Færsluflokkur: Bloggar

Minnugur stóll

Karl Eskil á Akureyri var með frétt áðan, held hann hafi verið að tala um vefstóla. Sagði einn þeirra muna tímana tvenna. Merkilegur stóll það.

Aftansöngur jóla

Hvers vegna ekki að selja aftansöng jóla. Bjargaði kannski bágum fjárhag sjálftökustjóranna við Efstaleiti?


Rétt skal vera rétt

 Mér þykir miður að þurfa að leiðrétta rangindi sem birtust á Vísi í gær. Þar segir um ráðningu Reynis Traustasonar sem ritstjóra DV: Sigurjón sjálfur kannaðist ekkert við málið þegar Vísir ræddi við hann. „Þú hefur þá meiri upplýsingar um málið en ég," sagði Sigurjón forviða þegar blaðamaður Vísis spurði hann um mannabreytingarnar. Ég var spurður hvort ég væri að hætta, og sagði svo ekki vera. Blaðamaðurinn sagðist hafa heyrt það sagt og þá sagði ég að hann hefði aðrar eða meiri upplýsingar en ég, man ekki hvort orðalagið ég notaði. Þegar hann hélt áfram að spyrja mig benti ég honum á að tala við útgefenda DV, þar sem ég vissi ekki til að ég væri á förum. Þannig var þetta en ekki með þeim hætti sem birtist á Vísi. Ég var ekki að svara til um hvort Reynir væri að koma, heldur spurningu um hvort ég væri að hætta, einsog blaðamaðurinn hafði heyrt og virtist viss um.

Allt í þessu fína?

Merkilegt að hlusta á Guðna Ágústsson og aðra framsóknarmenn skýra hrakfarirnar í kosningunum á þá leið að þar beri aðrir ábyrgð. Einkum og sér í lagi við á DV. Ekki er líklegt að Framsóknarflokkurinn taki stökk til betri heilsu með því hugarfari sem virðist vera yfir öllu starfi hans og hugsunum.
Það var tímabært að fjölmiðill tæki saman helstu verk ríkisstjórnar að loknu kjörtímabili. Stjórnmálamenn, og Guðni líka, verða að þola að ekki hagi allir fjölmiðlar sér eins.
Má vera að umfjöllun DV um kosningaloforð Framsóknarflokksins um nítíu prósenta húsnæðislánin hafi fellt Framsókn, eða umfjöllun DV um aðild að innrásinni í Írak, eða umfjöllun DV um fjölmiðlalögin eða um eftirlaunalögin, var það kannski umfjöllun DV um hvernig séð er fyrir þeim stjórnmálamönnum sem hætta á þingi eða var það umfjöllunin um þjóðlendurnar?
Má vera að óskaheimur Guðna og stjórnmálamanna sé sá að hér verði einungis fjölmiðlar sem gefi stjórnmálamönnum orðið og það án þess að því fylgi gagnrýni á það sem sagt er, og eins það sem gert er?
Þá er víst að sá heimur er í besta falli einungis til í hugum þeirra sem hræðast eigin verk.
Framsóknarmenn mega ekki gleyma átökum innan þingflokksins, hörðum kosningum í helstu embætti flokksins, endalausum bitlingaúthlutunum til flokksmanna, eftirgjöf gagnvart Sjálfstæðisflokki og þar ber hæst undirlægjuháttur Halldórs Ásgrímssonar gagnvart Davíð Oddsson þegar Halldór samþykkti að aðild að innrásinni í Írak. Það sem hér hefur verið talið er meðal þess sem lék Framsóknarflokkinn eins illa og raun er á. Það er afneitun að líta ekki í eigin barm.
Í Framsóknarflokknum er margt mætra manna og kvenna og sá sem þetta skrifar þekkir nokkra félaga í Framsóknarflokknum og veit að þar fer gott fólk.


Leiðarvísir fyrir frambjóðendur

Margrét Ómarsdóttir, talsmaður Barnageðs, félags foreldra geðfatlaðra, er móðir drengs sem um árabil hefur þjáðst af geðröskun. Hún segist fyrir löngu búin að gefast upp á kerfinu. „Til fjölda ára hefur fjölskylda mín verið í gíslingu kerfisins og við höfum staðið í áralangri baráttu við kerfið. Sem betur fer er sonur minn að ná þeim aldri að við erum að losna út úr því. Nýverið höfum við fundið aðra leið til að fá hjálp. Við vorum bara svo heppin að fá undanþágu annars staðar þar sem viðkomandi aðila fannst ástandið einfaldlega óforsvaranlegt,“ segir Margrét í samtali við DV. „Það er bara ekki boðið upp á neinar lausnir. Ótrúlegt er að horfa upp á heilbrigðisráðherra lýsa því yfir að allir þeir sem þurfi á hjálp að halda fái hana. Skilaboðin til foreldranna eru líklega þau að hringja þá bara beint í Siv og láta hana standa við orð sín með aðstoðina.“
Þessi orð Margrétar eiga erindi til allra, ekki síst frambjóðenda til Alþingis. Það er ekki með nokkrum hætti að sættast við að þeim sem hafa sóst eftir völdum og fengið, láti ástand einsog Margrét Ómarsdóttir lýsir, viðgangast. Þeir sem hafa kost á að hafna Siv Friðleifsóttur í komandi kosningum munu væntanlega gera það. Framganga hennar er óásættanleg og ekki er nokkur leið að kalla hana til frekari starfa fyrir fólkið í landinu, allavega ekki veika fólkið.
„Margföldunaráhrifin af biðlistum geðdeildarinnar eru gífurleg. Öll fjölskyldan er undirlögð og það fer hreinlega allt til fjandans,“ segir Sveinn Magnússon hjá Geðhjálp. „Einstaklingur, sem var hættulegur sér og öðrum, var lokaður af inni á salerni deildarinnar þar sem hættuleg efni var að finna. Erum við að bíða eftir því að fleiri svona dæmi komi upp eða ætlum við að leysa þennan vanda?
Við skulum ekkert bíða. Kjósendum ber að leita svara hjá frambjóðendum. Vandann verður að leysa. „Móðir, sem ég þekki, hefur lengi þurft að glíma við bæði geðsjúkdóm og krabbamein hjá barni sínu. Um skeið var útlit fyrir rénun beggja sjúkdómanna en krabbameinið tók sig upp aftur. Þó svo að það sé ljótt að hugsa þannig þá var hún nánast fegin því vegna þess að þá gat hún fengið aðstoð,“ segir Margrét.
Heilbrigðisráðherrann, Siv Friðleifsdóttir, er upptekin af innanflokksátökum þar sem verið er að koma vildarfélögum í Framsókn á bestu básana þar sem óvíst er um áframhaldandi völd flokksins. Á meðan dregur ekki úr vanda þess fólks sem hér hefur verið bent á. Frambjóðendur sem meina eitthvað með brölti sínu verða að lesa DV. Þar birtast sannar sögur af fólki sem eru þolendur aðgerðarleysis stjórnmálamanna.

Staðreyndir og loforð

Varla er hægt að bjóða kjósendum upp á fagurgala um það sem gera skal eftir kosningar. Sérstaklega þegar þau sem lofa hafa haft öll tækifæri til að laga það sem ekki er nógu gott. Í kappræðum frambjóðenda í gær var verið að ræða félagsmál. Halda mætti að ráðamennirnir hafi ekki lesið DV í gær. Þar var sagt frá brýnum vanda.

Hjónin Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru á níræðis- og tíræðisaldri. Þau hafa verið gift í 65 ár og búið saman á Selfossi alla tíð.

„Þegar hann veiktist var um nokkra kosti að ræða, ég neitaði Kirkjubæjarklaustri vegna þess að það var allt of langt í burtu fyrir okkur. Ég sætti mig hins vegar við að hann fari á Ljósheima, Kumbaravog eða Ás. Einn góðan veðurdag frétti ég það að hann væri á leiðinni austur á Kirkjubæjarklaustur án þess að við fjölskyldan hans vissum af því. Við höfðum gefið samþykki fyrir því að hann færi þangað í stuttan tíma, en við vissum ekki hvenær hann myndi fara. Síðan frétti ég það utan úr bæ að hann hafi verið sendur austur, án þess að ég gæti einu sinni hvatt hann. Þetta sagði Helga Þórðardóttir um örlög mannsins hennar, Gunnars Jónssonar, en hann er heilabilaður. Helga þarf að fara 400 kílómetra leið til að heimsækja manninn sinn. Þetta er afleidd staða þessara öldruðu hjóna og engum til sóma, heldur öllum til háborinnar skammar. Hverslags samfélag höfum við búið til?

Frambjóðendur til Alþingis, hafið hugfast að aðskilnaðurinn tekur mjög á hjónin og segir Helga að Gunnar kalli nafn hennar dag og nótt. Í hvert skipti sem hún hefur heimsótt hann á Kirkjubæjarklaustur hefur hann haldið að hún sé komin til að sækja hann. En svo er ekki og ábyrgðin á hlutskiptum þeirra hjóna liggur ekki hjá þeim, hún liggur hjá þingmönnum og ráðherrum. Með alveg sama hætti og vandi þeirra fjölskyldna sem eru ofursettar úrræðaleysi á barna- og unglingageðdeildinni.

Ekki er ein einasta þörf að fletta skýrslum og skoða meðaltöl til að athuga hag eldri borgara og úrræði fyrir þá veiku. Lesið DV, þar er raunveruleikann að finna. Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru áþreifanleg og örlög þessara öldruðu hjóna segja meira en allar samantektir og útreikningar. Samfélagið fer illa með hjónin og samfélaginu ber að bæta það sem þegar hefur verið gert. Frambjóðendur mega ekki einblína á meðaltöl, skýrslur eða annað sem flækir hugsanir þeirra. Þeir verða að fylgjast með samfélaginu og því sem þar gerist. DV er gluggi að hinu raunverulega lífi. Frambjóðendur, lesið DV og fylgist með.


Dagblað er ekki dómstóll

Dagblað er ekki dómstóll, segir Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, í langri grein sem hann birtir í Lesbók síns gamla blaðs. Þar ver ritstjórinn fyrrverandi son sinn, Harald ríkislögreglustjóra ákveðið, og fer mörgum orðum um þá sem hann hafa gagnrýnt. Gott og vel með það. En það er rétt sem kemur fram hjá Matthíasi; dagblað er ekki dómstóll. Að sama skapi á dagblað ekki heldur að vera gerandi í fréttum, ekki taka þátt í að kæra mál til lögreglu, finna lögmenn fyrir væntanlega kærendur, ekki beita þrýstingi sínum á ráðamenn svo hafin verði saksókn gegn þeim sem fjölmiðlinum líkar ekki við, af einhverjum ástæðum. Allt þetta gerði Morgunblaðið, blaðið sem Matthías ritstýrði áður.
Það er ágætt hjá Matthíasi að freista þess að rétta hlut sonar síns. Það dugar þó skammt þegar litið er til hvernig sakamálum sem stýrt er af embætti Haraldar hefur lyktað. Það er von að efasemdir um ágæti embættisins vakni og að spurt sé hvort breytingar þurfi að gera. Matthíasi er tíðrætt um fjölmiðla og í gegn skín gamli moggaandinn, það er að á því blaði séu stunduð meiri og betri vinnubrögð en almennt gerist og að Morgunblaðið sé yfir önnur blöð hafið. Svo mikið er víst að Matthías talar talsvert um stöðu annarra blaða í dag og stöðu þeirra áður. Áhugafólk um sanngjarna og heila fjölmiðla geta ekki annað en mótmælt þeim anda sem kemur fram í grein Matthíasar. Morgunblaðið var notað í upphafi Baugsmálsins, um það er ekki deilt, Morgunblaðið hefur valið að Baugsmálið og olíusvikamálið lúti ekki almennum starfsreglum innan ritstjórnar. Það hefur komið fram í Morgunblaðinu sjálfu að það er ákvörðun núverandi ristjóra að þessi tvö mál fara ekki í hefðbundan fréttastjórn, þeim er fréttastýrt af ritstjóranum sjálfum. Vinnubrögð Morgunblaðsins eru sem betur fer sérstök.
Morgunblaðsgrein Matthíasar svarar ekki spurningum einsog til dæmis þeirri sem kom fram í DV í gær, hefur ríkislögreglustjóri sætt þrýstingi stjórnmálamanna í fleiri málum en olíusvikamálinu?

Farinn

Hef flutt mig á blogcentral.is/-sme

Sjáum til og skoðum

Byggðamálaráðherrann vill að þjóðin skoði til langframa hvað ber að gera til bjargar þeim byggðarlögum, þeim landshlutum, sem eru komin að fótum fram. Anna Kristín Gunnarsdóttir hóf þarfa umræðu um stöðu verst settu sveitarfélaganna á Alþingi í gær. Stjórnarandstæðingar voru í stuði að venju og höfðu uppi stór og mikil orð.
Fræðimaðurinn sem leiðir málaflokkinn rétt eins og Framsóknarflokkinn, taldi engin áhlaupaverk framundan, þetta sé mál sem verði að nálgast með tíð og tíma. Byggðastefnan hefur beðið skipbrot. Nánast allar aðgerðir hafa brugðist. Tröllslegu framkvæmdirnar á Austurlandi duga ekki til. Fleiri kjósa að flytjast þaðan en þeir sem vilja flytja þangað. Engar áætlanir um byggðaþróun vegna framkvæmdanna virðast ganga eftir. Hvað sem því líður er staða annarra byggðakjarna verri, hún er nánast vonlaus.
Fyrir okkur sem búum hér í þéttbýlinu er erfitt að setja sig í spor þeirra sem hafa takmarkaðan eða jafnvel engan aðgang að internetinu, hafa ekki vegi með slitlagi og búa við það að eignir seljist ekki, ekki einu sinni fyrir lítinn hluta þess verðs sem fæst fyrir samskonar eignir hér. Fyrir það fólk sem býr við þessar sérstöku aðstæður getur ekki verið nóg að heyra ráðherrann tala um aðgerðir sem langtímamarkmið. Það er uppgjöf gagnvart erfiðri stöðu sem hluti þjóðarinnar býr við. Ísland er borgríki. Það stór meirihluti þjóðarinnar býr á sama svæði og mikill minnihluti býr í fámenni og dreifbýli. Varla er bjóðandi að skella skollaeyrum við vanda þess fólks sem þar býr eða gera svo lítið úr honum að teljandi hann hæggengt framtíðarverkefni.
Stóra pólitíska spurningin er hvað ber að gera. Verst af öllu er að gera ekki neitt; stjórnvöld verða að bretta upp ermarnar og kveða upp dóm um hver nánasta framtíð byggðanna og íbúanna verður. Á að halda lífi í byggðunum með einhverjum hætti eða ekki? Það ástand sem nú varir er vonlaust, byggðirnar veikjast og þeir íbúar sem eftir eru eiga sífellt erfiðara með að eiga samfélag sem stenst þær kröfur sem gerðar eru, hafa varla mátt til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Þess vegna geta þeir sem hafa sjálfir kosið að vera í forystu skotið sér undan ábyrgðinni og sent hana á komandi kynslóðir.
Því fylgir ábyrgð að taka að sér að leiða þjóðina áfram. Þá ábyrgð verður byggðamálaráðherrann að taka. Ekki er við það búandi að íbúar á stórum hluta landsins sjái ekki fram á nein tækifæri sér og byggðinni til bjargar. Kvótinn var tekinn og ekkert hefur komið í hans stað. Eignir, í áður blómlegum sjávarbyggðum, eru seldar langt undir verði sumarbústaða. Á þessi þróun að halda áfram, eða ætla stjórnvöld að gera eitthvað?
Svör óskast hið fyrsta.

Fyrirmyndarsamfélag

Það er með hreinum ólíkindum að lesa að fólk sem á blind börn neyðist til að flytja frá Íslandi svo börn þeirra fái möguleika til menntunar og þroska einsog ófötluðum börnum er boðið, og öll börn eiga rétt til. DV hefur vakið athygli á málefnum blindra barna og í dag mun umræðan ná einnig til annarra fjölmiðla þegar þeim verður boðið að kynna sér þetta mikilvæga mál. Þá mun umræða um þessa skammarlegu frammistöðu íslensku þjóðarinnar rísa og ná áthygli.
Ekki er bjóðandi að foreldrar blindra barna verði að rífa sig upp, flytja með fjölskylduna til annarra landa til þess eins að barnið fái þá menntun sem er sjálfsögð. Gunnar Már Másson, faðir blinds drengs, sem býr í Lúxemborg af þessum sökum segir ekki sjálfsagt að leggja slíkt á börn og aðra. Blindu börnin, og systkini þeirra, verða að læra ný tungumál, kynnast nýjum vinum og félögum og læra á nýtt umhverfi og nýjar venjur. Allt vegna þess að hér er ekkert fyrir þetta fólk að gera, eitt hundrað og sextíu blind börn bíða þess að fá viðunandi kennslu hér á landi. Ekkert er sem bendir til að við því verði orðið.
Frá stofnun Háskóla Íslands hafa örfáir blindir nemendur útskrifast þaðan. Það segir hluta af sögunni. Það segir meðal annars hversu torsótt er fyrir blinda Íslendinga að verða sér úti um þá menntun sem er sjálfsögð.
"Staðan í málefnum blindra og sjónskertra barna núna er nákvæmlega sú sama og hún var fyrir einni öld," sagði Gunnar Már Másson í samtali við DV. "Það hefur ekkert breyst. Bókakostur Blindrafélagins er úreltur og kennslugögn eru ýmist ekki til eða úrelt. Það er ekki einn einasti kennari á vegum ríkisins sem kennir blindralestur. Menntamálaráðherra státar sig af því að í þau átján ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið menntamálum þjóðarinnar hafi ríkt algjört jafnrétti til náms. Mér er spurn: Er menntamálaráðherra blindur á stöðu blindra barna á Íslandi?  Ég hef lesið flestar ræður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Hún fullyrðir að Ísland standi mjög vel að vígi gagnvart OECD ríkjum hvað varðar jafnan rétt til náms. Það er rangt og það er klárlega verið að brjóta á þessum minnihlutahópi. Menntamálaráðherra segir einnig að Ísland sé "land tækifæranna". Það er ekki land tækifæra fyrir blind börn.” DV hefur ekki náð tali af menntamálaráðherra vegna þessa máls.
Það eru að koma kosningar. Þær verður þjóðin að nota til að minna stjórnmálamenn á að við viljum breytingar. Kjósendur vilja ekki hlusta á endalaust karp um það sem ekkert er. Það eru næg verkefni fyrir velmeinandi stjórnmálamenn. Verkefni sem okkur öll varðar um. Þar á meðal er hagur og heilsa blindra barna.
"Blind og sjónskert börn eiga að hafa tækifæri til þessa að verða fullgildir þjóðfélagsþegnar. Þessháttar tækifæri eru ekki til staðar á Íslandi í andránni," segir John Harris, annar tveggja höfunda skýrslu um tækifæri sjónskertra barna til náms. Skýrslan verður kynnt í dag.
"Þegar börnin, sem ekki hafa fengið þá hvatningu og stuðning sem þau eiga skilið, yfirgefa grunnskólann þá bíður þeirra gríðarlegt óöryggi. Þau hafa nánast enga þjálfun fengið í mannlegum samskiptum úti í samfélaginu og eiga takmarkaða möguleka á atvinnu. Þessir hlutir hafa ekki verið skoðaðir hér á landi. Við mælum eindregið með því að úr þessu verði bætt hið snarasta," segir Harris.
Við skulum kjósa um þetta og sjá til þess að bót verði á, gerum það áður en við höldum áfram að spreða peningum í von um að koma gagnslausum fulltrúa okkur í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband