Dagblað er ekki dómstóll

Dagblað er ekki dómstóll, segir Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, í langri grein sem hann birtir í Lesbók síns gamla blaðs. Þar ver ritstjórinn fyrrverandi son sinn, Harald ríkislögreglustjóra ákveðið, og fer mörgum orðum um þá sem hann hafa gagnrýnt. Gott og vel með það. En það er rétt sem kemur fram hjá Matthíasi; dagblað er ekki dómstóll. Að sama skapi á dagblað ekki heldur að vera gerandi í fréttum, ekki taka þátt í að kæra mál til lögreglu, finna lögmenn fyrir væntanlega kærendur, ekki beita þrýstingi sínum á ráðamenn svo hafin verði saksókn gegn þeim sem fjölmiðlinum líkar ekki við, af einhverjum ástæðum. Allt þetta gerði Morgunblaðið, blaðið sem Matthías ritstýrði áður.
Það er ágætt hjá Matthíasi að freista þess að rétta hlut sonar síns. Það dugar þó skammt þegar litið er til hvernig sakamálum sem stýrt er af embætti Haraldar hefur lyktað. Það er von að efasemdir um ágæti embættisins vakni og að spurt sé hvort breytingar þurfi að gera. Matthíasi er tíðrætt um fjölmiðla og í gegn skín gamli moggaandinn, það er að á því blaði séu stunduð meiri og betri vinnubrögð en almennt gerist og að Morgunblaðið sé yfir önnur blöð hafið. Svo mikið er víst að Matthías talar talsvert um stöðu annarra blaða í dag og stöðu þeirra áður. Áhugafólk um sanngjarna og heila fjölmiðla geta ekki annað en mótmælt þeim anda sem kemur fram í grein Matthíasar. Morgunblaðið var notað í upphafi Baugsmálsins, um það er ekki deilt, Morgunblaðið hefur valið að Baugsmálið og olíusvikamálið lúti ekki almennum starfsreglum innan ritstjórnar. Það hefur komið fram í Morgunblaðinu sjálfu að það er ákvörðun núverandi ristjóra að þessi tvö mál fara ekki í hefðbundan fréttastjórn, þeim er fréttastýrt af ritstjóranum sjálfum. Vinnubrögð Morgunblaðsins eru sem betur fer sérstök.
Morgunblaðsgrein Matthíasar svarar ekki spurningum einsog til dæmis þeirri sem kom fram í DV í gær, hefur ríkislögreglustjóri sætt þrýstingi stjórnmálamanna í fleiri málum en olíusvikamálinu?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband