Sjáum til og skoðum

Byggðamálaráðherrann vill að þjóðin skoði til langframa hvað ber að gera til bjargar þeim byggðarlögum, þeim landshlutum, sem eru komin að fótum fram. Anna Kristín Gunnarsdóttir hóf þarfa umræðu um stöðu verst settu sveitarfélaganna á Alþingi í gær. Stjórnarandstæðingar voru í stuði að venju og höfðu uppi stór og mikil orð.
Fræðimaðurinn sem leiðir málaflokkinn rétt eins og Framsóknarflokkinn, taldi engin áhlaupaverk framundan, þetta sé mál sem verði að nálgast með tíð og tíma. Byggðastefnan hefur beðið skipbrot. Nánast allar aðgerðir hafa brugðist. Tröllslegu framkvæmdirnar á Austurlandi duga ekki til. Fleiri kjósa að flytjast þaðan en þeir sem vilja flytja þangað. Engar áætlanir um byggðaþróun vegna framkvæmdanna virðast ganga eftir. Hvað sem því líður er staða annarra byggðakjarna verri, hún er nánast vonlaus.
Fyrir okkur sem búum hér í þéttbýlinu er erfitt að setja sig í spor þeirra sem hafa takmarkaðan eða jafnvel engan aðgang að internetinu, hafa ekki vegi með slitlagi og búa við það að eignir seljist ekki, ekki einu sinni fyrir lítinn hluta þess verðs sem fæst fyrir samskonar eignir hér. Fyrir það fólk sem býr við þessar sérstöku aðstæður getur ekki verið nóg að heyra ráðherrann tala um aðgerðir sem langtímamarkmið. Það er uppgjöf gagnvart erfiðri stöðu sem hluti þjóðarinnar býr við. Ísland er borgríki. Það stór meirihluti þjóðarinnar býr á sama svæði og mikill minnihluti býr í fámenni og dreifbýli. Varla er bjóðandi að skella skollaeyrum við vanda þess fólks sem þar býr eða gera svo lítið úr honum að teljandi hann hæggengt framtíðarverkefni.
Stóra pólitíska spurningin er hvað ber að gera. Verst af öllu er að gera ekki neitt; stjórnvöld verða að bretta upp ermarnar og kveða upp dóm um hver nánasta framtíð byggðanna og íbúanna verður. Á að halda lífi í byggðunum með einhverjum hætti eða ekki? Það ástand sem nú varir er vonlaust, byggðirnar veikjast og þeir íbúar sem eftir eru eiga sífellt erfiðara með að eiga samfélag sem stenst þær kröfur sem gerðar eru, hafa varla mátt til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Þess vegna geta þeir sem hafa sjálfir kosið að vera í forystu skotið sér undan ábyrgðinni og sent hana á komandi kynslóðir.
Því fylgir ábyrgð að taka að sér að leiða þjóðina áfram. Þá ábyrgð verður byggðamálaráðherrann að taka. Ekki er við það búandi að íbúar á stórum hluta landsins sjái ekki fram á nein tækifæri sér og byggðinni til bjargar. Kvótinn var tekinn og ekkert hefur komið í hans stað. Eignir, í áður blómlegum sjávarbyggðum, eru seldar langt undir verði sumarbústaða. Á þessi þróun að halda áfram, eða ætla stjórnvöld að gera eitthvað?
Svör óskast hið fyrsta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stjórnvöld eiga að opna glugga og halda honum opnum í tiltekinn tíma, kannski eitt ár.  Á þessum tíma eiga þau að bjóða uppkaup eigna á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem þær eru óseljanlegar vegna lágs verðs, hvort heldur sveitarfélagið nefnist Skeggjastaðahreppur eða Fjarðabyggð. 

Ríkið á sumsé að kaupa eignir á því verði sem samsvarandi eign selst fyrir á þeim stað sem viðkomadi vill flytja til, því öll vandræði landsbyggðarinnar eru sprottin af heimskulegum stjórnvaldsaðgerðum.  Fólk er fast í gildru.

Að sjálfsögðu verður að tryggja að fólk misnoti þetta ekki en þetta yrði síðasta opinbera byggðaaðgerðin; þau sem ekki selja og fara eru væntanlega sátt við að búa í litlum þorpum.  Við hin hypjum okkur burt.

Björgvin Valur (íbúi í Fjarðabyggð) (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 10:17

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband