki málið, þeir sem mestu ráða þekkja líklega ekki óvissuna og angistina, hafa ekki verið andvaka af ótta og vita ekki hvað er að vera án kvíða, þekkja ekki óvissu um hvort matur verði til næsta dag, hafa ekki óttast ofbeldi og fátækt, þekkja ekki erindisleysi bæna og óska um miskunn. Má vera að þeir sem hafa óskað eftir að ganga fremst meðal okkar eigi erfitt með að taka á Breiðuvíkurmálinu vegna reynsluleysis af dökku hliðum mannlífsins. Má vera að þeir sem hafa ekki þurft að örvænta, ekki kviðið að vakna að morgni geti ekki höndlað mál sem þetta? Mögulega.

Auðvitað geta stjórnmálamenn samtímans ekki breytt því sem gerðist. Samt skortir á að þeir sýni þolendum hryllingsins samúð og hluttekningu. Ekki bara af því að hafa séð hörðustu menn bresta í grát. Það er bara ein birtingarmynd þess sem á undan er gengið.

Það er vegna DV og það er vegna vinnu ritstjórnar þess blaðs að Breiðuvíkurhryllingurinn var upplýstur. Með því hefur DV bent stjórnmálamönnum á verðug verkefni. Þeir verða að taka við keflinu og í krafti embætta sinna verða þeir að stíga fram, opna faðm embættanna og bæta það sem bætt verður, bæði með andlegri hjálp og peningum.

Angist og sársauki þolendanna verða aldrei skilin af þeim sem ekki reyndu. Til þess er lífsreynsla þeirra of mikil, of hörð og of mótandi. Ungir drengir voru fylltir hatri og það er okkar hinna að aðstoða þá til að losa um sársaukann. Máttur fjölmiðla getur verið mikill. Allir starfsmenn DV hafa tekið þátt í mikilli vinnu við að opna Breiðuvíkurmálið. Þakkir þolenda eru bestu meðmæli sem starfsfólkið getur fengið. Og þær skortir ekki.


Hrífast af farþeganum


Eftir að DV opnaði Breiðuvíkurmálið og eftir að DV fann týndu skýrsluna var aðeins einn fjölmiðill sem tók eftir hversu alvarlegt Breiðuvíkurmálið er, það var fréttastofa Ríkissjónvarpsins og fréttakona þaðan fékk inni í Kastljósi sama dag til að halda áfram með málið. Eftir það kviknaði áhugi Kastljóssins, en hingað til hefur það aðeins sinnt einföldustu þáttum málsins, tekið viðtöl og fátt annað. Það er meira en hinir fjölmiðlarnir hafa gert.
Enginn fjölmiðill, annar en DV, hefur sýnt málinu nægan áhuga. Áhugaleysi fjölmiðla er illskiljanlegt og sennilega verður ekki hægt að skilja hvers vegna áhuginn á þessu vonda máli er ekki meiri meðal fjölmiðlafólks en raun er á. Kjarklausustu fjölmiðlarnir hafa látið duga að segja af viðbrögðum, viðbrögðum stjórnmálamanna, helst ekki annarra. Með afskiptaleysinu er engin hætta á að fjölmiðill finni andbyr, þurfi að taka erfiðar ákvarðanir um framsetningu og fréttamat. Sennilega er það þess vegna sem stórir fjölmiðlar kjósa lognið, aðgerðarleysið.
Alþingismenn vöktu athygli þegar nokkrir dagar voru frá því að DV opnaði Breiðuvíkurmálið. Málið var ekki rætt á Alþingi fyrr en þingmennirnir, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fremsta í flokki, höfðu séð tárin falla og hrausta menn brotna saman. Þá fyrst áttuðu þingmennirnir sig á málinu. Þeir náðu ekki málinu með að lesa DV þó að þar væri vitnað um hrottaskapinn og birtar staðreyndir úr ritgerð Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings, ritgerð sem DV fann en hún hafði verið falin í þrjátíu ár. Þingmennirnir, að Guðrúnu Ögmundsdóttur undanskilinni, sýndu að þeir áttuðu sig ekki á Breiðuvíkurmálinu fyrr en menn grétu í sjónvarpinu. Það þurfti tár til að opna augu þingmanna. Þeir kappkostuðu að mæra farþegann í Breiðuvíkurmálinu, Kastljósið, en viku ekki orði að þeim fjölmiðli sem af krafti fór í gryfjuna, fann særðu mennina, fann skýrsluna sem stjórnmálamenn þess tíma földu og upplýsti um þetta vonda mál.
Það er ekki traustvekjandi ef stjórnmálamenn samtímans skynja ekki þjóðfélagið nema með mynd og hljóði. Má vera að texti á blaði sé ekki nóg. Má vera að fólkið sem hefur kosið að verða fulltrúar þjóðarinnar sé svo upptekið af smærri málum að það skynji ekki stærstu mál samtímans nema vera matað sem smábörn, að það þurfi að stappa ofan í það matinn - og helst með tárum, annars nærist það bara ekki.

Flatreka á versta tíma

Samfylkingin er flatreka þegar síst skyldi og þegar flokkurinn hefur haft öll tækifæri til að sækja fram, til að styrkjast og til að verða virkilegt afl í íslensku samfélagi. En hvað hefur farið úrskeiðis, hvað hefur orðið til þess að Samfylkinguna rekur stjórnlaust og bjargarvana?
Andstæðingar flokksins hafa alla tíð sótt fast að honum og þeim hefur tekist að búa til þá mynd að ekkert mark sé takandi á Samfylkingunni, hún segi eitt í dag og annað á morgun og jafnvel eigi hún til verri hliðar, þær að ekki sé sama hvaða forystumaður tali hverju sinni. Fullyrt er að Samfylkingin sé sem vindhani. Staksteinar Morgunblaðsins og aðrir nafnleysingjar kölluðu Össur Skarphéðinsson ótt og títt vindhana meðan hann var formaður flokksins. Það var sama hvað Össur reyndi að má af sér stimpil vindhanans og það var sama hvað flokksfélagar lögðu honum mikið lið í þeirri baráttu. Samfylkingunni tókst ekki að má stimpilinn af formanninum og flokknum. Eftir að Össur féll í formannskjöri er hann ekki lengur kallaður vindhani, hann er ágætlega liðinn og vel um hann talað. En ekki flokkinn.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sóttist eftir formennsku og fékk. Hún felldi sitjandi formann nokkuð örugglega. Flokksmenn væntu mikils af henni og töldu bjartari tíma fram undan. Þær væntingar hafa ekki gengið eftir og nú þegar komið er að lokaspretti í kosningabaráttunni er ljóst að Samfylkingin hefur ekki einu sinni farið í þjálfunarbúðir og baráttan verður flokknum erfið.
Andstæðingar Samfylkingarinnar hafa ekkert gefið eftir. Með réttu og með röngu er hún úthrópuð sem sundurlaus hjörð sem ekki sé á byggjandi. Enn og aftur finnur Samfylkingin engar varnir og er flatreka, nýja formanninum tekst jafnvel verr en þeim fyrri að stýra flokknum í skjól undan gagnrýninni og árásunum. Sú er staða Samfylkingarinnar fáum mánuðum fyrir kosningar.
Það sjást brestir í hinum ýmsu stoðum flokksins. Jón Baldvin Hannibalsson sem í langan tíma talaði um Ingibjörgu Sólrúnu sem mestu framtíðarvon íslenskra stjórnmála hefur fengið nóg af vandræðaganginum. Samfylkigin er sökuð um að hafa haft uppi óþarfa og óþolandi málþóf á Alþingi. Samt er það svo að það eru þingmenn vinstri grænna sem tala mest. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar, af einhverjum ástæðum, varist að gagnrýna vinstri græna í líkingu við það sem þeir gera með Samfylkinguna, með þeim árangri að Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist nú sem annar stærsti flokkurinn.
Hugsanlega verður sú staða uppi eftir kosningar að í fyrsta sinn verði hægt að mynda meirihlutastjórn á Alþingi án þátttöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að aðrir flokkar en þessir miklu valdaflokkar geti myndað meirihlutastjórn. Ef svo fer verða úrslit kosninganna söguleg og vissulega spennandi. En til að það gangi eftir verður Samfylkingin að komast úr brimgarðinum og á siglingu. Ábyrgðin er þess flokks og þess fólks sem honum stýrir. Til að það gangi eftir verður forystan að ná áttum. Sú kenning er í stjórnmálum að sá sem er stór og sterkur hefur sjálfstraust og óttast ekki, sá talar ekki mikið, ruggar ekki bátnum, lætur minni flokka og framboð um hamaganginn. Nýjasta útspil formanns Samfylkingarinnar um misnotkun valds stjórnarflokkanna er dæmi um taugaveiklun, ekki vegna þess að það stenst ekki, heldur vegna þess að málflutningurinn var ekki nógu góður, ekki nógu trúverðugur. Það vantaði borðleggjandi dæmi og það vantaði sjálft höggið.

Hvað ef?

Hefðu Baugsmenn aldrei keypt hlut í fjölmiðli og ef æðsti stjórnandi Morgunblaðsins hefði ekki átt beina aðild að upphafi Baugsmálsins er nokkuð víst að mun meira væri fjallað um Baugsmálið en gert er og gert hefur verið.

Staða málsins er svo sérstök að sennilegasta eru engin fordæmi til um neitt ámóta. Útreið ákæruvaldsins er svo sláandi að hún kallar á sérstaka skoðun. Hvernig má það vera að ríkislögreglustjóri sem gerir hver mistökin af öðrum skuli ekki þurfa að taka pokann sinn? Hefur hann ekki misst traust? Og hvað með þann sem mestu ræður, dómsmálaráðherrann?

Sé kenningin rétt að Baugsmenn hafi keypt í fjölmiðlum til þess eins að hafa áhrif á umfjallanir um Baugsmálið rétt, er ljóst að þeir hafa fallið á eigin bragði. Eins ótrúlegt og Baugsmálið er er með ólíkindum hversu lítið fjölmiðlar fjalla um það. Breytingin verður á þegar fjallað verður um í héraðsdómi minnsta anga málsins, það er þegar komið verður að einkaneyslu einstakra manna. Gægjuþörfin mun ná allri athygli, meðan verður ekkert fjallað um rúmlega fjögurra ára klúður og ofbeldi lögreglunnar.

Ætti aðrir en Baugur í hlut, þá er trúlegast að umfjöllunin í samfélaginu væri með öðrum hætti en nú, hún væri harðari, beittari og markverðari.


Dreifikraninn

Mikið var ég gáttaður þegar ég las Fréttablaðið í morgun. Þar er frásögn af því að Ár og dagur, sem gefur út Blaðið, kanni málssókn gegn mér. Gott og vel með það. Það er ekki ástæða þess að ég varð gáttaður. Heldur vegna þess að þetta er í annað sinn sem Fréttablaðið vitnar í rangindi Sigurðar G. Guðjónssonar, þar sem hann ber mig alvarlegum sökum, kolröngum.

Áður tíðkaðist það á Fréttablaðinu að ef einhver var borinn þungum sökum átti að leita til hans og gefa honum færi á að bera hendur fyrir höfuð sér. Sú regla er greinilega ekki lengur virk á Fréttablaðinu, það er blaðinu til skammar.

Í stað þess að stunda sjálfsagða blaðamennsku hefur Fréttablaðið greinilega tekið upp kranablaðamennsku af verstu gerð. Í tvígang hefur blaðið kosið að taka upp alvarlegar ásakanir á mig án þess að gera minnstu tilraun til að leyfa mér að verjast. Einu samskiptin sem Fréttablaðið hefur átt við mig vegna þessa máls er að ritstjórn blaðsins hefur beðið mig um hjálp til að finna símanúmer Sigurðar G. Guðjónssonar.


Rakari en hver?

Vegna skrifa Steingríms Sævarrs langar mig að segja stutta sögu og ágæta.

En fyrst að Steingrími:

"Þau geta stundum verið "skemmtileg" dómsmálin sem eru í gangi. Þannig má sjá þetta inn á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur (nafnið tekið út af síðuskrifara og Xin sett í staðinn) þar sem einkanúmerið passar svo vel við:

 

"D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2007 í máli nr. S-2087/2006:

Ákæruvaldið

gegn

XXXX

            Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar 2007, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík, 27. nóvember sl., á hendur XX, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið með einkamerkinu RAKARI, að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2006, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,25‰) um bifreiðastæði við Frakkastíg í Reykjavík."

 

Rakari...en hver?"'

Fyrir mörgum árum var ég á Melavellinum að horfa á KR. Meðal stúkugesta var Egill rakari, einn þekktasti stuðningsmaður KR fyrr og síðar, enda er hans getið í lagi Ómars Ragnarssonar, Jói útherji. Jæja, aftur á Melavöllinn. Leikurinn var við það að hefjasts. Sauðdrukkinn maður kom í stúkuna, sá Egil og starði. Sagði síðan drafandi röddu; er þetta ekki Egill rakari? Egill svaraði að bragði; ég veit ekki hvor okkar er rakari.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband