Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Allt í þessu fína?

Merkilegt að hlusta á Guðna Ágústsson og aðra framsóknarmenn skýra hrakfarirnar í kosningunum á þá leið að þar beri aðrir ábyrgð. Einkum og sér í lagi við á DV. Ekki er líklegt að Framsóknarflokkurinn taki stökk til betri heilsu með því hugarfari sem virðist vera yfir öllu starfi hans og hugsunum.
Það var tímabært að fjölmiðill tæki saman helstu verk ríkisstjórnar að loknu kjörtímabili. Stjórnmálamenn, og Guðni líka, verða að þola að ekki hagi allir fjölmiðlar sér eins.
Má vera að umfjöllun DV um kosningaloforð Framsóknarflokksins um nítíu prósenta húsnæðislánin hafi fellt Framsókn, eða umfjöllun DV um aðild að innrásinni í Írak, eða umfjöllun DV um fjölmiðlalögin eða um eftirlaunalögin, var það kannski umfjöllun DV um hvernig séð er fyrir þeim stjórnmálamönnum sem hætta á þingi eða var það umfjöllunin um þjóðlendurnar?
Má vera að óskaheimur Guðna og stjórnmálamanna sé sá að hér verði einungis fjölmiðlar sem gefi stjórnmálamönnum orðið og það án þess að því fylgi gagnrýni á það sem sagt er, og eins það sem gert er?
Þá er víst að sá heimur er í besta falli einungis til í hugum þeirra sem hræðast eigin verk.
Framsóknarmenn mega ekki gleyma átökum innan þingflokksins, hörðum kosningum í helstu embætti flokksins, endalausum bitlingaúthlutunum til flokksmanna, eftirgjöf gagnvart Sjálfstæðisflokki og þar ber hæst undirlægjuháttur Halldórs Ásgrímssonar gagnvart Davíð Oddsson þegar Halldór samþykkti að aðild að innrásinni í Írak. Það sem hér hefur verið talið er meðal þess sem lék Framsóknarflokkinn eins illa og raun er á. Það er afneitun að líta ekki í eigin barm.
Í Framsóknarflokknum er margt mætra manna og kvenna og sá sem þetta skrifar þekkir nokkra félaga í Framsóknarflokknum og veit að þar fer gott fólk.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband