Stokkið yfir staðreyndir í Ísafold

29. október 2006

Mikið ósköp varð ég undrandi þegar ég las nýtt tímarit þeirra feðga Reynis Traustasonar og Jóns Trausta. Reyndar er varla hægt að tala um lestur, því þegar ég sá mynd af mér þar sem var verið að fjalla um sértakt mál í sögu Fréttablaðsins tók ég að lesa hvað var til umfjöllunar og eftir þann lestur hafði ég fengið nóg. Meira hirði ég ekki um að lesa í blaðinu og ætla að segja hvað það er sem gekk svona fram að mér.

Ísafold er að fjalla um samskipti eigenda og fjölmiðla og þar er rakinn hluti af sögu frá því í júlí í fyrra. Búið var að ákæra í Baugsmálinu og allir fjölmiðlar gerðu allt sem þeir gátu til að komast yfir ákærurnar. Enginn hafði náð árangri. Ég fór í sumarfrí og hafði verið á Jótlandi í nokkra daga þegar einn af meðstjórnendum mínum á Fréttablaðinu hringir til mín og spyr mig í fyrstu hvernig standi á því hann eigi sérstakt erindi við mig. Ég var í akstri svo ég stoppaði bílinn og fékk fréttir að heiman. Meðan ég var í burtu höfðu aðrir stjórnendur Fréttablaðsins gengist inn á samkomulag við Baug, eða þá ákærðu, um birtingu ákæra, skýringa með þeim og viðtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson. Það sem meira var að búið var að taka á móti efninu, taka viðtöl við þá feðga og senda þau til yfirlestrar, sem stangaðist algjörlega á við siðaskrá Fréttablaðsins, og aðeins var beðið þess að Baugsmenn gæfu heimild til birtingar. Ég brást reiður við og sagðist koma heim strax til að stöðva samkomulagið, koma í veg fyrir að vandi okkar, vegna þessa, ykist enn. Þá kom í ljós að samskonar samkomulag hafði verið gert við breska blaðið The Guardian. Skilyrði var að Bretarnir réðu hvaða dag efnið birtist og það myndi birtast sama dag í The Guardian og Fréttablaðinu. Þá var mér sagt að Bretarnir hefðu frestað birtingu svo ég gat lokið Danmerkurferðinni og látið málið til mín taka þegar ég kæmi heim. Sem ég og gerði.

Daginn sem ég kom heim boðaði ég meðstjórnendur mína á fund og sagði þeim að ég myndi rjúfa samkomulagið strax. Þeir mótmæltu ekki, ég fékk fund strax með stjórnarformanni Baugs þar sem ég tilkynnti honum að ekkert samkomulag væri lengur milli Baugs og Fréttablaðsins. Ástæðan var einföld og er einföld. Fjölmiðlar semja ekki um fréttir, fjölmiðlar semja ekki um fréttir.

Af tillitsemi við meðstjórnendur mína féllst ég á, illu heilli, að eyða ekki efninu sem var búið að vinna. Sagði þeim að ég myndi ekki snerta það, ekki skoða einn staf fyrr en daginn sem Guardian birti fréttirnar og sagði frá ákærunni. Fréttablaðið var því ekki fyrsti fjölmiðillinn til að birta fréttir af ákærunum og viðbrögðum við þeim. Eðlilegast hefði verið að eyða öllu efninu og sennilega gerði ég mistök að gera það ekki.

Baugsmenn gerðu ekki annað en bjóða efnið með skilyrðum. Það er eitt, hitt er verra og er ófyrirgefanlegt að fjölmiðill þáði efnið.

Vandinn var ekki að baki. Ég lagði áherslu á að fram kæmi í Fréttablaðinu að viðtölin við Jón Ásgeir og Jóhannes hefðu verið lesin yfir. Það kom ekki til greina að fela það, þar sem önnur viðtöl eða annað efni var ekki sent úr húsi til yfirlestrar. Ég leitaði raka til að sannfæra sjálfan mig og fann þau ein að þar sem talað var við ákærða menn í mjög viðkvæmri stöðu var réttlætanlegt að víkja frá siðaskrá blaðsins. Kannski var það ekki rétt og þetta leitar á mig af til, var þetta rétt eða ekki. Ég er ekki viss. 

Greinina í Ísafold skrifar Jóhann Hauksson, en hann tók viðtalið við Jóhannes Jónsson, viðtal sem ég setti í geymslu vegna þess hvernig það varð til. Sagan af samskiptum Baugsmanna og Fréttablaðsins segir mér það að Baugsmenn höfðu ágæt rök, Fréttablaðið var víðlesnasta og blað landsins, og er enn, og því ekkert athugavert að leita til þess með mál sem þetta, en það er ekki þar með sagt að fjölmiðill eigi að þiggja efnið. Það gerði Fréttablaðið, það samdi um fréttir. Ég rauf samkomulagið og það gekk eftir, nema að hluta, það sem gekk eftir, var að Fréttablaðið réði sjálft hvenær efnið birtist og hvað af því birtist. Daginn sem Guardian birti fréttina las ég efnið í fyrsta sinn og þá var tekin ákvörðun um með hvaða hætti við birtum þetta. Úr varð að setja efnið á nokkrar síður og ekki veitti af. En það sem mér þótti merkilegast var að Fréttablaðið afþakkaði þar með forskot á aðra íslenska fjölmiðla um birtingartíma, en hafði vissulega minna fyrir efnisvinnslu þennan dag en t.d. Morgunblaðið.

Mér var legið á hálsi að láta sjónarmið ákærðu koma eins skýrt fram í fyrirsögnum og raun var á. Í mörg ár skrifaði ég fréttir af dómsmálum og fréttamat mitt var það eftir lestur ákæranna í Baugsmálinu sumarið 2005 að mikið var að og efasemdir ákærðu væru meira fréttaefni en annað, sem reyndist svo vera hárrétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband