Sök bítur sekan

Sök bítur sekan Merkilegt að hugsa til baka og rifja upp kjörtímabilið 1987 til 1991. Þá myndaði Þorsteinn Pálsson ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki. Formenn þeirra flokka, Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson, voru augljóslega aldrei sælir í samstarfinu. Steingrímur vakti til að mynda þjóðarathygli þegar hann, þá starfandi utanríkisráðherra, boðaði til almenns stjórnmálafundar þar sem hann sagði ástand efnahagsmála vera í uppnámi, sagði Róm brenna. Enda fór svo að þeir félagar Steingrímur og Jón Baldvin sprengdu ríkisstjórnina, fóru á bakvið forsætisráðherrann og mynduðu nýja ríkisstjórn.Til að það tækist fengu þeir Alþýðubandalagið, undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, og Borgaraflokkinn í lið með sér. Svavar Gestsson varð ráðherra í nýrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Fáir þingmenn hafa verið harðari og mælskari í átökum við andstæðinga sína en Svavar. Hann var andstæðingum sínum erfiður. Nú hefur verið upplýst að Streingrímur og Jón Baldvin sprengdu ekki aðeins ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, heldur gerðu þeir gott betur. Þeir fyrirskipuðu rannsóknir á meintum tengslum Svavars, sem þá var orðinn samráðherra þeirra í nýju ríkisstjórninni, við Austur-Þýsku leyniþjónustuna, Stasi, sem var hrikaleg og vond. Þeir félagarnir fengu engar upplýsingar um landráð eða aðrir sakir Svavars. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Svavar hafi á nokkurn hátt unnið fyrir erlend ríki. Ekki frekar en í öðrum málum fyrri tíma. Allar þær símahleranir og persónunjósnir sem sannarlega voru stundaðar hér eiga það sammerkt að hafa engu skilað, enga sekt sannað og aðeins verið byggðar á ótta ráðandi afla hverju sinni. Rannsóknir að beiðni Steingríms og Jón Baldvins eru svo nærri okkur í tíma að réttast er að byrja á að leiða fram allan sannleika um þær. Er það svo að ráðherrar geti fengið embættismönnum það verk að fara um heiminn og tína saman gögn fyrri ára í von um að þau komi pólitískum andstæðingum illa? Þarf ekki sérstakar heimildir til þannig skítverka, eða geta einstaka ráðherrar fyrirskipað slíkt og látið ríkið borga kostnaðinn án þess að það komi fram í reikningsbókum eða öðrum skrám? Gerist þetta jafnvel enn?Jón Baldvin uppástendur að sími hans hafi verið hleraður meðan hann var utanríkisráðherra. Við verðum að trúa manninum og ganga út frá því sem vísu að hann sé þess fullviss að svo hafi verið. Opinber rannsókn mun væntanlega leiða fram sannleikann í því máli. Við bíðum spennt. Hvers vegna Jón Baldvin gerði ekkert með þessa vitneskju á sínum tíma er annað mál og sérstakt. Þá vissi hann af rannsókinni sem hann fyrirskipaði um meint tengsl Íslendinga, og sérstaklega Svavars Gestssonar, við leyniþjónustu Austur-Þýsklands. Getur verið að það hafi dregið úr vilja Jóns Baldvins á að láta rannsaka hugsanlegar símahleranir fáum árum síðar? Kann að vera, en auðvitað verður þetta allt rannsakað og niðurstöðurnar munu ýmist hreinsa gerendur af ásökunum eða sanna sektir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband