Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Bú­ið í bili

29. september 2006

 Virkj­un­ar­sinn­ar hafa náð sínu fram. Háls­lón er að verða til og í það renn­ur eyði­legg­ing á hverri sek­úndu. Við er­um mörg sem vökn­uð­um of seint, gerð­um okk­ur ekki grein fyr­ir hversu trölls­leg­ar fram­kvæmd­irn­ar voru fyrr en um sein­an. Í upp­hafi voru fá­ir mót­mæl­end­ur sem stóðu með spjöld en sögðu fátt. Leik­ur­inn hef­ur æst, fleiri hafa bæst við og þung­inn er mik­ill. En senni­leg­ast er allt um sein­an. Háls­lón fyll­ist, land­ið breyt­ir um svip og raf­magn mun flæða í fa­brikk­una á Reyð­ar­firði. Ein­hverj­ir verða rík­ir, en það verð­ur ekki allt. Áhrif­in verða mik­il.Þessi mesta fram­kvæmd Ís­lands­sög­unn­ar mun halda uppi minn­ingu þeirra sem mest börð­ust til að allt þetta yrði að veru­leika og líka þeirra sem mest hafa lagst gegn fram­kvæmd­un­um. Trú­lega munu kom­andi kyn­slóð­ir minn­ast and­stæð­inga virkj­un­ar­inn­ar af meiri lotn­ingu en þeirra sem vildu virkja. Það seg­ir tals­vert um þjóð að hún skuli ekki eiga ann­ars úr­kosti til að verða rík­ari, en að leggja jafn mik­ið und­ir og raun er á.Ekki er laust við að ef­ast verði um fram­sýni þeirra stjórn­mála­manna sem mest áhrif höfðu á að virkj­un­in og ál­ver­ið verða að veru­leika.Aðr­ir at­vinnu­veg­ir hafa lið­ið fyr­ir skekkj­una sem varð í efna­hag þjóð­ar­inn­ar, ekk­ert hef­ur geng­ið eft­ir af þeim vætn­ing­um sem voru um at­vinnu fyr­ir Ís­lend­inga við gerð virkj­un­ar­inn­ar og ál­vers­ins. Og Hag­stof­an seg­ir Ís­lend­ing­um fækka á Aust­ur­landi. Vissu­lega mun þjóð­in fá tekj­ur af ál­ver­inu í lang­an tíma, en það eitt get­ur ekki leng­ur rétt­lætt allt sem gert hef­ur ver­ið. Þau rök dugðu áð­ur fyrr, rétt ein­sog áð­ur við­gekkst að meng­un væri urð­uð í jörðu og al­tal­að var að lengi tæki sjór­inn við og í hann var sett­ur all­ur fjand­inn. Nú eru aðr­ar kröf­ur og þær munu með­al ann­ars verða til þess að aldr­ei aft­ur verð­ur leit­að lausna til að bæta fjár­hag þjóð­ar­inn­ar eða ein­stakra byggða með öðru eins og gert var á Kára­hnjúk­um.Með afli þeirra sem hafa frá upp­hafi mót­mælt virkj­un­inni og því afli sem því fólki hef­ur bæst á leið­inni hef­ur orð­ið til stífla, stífla sem stjórn­mála­menn fram­tíð­ar­inn­ar kom­ast ekki yf­ir. Aldr­ei aft­ur skal verða grip­ið til eins rót­tækra að­gerða til redd­ing­ar, ekki til að bæta þjóð­ar­hag, ekki til að bæta hag ein­stakra sveit­ar­fé­laga og ekki til að auka fylgi stjórn­mála­flokka, jafn­vel þó öm­ur­lega standi á hjá þeim.Það sem lær­ist af því sem gert hef­ur ver­ið verð­ur von­andi að hér eft­ir verði far­ið hæg­ar, gert minna og lit­ið meir til fram­tíð­ar. Fari svo að and­mæl­in nú komi í veg fyr­ir fleiri svo stór­tæk­ar að­gerð­ir má segja að stríð­ið vinn­ist en orr­ust­an hafi tap­ast. Fórn­ar­kostn­að­ur verð­ur mik­ill en hugs­an­lega verð­ur ávinn­ing­ur fyr­ir aðr­ar perl­ur í nátt­úru Ís­lands einn­ig mik­ill. Þeir sem njóta munu mest í efna­legu til­liti af trölls­leg­um fram­kvæmd­um á Aust­ur­landi geta ekki lát­ið ein­sog tug­þús­und­ir Ís­lend­inga hafi ekk­ert um mál­ið að segja, að þeim komi þetta ekk­ert við.

Vafa­sam­ur fé­lags­skap­ur

28. september 2006

 Þau tíma­mót hafa orð­ið að varn­ir Ís­lands eru óþekkt­ar. Áð­ur gát­um við deilt um nauð­syn þeirra varna sem voru, en ekki leng­ur. Að­eins tveir Ís­lend­ing­ar eru sagð­ir vita hvaða varn­ir eru til stað­ar eft­ir að banda­ríski her­inn fór héð­an, að mestu. Hann er ekki far­inn að fullu, held­ur eft­ir land­spildu í Grinda­vík og hef­ur áskil­ið sér rétt til að koma hing­að endr­um og sinn­um til æf­inga. Og her­inn fékk sínu fram­gengt.Það er ekki beint nota­legt til­hugs­un­ar að fram­und­an er sam­starf ís­lensku lögg­unn­ar og banda­ríska hers­ins, jafn­vel svo ná­ið að af og til verði skipst á mönn­um. Banda­ríkja­her hef­ur ekki það orð­spor að hann sé endi­lega heppi­leg­ur fé­lags­skap­ur. Her­inn hef­ur stund­að mikl­ar síma­hler­an­ir án dóms­úr­skurða og starf­ræk­ir vond fang­elsi, svo sem Abu Ghraib og Gu­ant­an­amo. Um mest­all­an heim ótt­ast fólk banda­ríska her­inn og með fullri virð­ingu fyr­ir ís­lensku lögg­unni er þessi her senni­leg­ast ekki sá fé­lags­skap­ur sem við vilj­um að lögg­an okk­ar sæki í.Það er eðli­legt að Ís­lend­ing­um standi ekki á sama. Ef leita verð­ur sam­starfs við aðr­ar þjóð­ir er mýkri ásýnd og vina­legri víð­ast ann­ars stað­ar. Þeg­ar þarf að end­ur­gera varn­ir lands­ins, bæði hvað varð­ar hern­að og ekki síð­ur að­gengi að land­inu í flug­höfn­um og við strend­ur lands­ins, er ekk­ert eðli­legra en að al­menn­ing­ur ef­ist um fram­ferði stjórn­mála­manna og emb­ætt­is­manna. Ný­leg dæmi um per­sónu­njósn­ir fyrri ára kalla á að heim­ild­ir til handa yf­ir­völd­um á hverj­um tíma verða að vera þröng­ar og tryggja verð­ur að ekki sé mögu­legt að mis­nota þær heim­ild­ir. Það er ekk­ert að því að ef­ast um heil­indi þeirra sem munu fara með heim­ild­ir til að fylgj­ast með ná­ung­an­um. Og það er enn frek­ar ástæða til að hafa áhyggj­ur ef læri­meist­ar­ar ís­lenskr­ar leyni­þjón­ustu koma frá þeim her sem ný­ver­ið var tek­inn í ból­inu fyr­ir að hafa stund­að meiri per­sónu­njósn­ir en áð­ur þekkt­ust, og allt án þess að hafa dóms­úr­skurði til verk­anna.Við verð­um að fara var­lega á þess­um tíma­mót­um. Það er vanda­verk að spila úr þann­ig að traust hald­ist og ekki verði ástæða til frek­ari efa­semda. Um ára­bil hef­ur hluti þjóð­ar­inn­ar ekki bor­ið traust til lög­reglu og sak­sókn­ara og ný­ver­ið bætt­ist Dav­íð Odds­son við, og bætti reynd­ar um bet­ur og sagði dóms­kerf­inu hér svo ábóta­vant að það ráði að­eins við gæslu­varð­hald­súr­skurði og sjoppu­rán. Með­an sá mað­ur sem mest völd hef­ur haft hér í ára­rað­ir tal­ar þann­ig er eðli­legt að aðr­ir Ís­lend­ing­ar hafi efa­semd­ir. Þess vegna er mik­il ábyrgð lögð á stjórn­völd að fara var­lega í að breyta lög­um á þá leið að leið­ir hins op­in­bera, hvaða nafni sem það nefn­ist, verði þann­ig að per­sónu­njósn­ir verði stund­að­ar hér. Upp­ljóstr­an­ir um ára­tuga eft­ir­lit með ein­staka þegn­um eiga það sam­eig­in­legt, að aldr­ei var ástæða til að­gerða, hvorki til að hand­taka menn eða ákæra. Leyni­þjón­ust­an var rek­in áfram af þrjósku og án nokk­urs ár­ang­urs. Það er saga sem ekki má end­ur­taka.

Rit­skoð­un í stjórn­ar­ráði

26. september 2006

 For­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar, Geir H. Ha­ar­de, hef­ur tek­ið upp nýja og áð­ur óþekkta siði í sam­skipt­um við fjöl­miðla. Þjóð­sög­ur segja reynd­ar að ámóta við­horf hafi ver­ið með­al ráða­manna um og eft­ir miðja síð­ustu öld. For­sæt­is­ráð­herr­ann nú­ver­andi veit­ir helst ekki við­töl nema vita ná­kvæm­lega um hvað verð­ur spurt og hvern­ig. Hann gengst jafn­vel und­ir að hafa við­tal við fjöl­miðla­menn með þeim skil­yrð­um að ein­ung­is verði spurt um það sem hann hef­ur sam­þykkt og ekki um ann­að. Und­ir þetta gang­ast ís­lensk­ir fjöl­miðla­menn, hver af öðr­um. Því mið­ur.Reynd­ar hafa sam­skipti fjöl­miðla og stjórn­mála­manna tek­ið mikl­um breyt­ing­um á löng­um tíma rík­is­stjórna Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks. Áð­ur var að­gengi að æðstu emb­ætt­is­mönn­um allt ann­að og betra. Þeg­ar Stein­grím­ur Her­manns­son var for­sæt­is­ráð­herra var Stein­grím­ur skráð­ur í síma­skrá, rétt ein­sog flest­ir þeir sem höfðu síma. Ef ég man rétt var heima­sími Stein­gríms á þeim tíma 41809. Ráða­menn síð­ustu ára hafa al­mennt fært sig fjær fjöl­miðl­um, þó hafa marg­ir þeirra gef­ið kost á við­töl­um, ým­ist á vett­vangi, á blaða­manna­fund­um og eink­um að lokn­um rík­is­stjórn­ar­fund­um, þó þeir séu ekki vilj­ug­ir til að virða ósk­ir fjöl­miðla­manna og svari helst ekki skila­boð­um.Geir H. Ha­ar­de hef­ur tek­ið upp nýja siði. Al­menn­ir fjöl­miðl­ar ná und­an­tekn­ing­ar­lít­ið ekki sam­bandi við ráð­herr­ann. Síð­ast þeg­ar Blað­ið freist­aði þess að ná tal­i af for­sæt­is­ráð­herra var blaða­mað­ur í stjórn­ar­ráð­inu að lokn­um rík­is­stjórn­ar­fundi og óskaði eft­ir sam­tal­i við ráð­herr­ann. Úr varð að að­stoð­ar­kona ráð­herr­ans spurði við hverju blaða­mað­ur vildi fá svör, sneri inn til fund­ar og kom út aft­ur með af­svör. Spurn­ing­arn­ar voru þess efn­is að for­sæt­is­ráð­herra vildi ekki svara. Hann beitti rit­skoð­un, hann hafn­aði að eiga sam­skipti við fjöl­mið­il sem fjall­aði um mál sem var ráð­herr­an­um ekki þókn­an­legt þá stund­ina. Í þessu til­felli þyrsti blaða­mann­inn í að fá svör við því hvort for­sæt­is­ráð­herra gæti svar­að hverj­ar varn­ir Ís­lands væru nú eft­ir þær breyt­ing­ar sem orð­ið hafa á hátt­um Banda­ríkja­hers á Mið­nes­heiði. Flókn­ara var það ekki.Á sama tíma og ráð­herra leyf­ir sér að reyna að stjórna því hvað sé í frétt­um og hvað ekki seg­ir Bald­ur Þór­halls­son pró­fess­or frá því að hann hafi sætt hót­un­um vegna starfa sinna, eða öllu held­ur vegna þess að ein­staka stjórn­mála­mönn­um hef­ur ekki lík­að nið­ur­stöð­ur úr rann­sókn­um fræði­manns­ins og þess vegna hafi hann ver­ið var­að­ur við. Ekki eru það bara munn­mæli, því Bald­ur á bréf frá hátt­sett­um emb­ætt­is­manni sem spurði hvern­ig Bald­ur vog­aði sér að fjalla um Ís­land og Evr­ópu­sam­band­ið og að hann væri kom­inn út í hel­myrk­ur öfga. Í helg­ar­við­tal­i við Blað­ið sagði Bald­ur: „Ég held líka að marg­ir stjórn­mála­menn á Ís­landi séu haldn­ir þeim mis­skiln­ingi að bæði fræði­menn og blaða­menn hafi pól­it­ísk­an til­gang með öllu sem þeir gera. Það er eðli­legt að stjórn­mála­menn hafi pól­it­ísk mark­mið en það er mis­skil­ing­ur að halda að aðr­ir hafi það.” Þetta eru góð orð og lýsa svo vel því and­rúmi sem nú er ráð­andi.

Lýð Odds­son á þing

22. september 2006

 Senn líð­ur að því að þing komi sam­an eft­ir sum­ar­frí. Þing­menn eiga enn eft­ir tvær vik­ur í eirð­ar­leysi eða til ann­arr­ar ráð­stöf­un­ar, að eig­in vali. Sum­ir þeirra eru dug­leg­ir og þurfa und­ir­bún­ing áð­ur en þing­störf­in hefj­ast. Aðr­ir eru það ekki og taka líf­inu því ró­lega þess­ar tvær vik­ur sem enn lifa af frí­inu, rétt ein­sog þeir hafa gert í svo marg­ar vik­ur. Þing­ið hætti óvenju snemma í vor vegna byggða­kosn­ing­anna og kom sam­an í fáa daga að þeim lokn­um. Þann­ig hef­ur sum­ar­frí þing­manna var­að í mán­uði.Þing­menn munu ef­laust verða á einu máli um að hafa þing­störf­in í vet­ur í styttra lagi. Nýtt þing verð­ur kos­ið í vor og kosn­ing­anna vegna munu þing­menn sam­þykkja að fara snemma heim, senni­lega seint í mars eða snemma í apr­íl. Með jóla­leyfi, páska­fríi og öðr­um hlé­um mun þing­ið starfa í um hálft ár að þessu sinni. Það hef­ur svo sem oft gerst áð­ur.Við sem ekki eig­um sæti á Al­þingi velt­um fyr­ir okk­ur hvað þing­menn að­haf­ist mán­uð eft­ir mán­uð án þess að hafa nein­ar starfs­skyld­ur. Sum­ir þeirra hafa haft mörg orð um all­skyns und­ir­bún­ing og að stjórn­mála­menn eigi helst aldr­ei frí; aðr­ir þing­menn tal­a bara ekk­ert um starf­ið í frí­tím­an­um og aðr­ir hafa ját­að að ekki sé við margt að vera drjúg­an hluta árs­ins. Löngu er tíma­bært að færa starfs­tíma Al­þing­is að nú­tím­an­um. Enn er mið­að við sauð­burð og rétt­ir. Sú var tíð­in að fjöldi bænda sat á þingi; eign­að­ist bóndi sæmi­legt bú var leið­in greið. Hann varð Fram­sókn­ar­mað­ur og síð­an þing­mað­ur. Þá varð þing­ið að taka mið af að­stæð­um fjölda þing­manna. Þetta hef­ur gjör­breyst. Í svip­inn kem­ur að­eins einn þing­mað­ur í hug­ann sem jafn­framt er al­vöru bóndi, en það er Drífa Hjart­ar­dótt­ir sem ólíkt bænd­um og þing­mönn­um fyrri ára er hvorki karl né fram­sókn­ar­mað­ur. Ekki er mögu­legt að sætt­ast á að þing­störf­in taki mið af að­stæð­um Dríf­ar einn­ar, enda ótrú­legt að hún ætl­ist til þess. Kannski kunna þing­menn því vel að fara í frí snemma vors og mæta aft­ur snemma vetr­ar. Sauð­burð­ur og slát­ur­tíð hafa hvort eð er lengi ekki skipt máli hjá þing­heimi. Þarf­ir þing­manna virð­ast bara vera þær að þeir kjósa að vera ut­an starfs­skyldna í lang­an tíma ár hvert.Próf­kjör og aðr­ar leið­ir til að velja fram­bjóð­end­ur fyr­ir þing­kosn­ing­arn­ar eru fram­und­an. Þá munu marg­ir stíga fram og sækj­ast eft­ir þing­setu. Sum­ir fram­bjóð­end­anna vilja láta til sín taka, aðr­ir ekki, hugsa frek­ar um þing­starf­ið sem huggu­lega vinnu. Lot­tó­ið hef­ur bú­ið til per­sónu, Lýð Odds­son, sem er full­ur iðju­leys­is. Hann á að hafa unn­ið mik­ið í lot­tó­inu og veit ekki hvað hann á af sér að gera. Stund­um minn­ir hann á þing­mann, eink­um og sér í lagi þing­mann að sumri. Lýð­ur vakn­ar snemma á morgn­ana, bara af því að hon­um þyk­ir svo gott að sofna aft­ur. Ef hægt væri að kjósa sum­ar­þing­menn og vetr­ar­þing­menn væri Lýð­ur kjör­inn.

Fram­boð og eft­ir­sjá

21. september 2006

 Sól­veig Pét­urs­dótt­ir, for­seti Al­þing­is, hef­ur ákveð­ið að vera ekki í kjöri til Al­þing­is næsta vor. Hún ætl­ar að draga sig út úr stjórn­mál­un­um. Sjálf seg­ir hún best að hætta með­an eft­ir­sjá sé að sér. Ekki skýrði hún hver sæi eft­ir henni né hvers vegna. Sól­veig hef­ur aldr­ei ris­ið hátt sem stjórn­mála­mað­ur. Bara alls ekki og þess vegna er eng­in eft­ir­sjá að henni. En best er að hún haldi að svo sé.Það má segja um fleiri sem nú ætla að láta af af­skipt­um af stjórn­mál­um eða hafa hætt á liðn­um mán­uð­um. Jó­hann Ár­sæls­son er einn þeirra. Hann hef­ur set­ið á Al­þingi í sex­tán ár og eft­ir þetta lang­an tíma er hann samt ekki þjóð­þekkt­ur mað­ur. Svo lít­ið hef­ur far­ið fyr­ir Jó­hanni og hans mál­stað að þjóð­in hef­ur al­mennt ekki veitt hon­um at­hygli. Þann­ig að ekki er víst að eft­ir­sjá sé að Jó­hanni.Svip­að er ástatt um marga aðra þing­menn, frá þeim hef­ur fátt eft­ir­tekt­ar­vert kom­ið og marg­ir þeirra ná aldr­ei að verða þjóð­þekkt­ir, þrátt fyr­ir að sitja ár­um sam­an á Al­þingi. Segja má að það sé svo sem ekki endi­lega rétti mæli­kvarð­inn. Þeir eru ekki endi­lega best­ir sem hæst láta, en samt er sér­stakt að gegna veiga­miklu emb­ætti í lang­an tíma án þess að vekja at­hygli. Staða hins al­menna þing­manns er senni­lega ekk­ert sér­stök. Verði hann ekki vin­sæll í spjall­þætti og sé hann ekki þess dug­legri að leggja fram mál, spyrj­ast fyr­ir og gera ann­að sem vek­ur eft­ir­tekt, dag­ar hann uppi ein­sog hver ann­ar emb­ætt­is­mað­ur. Án allr­ar at­hygli og án þess að hon­um sé veitt eft­ir­tekt.Sól­veig Pét­urs­dótt­ir náði ekki að spila vel úr þeim spil­um sem hún fékk á hönd­ina. Henn­ar verð­ur minnst sem ráð­herr­ans sem lét inn­rétta fyr­ir sig einka­sal­erni og ráð­herr­ans sem lét gera pappa­lögg­urn­ar. Vel má vera að Sól­veig hafi gert ann­að og merk­ara, en senni­lega muna það fá­ir nema hún og henn­ar nán­ustu. Ol­íu­svika­mál eig­in­manns­ins hef­ur ef­laust skemmt fyr­ir Sól­veigu og ráð­ið mestu um að hún hafi met­ið stöð­una þann­ig að eng­ir mögu­leik­ar væru á end­ur­kjöri og frek­ari þátt­töku í stjórn­mál­um. Það er ör­ugg­lega rétt mat, hitt er ör­ugg­lega ekki rétt mat, að eft­ir­sjá sé að Sól­veigu. Henni hef­ur ekki tek­ist að mynda eft­ir­spurn og þess vegna er eng­in eft­ir­sjá. Það er held­ur eng­in eft­ir­sjá að Jó­hanni Ár­sæls­syni og það var eng­in eft­ir­sjá að Tóm­asi Inga Ol­rich þeg­ar hann var gerð­ur að sendi­herra í Par­ís. Sama er hægt að segja um marga aðra þing­menn sem hafa lát­ið af störf­um. Sumra er sakn­að, ekki endi­lega vegna þess hversu mikl­ir þing­skör­ung­ar þeir hafa ver­ið, held­ur vegna ein­hvers ann­ars. Kannski vegna fram­komu, greind­ar, orð­heppni eða vegna ann­arr­ar skemmti­legr­ar fram­göngu. Það verð­ur ekki sagt um Sól­veigu Pét­urs­dótt­ur, ekki um Jó­hann Ár­sæls­son og ekki um svo marga aðra þing­menn. Að þeim hef­ur ekki ver­ið nein eft­ir­sjá og eng­in eft­ir­spurn.

Verra en fjór­tán tvö

20. september 2006

 Ein mesta nið­ur­læg­ing sem Ís­lend­ing­ar hafa mátt þola frá öðr­um þjóð­um er fjór­tán tvö tap­ið gegn Dön­um fyr­ir tæp­um fjöru­tíu ár­um. Margt bend­ir til þess að nið­ur­læg­ing okk­ar í varn­ar­við­ræð­un­um verði enn meiri og verði okk­ur til að­hlát­urs um ókomna tíð.Þeg­ar ljóst var að Kan­inn ætl­aði að fara héð­an var fátt gert og Dav­íð Odds­son treysti lengst­um á meint­an vin­skap sinn við Ge­orge Bush. Hall­dór Ás­gríms­son sat og horfði á og hef­ur sagt eft­ir á að Dav­íð beri ábyrgð­ina á því hversu mik­ið hann treysti á Kan­ann. Ann­ar for­ing­inn var blind­ur af dýrk­un á Kanan­um, hin­um leist ekk­ert á en hafði ekki mann­dóm í sér til að bregð­ast við.Leynd­in yf­ir gangi við­ræðn­anna hef­ur ver­ið und­ar­leg og kall­að fram ýms­ar efa­semd­ir. Heima­menn á Suð­ur­nesj­um hafa ekk­ert feng­ið að vita, hvorki ráða­menn sveit­ar­fé­laga né tals­menn starfs­fólks­ins. All­ir sem hags­muni hafa bíða þess að fá að fylgj­ast með, bíða frétta. Á sama tíma þeg­ir for­sæt­is­ráð­herr­ann nú­ver­andi og að­al­ut­an­rík­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar, Geir Ha­ar­de. Kannski hef­ur hann ekki frá neinu að segja og kýs að þegja. Að­stoð­ar­ut­an­rík­is­ráð­herr­ann Val­gerð­ur Sverr­is­dótt­ir seg­ir ekk­ert og veit kannski ekk­ert. Ís­lensk­ir fjöl­miðl­ar hafa fylgst með ís­lensku sendi­nefnd­inni þeg­ar hún geng­ur svip­þung á fundi og af fund­um með hern­að­ar­yf­ir­völd­um stór­veld­is­ins. Eng­ar frétt­ir fást og þögn­in er vand­ræða­leg og er senni­lega ekk­ert ann­að en þögn um vand­ræði, þögn um hall­ær­is­lega stöðu okk­ar manna í glímu við and­stæð­ing sem virð­ist okk­ur fremri á öll­um svið­um.Senni­leg­ast semja okk­ar menn um við­skiln­að Kanans þann­ig að hann skil­ur eft­ir ein­hver tæki og tól, borg­ar ein­hverja aura sem munu hvergi duga til að hreinsa upp alla þá meng­un sem eft­ir verð­ur. Það hef­ur kom­ið skýrt fram hér í Blað­inu að í ára­rað­ir var versti úr­gang­ur­inn urð­að­ur af varn­ar­lið­inu og víða er jarð­veg­ur illa meng­að­ur þess vegna. Ekki er minnsta von til þess að geng­ið verði frá för Kanans þann­ig að af­leið­ing­arn­ar af hans eig­in um­gengni bitni á öðr­um en okk­ur Ís­lend­ing­um. Allt gegn lágu gjaldi. Reisn okk­ar er ekki meiri en svo.Meint­ur vin­skap­ur Banda­ríkja­for­seta og Dav­íðs Odds­son­ar hef­ur hugs­an­lega orð­ið okk­ur dýr. Í stað þess að bregð­ast strax við þeg­ar ljóst var að her­inn færi var lát­ið reka á reið­an­um. Staða okk­ar er ekki síst þess vegna hlá­leg. Tóm­hent kem­ur ís­lenska sendi­nefnd­in af hverj­um fund­in­um af öðr­um. Al­gjör þögn rík­ir um hvað ber á milli, um hvað er tal­að, hvers við krefj­umst, hvers þeir krefj­ast og meira að segja er eng­in vitn­eskja um hverj­ar varn­ir lands­ins eru. Ráða­menn sem sjá and­skot­ann í hverju horni og vilja stofna heri og leyni­þjón­ust­ur sögðu ekk­ert, kannski vegna þess að þeir vissu ekki að eng­inn horfði á rat­sjár varn­ar­liðs­ins, eng­inn fylgd­ist með. Varn­irn­ar voru farn­ar og nið­ur­læg­ing ráða­manna op­in­ber­að­ist.

Rúss­íbana­hag­stjórn

15. september 2006

 Dav­íð Odds­son og klapp­lið­ið hans í Seðla­bank­an­um komu ekki á óvart. Stýri­vext­ir voru hækk­að­ir eins og ráð var fyr­ir gert. Ut­an bank­ans er ekki klapp­að. Aðr­ir sem bera ábyrgð á vel­ferð þjóð­ar­inn­ar, svo sem tals­menn launa­fólks, eiga varla orð til að lýsa hag­stjórn­inni. Rúss­íbana­hag­stjórn, seg­ir hag­fræð­ing­ur Al­þýðu­sam­bands­ins.Í sum­ar gerðu deil­end­ur á vinnu­mark­aði og rík­is­stjórn með sér sam­komu­lag til að slá á verð­bólg­una. Von­ast var til að Dav­íð léti af eða að minnsta kosti drægi úr hækk­un vaxta með­an ár­ang­ur af að­gerð­um deil­end­anna og rík­is­ins kæmi í ljós. Þeim varð ekki að ósk sinni, ekki vinnu­veit­end­um, ekki laun­þeg­um og ekki rík­is­vald­inu. Dav­íð hirti ekk­ert um ósk­irn­ar og hækk­aði vext­ina. Hann ræð­ur. Þó svo all­ir aðr­ir væru sam­mála skorti það sem mestu skipt­ir á Ís­landi og hef­ur gert lengi. Það vant­aði sam­þykki Dav­íðs og því eru vext­ir enn hækk­að­ir og aðr­ir sem eiga að telj­ast ger­end­ur í hag­stjórn­inni sitja mátt­vana hjá.Þeir segja þetta merki­legt af hálfu Seðla­bank­ans, að hækka enn vexti við lok hag­sveifl­unn­ar þar sem það kall­ar á harka­legri lend­ingu en ann­ars hefði ver­ið. Draga mun úr láns­fé og draga mun úr fram­kvæmd­um hjá litl­um sem stór­um. Það bæt­ist við að stór­fram­kvæmd­ir verða minni og hag­vöxt­ur fell­ur og kaup­mátt­ur hækk­ar minna en hann hef­ur gert, jafn­vel ekk­ert. Þau sem hafa áhyggj­ur af efna­hags­stjórn­inni kalla á stöð­ug­leika, stöð­ug­leika og aft­ur stöð­ug­leika. Vont er fyr­ir alla að lifa í rúss­íbana­hag­kerfi. Fyr­ir­tæk­in búa við það að á ein­um tíma geng­ur ótrú­lega vel og á næsta þver­öf­ugt og það án þess að stjórn­end­urn­ir fái nokkru um ráð­ið. Þetta ástand hef­ur mik­il áhrif á af­komu okk­ar þegn­anna. Rúss­íbana­hag­stjórn­in hef­ur á sér marg­ar mynd­ir. Til dæm­is kvel­ur hún sprota­fyr­ir­tæki sem leita til ann­arra landa þar sem meiri ró er og rekstr­ar­for­send­ur eru meiri og betri.En hverj­um eig­um við að trúa? Dav­íð sem gef­ur ekk­ert eft­ir og herð­ir tök­in eða hin­um sem segja hann og hans fólk vera hald­ið fí­tons­krafti í vaxta­hækk­un­um sem geri fátt ann­að en að kalla fram harka­lega lend­ingu úr efna­hags­flugi sem reynd­ar Dav­íð hóf sem for­sæt­is­ráð­herra, og sem hann vill núna ljúka með brot­lend­ingu, eft­ir því sem aðr­ir segja.Á sama tíma kem­ur fram að fleiri Ís­lend­ing­ar en áð­ur vilja kanna að­ild að Evr­ópu­sam­band­inu. Þar blas­ir við okk­ur margt spenn­andi, svo sem lægri vext­ir, lægra mat­ar­verð og meiri stöð­ug­leiki. Vissu­lega spenn­andi, en áð­ur en til greina kem­ur að við sækj­um um að­ild að evr­unni einni eða Evr­ópu­sam­band­inu verð­um við víst að laga til heima fyr­ir og ræða sam­an af al­vöru og ekki af heift stjórn­mál­anna. Það eru kost­ir og gall­ar við hvoru­tveggja, evr­una og að­ild að Evr­ópu­sam­band­inu. Orð eru til alls fyrst, það á við ef við ósk­um að­ild­ar og ef við ætl­um sam­an að reyna að kom­ast úr rúss­íban­an­um. Eins og ráð­end­ur í hag­stjórn­inni töl­uðu og gerðu í gær eru von­irn­ar litl­ar. Því mið­ur.

Gott hjá Ög­mundi

13. september 2006

 Ög­mund­ur Jón­as­son stóð sig vel þeg­ar hann gekk af fundi þar sem út­deilt var upp­lýs­ing­um sem þegja á um. Það er rétt hjá þing­mann­in­um að af­þakka upp­lýs­ing­ar sem hann má ekki segja frá. Hann, einn þing­manna, gerði sér grein fyr­ir hver staða hans er, hvert hann sæk­ir um­boð sitt. Aðr­ir þing­menn létu ósó­mann yf­ir sig ganga. Fengu upp­lýs­ing­ar sem eru þeim með öllu gagns­laus­ar þar sem ekk­ert er með þær að gera. En Lands­virkj­un tókst enn frek­ar en áð­ur að láta hluta þing­heims taka þátt í þögn­inni gagn­vart þjóð­inni, gegn eig­end­um fyr­ir­tæk­is­ins.Hver arð­sem­in verð­ur af Kára­hnjúka­virkj­un er með­höndl­að sem hern­að­ar­leynd­ar­mál og sama er að segja um stöðu okk­ar gagn­vart Banda­ríkja­mönn­um vegna varna lands­ins. Merki­legt hvern­ig ráða­menn láta; þeir þegja um sjálf­sögð­ustu hluti og þá sjald­an þeir tjá sig þá er það í smá­skömmt­um eða jafn­vel með enn verri hætti. Þing­nefnd fær ein­hvers­kon­ar upp­lýs­ing­ar gegn lof­orði um að halda sann­leik­an­um frá um­bjóð­end­un­um. Og flest­ir þing­menn þiggja. Þetta er merki­legt.Þess vegna var það gott hjá Ög­mundi að ganga af fundi. Ef­laust líð­ur hon­um bet­ur á eft­ir; þarf ekki að ganga um með upp­lýs­ing­ar sem hann fékk sem þing­mað­ur en má ekki tal­a um við þá sem kusu hann, við þá sem veittu hon­um um­boð.Öll sú leynd sem ver­ið er að búa til um alla hluti er sér­stök. Meira að segja var upp­lýs­ing­um um fá­rán­leg­an rekst­ur stræt­is­vagna hald­ið frá eig­end­un­um, og það var sagt gert til að draga ekki úr gleði yf­ir mis­heppn­að­asta leiða­kerfi sem sög­ur fara af, leiða­kerfi sem hef­ur vald­ið miklu ósætti og óánægju.Nú búa nokkr­ir þing­menn að upp­lýs­ing­um um end­ur­skoð­aða arð­semi af Kára­hnjúka­virkj­un, en það er allt. Þeir hafa geng­ist und­ir skil­yrði; þeir mega ekk­ert segja um það sem þeir fengu að vita. Lands­virkj­un setti skil­yrði og þau halda. Á sama tíma segja stjórn­ar­menn í Lands­virkj­un fyr­ir­tæk­ið ekki vera rek­ið sem fyr­ir­tæki, frek­ar sem pól­it­ísk­an klúbb. Bæj­ar­stjór­inn á Ak­ur­eyri, sem á sæti í klúbbn­um, sagði í við­tal­i að við þetta kerfi væru kost­ir. Það er ekki víst að þeim sem eru ut­an við klúbb­inn finn­ist það sama, að eitt stærsta fyr­ir­tæki lands­ins sem er í op­in­berri eigu lúti ekki eðli­leg­um lög­mál­um, held­ur stjórn­ist af stjórn­mál­um. Það þarf ekki að koma á óvart þeg­ar lit­ið er til þess að helst eru stjórn­mála­menn, ekki síst þeir sem eru hætt­ir, vald­ir til stjórn­ar­setu.Allt þetta á að kalla á við­brögð. Það sem Ög­mund­ur gerði breyt­ir eitt og sér kannski ekki miklu. Það vek­ur samt at­hygli á hvern­ig far­ið er með þing­ið og hvern­ig þing­menn eru reiðu­bún­ir að fara með þjóð­ina. Þiggja það sem að þeim er rétt, bara fyr­ir sig, en hirða minna um fólk­ið sem veit­ir um­boð­ið. Þess vegna var þetta fínt hjá Ög­mundi. Það er eng­inn til­gang­ur með því að búa yf­ir upp­lýs­ing­um sem ekki má fjalla um.

Hálf­ur ráð­herra

12. september

 Val­gerð­ur Sverr­is­dótt­ir baðst ein­hverra hluta vegna und­an helsta verk­efni ut­an­rík­is­ráð­herra þeg­ar hún tók við emb­ætt­inu. Val­gerð­ur Sverr­is­dótt­ir er þess vegna að­eins hálf­ur ráð­herra, en á full­um laun­um. Varn­ar­mál­in eru á borði for­sæt­is­ráð­herra sem er manna snjall­ast­ur í að þegja og fela upp­lýs­ing­ar. Nú hef­ur kom­ið í ljós, nán­ast öll­um að óvör­um, að eng­inn hef­ur fylgst með loft­ferð­um við Ís­land í nokk­urn tíma. For­sæt­is­ráð­herra hef­ur von­andi vit­að af þessu, en þó kos­ið að segja ekki frá. Sú krafa er ekki gerð til Val­gerð­ar Sverr­is­dótt­ur ut­an­rík­is­ráð­herra að hún hafi vit­að af varn­ar­leys­inu. Enda er það ekki á henn­ar borði. Hún af­þakk­aði stærsta verk­efni ráðu­neyt­is­ins.Hvers vegna ætli það líð­ist að ut­an­rík­is­ráð­herra fari ekki með varn­ar­mál og hvers vegna geng­ur það í lang­an tíma að ut­an­rík­is­mála­nefnd viti ekki af varn­ar­leys­inu? Svör­in eru aug­ljós.Til að byrja með sann­ar staða Val­gerð­ar að í raun skipt­ir það eitt mál að halda rík­is­stjórn­inni sam­an. Ráð­herr­ar koma og ráð­herr­ar fara af meiri krafti en dæmi eru um. Fram­sókn er svo illa leik­in að flokk­ur­inn hafði eng­an til að gegna emb­ætti ut­an­rík­is­ráð­herra; bekk­ur­inn er bara of þunnt skip­að­ur og þess vegna varð úr að Val­gerð­ur var sett í ut­an­rík­is­ráðu­neyt­ið til að flokk­ur­inn teld­ist halda því emb­ætti, en þar sem hún treysti sér ekki til verks­ins var fund­in þessa sér­staka leið að fela öðr­um að fara með eina mál­ið sem skipt­ir veru­legu máli. Eft­ir sit­ur Val­gerð­ur í emb­ætti til þess eins að vista það fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn, til að draga úr eða til að fela nið­ur­læg­ing­una.Ut­an­rík­is­mála­nefnd var ekki sett inn í stöðu varn­ar­mála vegna þess að hún skipt­ir engu máli, alla vega ekki miklu. Á Ís­landi er ráð­herra­ræði og það er í mesta lagi fyr­ir kurt­eis­is­sak­ir sem þing­nefnd­ir eru sett­ar inn í mál, og þá helst ef ein­staka þing­menn hafa kvart­að sár­an. Mein­ing­in með því að setja þing­ið inn í ein­stök mál er í sjálfu sér eng­in. Ekki nokk­ur. Það er bara þann­ig að það þarf að gera ým­is­legt til að halda frið­inn, til að láta hlut­ina líta sem best út. En í erli valds­ins get­ur það svo sem gleymst og lái for­sæt­is­ráð­herra hver sem vill þó hann upp­lýsi þing­ið ekki um þetta mál. Það hefði engu breytt. Stjórn­ar­and­stæð­ing­ar hefðu kannski hróp­að á torg­um. Ekki hafa þeir þing­ið til þess. Það er enn í sum­ar­fríi og hef­ur ver­ið síð­an snemma í vor. Stjórn­ar­sinn­ar hefðu hvort eð er sagt þetta allt í besta lagi, ráð­herr­ana alla vera að gera rétt. Þann­ig er það og þann­ig verð­ur það. Þing­menn ganga oft­ast lengst allra í að lít­il­lækka eig­in störf og eig­in stöðu.Staða þjóð­ar­inn­ar væri ör­ugg­lega ekki verri og ekki betri þó Val­gerð­ur væri al­vöru ráð­herra og sinnti öll­um störf­um ut­an­rík­is­ráð­herra. Það skipti senni­lega engu. Varð­veisla henn­ar á emb­ætt­inu fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn sýn­ir bet­ur en flest ann­að að stjórn­mál­in eru fyr­ir flokk­ana og ráða­menn­ina en ekki öf­ugt.

Bar­smíð­ar lög­reglu

7. september 2006

 Las í blaði að lög­regla hefði þurft að beita kylf­um í átök­um við hóp ung­linga. Ef það er rétt þá er það vænt­an­lega mat lög­reglu að svo hafi ver­ið. Lík­lega eru ung­ling­arn­ir á öðru máli en lög­regl­an. Það er all­send­is óvíst að ung­ling­arn­ir, eða all­ir aðr­ir en lög­regl­an, hafi sama mat á hvort lög­regla þurfi að beita bar­efli á borg­ar­ana.Um­ræð­an um lög­regl­una snýst mest um að efla þurfi lög­reglu, stofna nýj­ar deild­ir sem hafi víð­tæk­ari heim­ild­ir en nú er og svo bæt­ast við full­yrð­ing­ar um að beita þurfi bar­efl­um. Er ekki rétt að hinkra að­eins við? Vissu­lega koma upp að­stæð­ur þar sem fólki og þar á með­al lög­reglu staf­ar ógn af fram­ferði ein­hverra glæpa­manna. En það er ekki hið dæmi­gerða og drukkn­ir ung­ling­ar rétt­læta ekki bar­smíð­ar lög­reglu nema þeir hafi brot­ið harka­lega af sér. Bar­smíð­ar lög­reglu hafa ekki ver­ið rök­studd­ar.Halda mætti að þeir sem stýra lög­regl­unni séu her­ská­ir. Í stað þess að efla traust á milli lög­reglu og borg­ar­anna er nær ein­ung­is rætt um meira vald og meiri ógn af lög­reglu.Al­mennt ber að hræð­ast ef lög­regla hef­ur of víð­tæk­ar heim­ild­ir, bæði til vopna­burð­ar og beit­ing­ar vopna, sem og til með­ferð­ar upp­lýs­inga um borg­ar­ana. Jón­as Krist­jáns­son hef­ur áhyggj­ur af hugs­an­legri ís­lenskri leyni­þjón­ustu og skrif­ar á vef sinn: „Patr­ick Gray ját­aði fyr­ir banda­rískri þing­nefnd að hafa eytt gögn­um til að verja Nix­on Banda­ríkja­for­seta falli. Ge­orge J. Te­net gerði það sama fyr­ir Ge­orge W. Bush for­seta, en var fræg­ast­ur fyr­ir að segja það vera „piece of cake" að finna ger­eyð­ing­ar­vopn í Ír­ak. Þetta eru fræg­ustu for­stjór­ar CIA, ágæt dæmi um, að leyni­þjón­ust­ur fara úr bönd­um, þótt þær séu vel meint­ar. Hið sama mun ger­ast með leyni­þjón­ustu Björns Bjarna­son­ar dóms­mála­ráð­herra. Hún mun gefa rang­ar upp­lýs­ing­ar, verða stað­in að svín­aríi og hafa af­skipti af inn­lend­um stjórn­mál­um, til dæm­is með njósn­um um stjórn­ar­and­stæð­inga.”Það er mik­ið til í þessu. Vel má vera að þeir sem und­ir­búa leyni­þjón­ustu hafi ekk­ert af þessu í huga, en heim­ild­ir til per­sónu­njósna verða til og all­send­is óvíst er hverj­ir fara með heim­ild­irn­ar næst og hvern­ig sam­fé­lag­ið verð­ur. Það er ástæða til að ótt­ast. Kannski sýna síma­hler­an­ir fyrri ára það ein­mitt. Var­ist er af krafti til að fela upp­lýs­ing­arn­ar. Það mun end­ur­taka sig ef hér verð­ur leyni­þjón­usta.Best er að fara var­lega. Fyr­ir ekki svo löngu hefði þótt ótækt að lög­regla not­aði bar­efli á drukkna ung­linga án þess að það drægi dilk á eft­ir sér. Í dag er það tek­ið svo gilt að fyr­ir­vara­laust er tal­að um að það hafi þurft að beita of­beldi. Eng­in gagn­rýni, ekk­ert at­huga­vert. Sama mun vænt­an­lega ger­ast með leyni­þjón­ustu, hægt og bít­andi verð­ur hún fyr­ir­ferð­ar­meiri, meira ógn­andi, verri og verri. Vin­sam­leg­ast hinkr­um við.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband