Maður að meiri

  Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, hefur dregið framboð sitt í prófkjöri Samfylkingarinnar til baka. Þessari ákvörðun Gylfa ber að fagna. Hann hefur veigameira hlutverki að gegna sem framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins en sem einn af sextíu og þremur þingmönnum þjóðarinnar. Hjá Alþýðusambandinu hafa verk skipast þannig að Gylfi hefur verið helsti talsmaður þess og eflaust þýðingarmesti starfsmaðurinn.Sennilega aldrei verið meiri þörf en nú að Alþýðusambandið verði hafið yfir alla flokkadrætti en nú. Alþýðusambandið hefur tekið algjöra forystu í verðlagseftirliti og framlag þess er stórkostlegt. Vegna væntanlegra leiðréttinga á matarverði er þörfin fyrir verðlagsvakt brýnn nú en nokkru sinni. Þess vegna skiptir allan almenning svo miklu að Alþýðusambandið standi sig í þeirri vinnu sem framundan er og gefi ekki á sér höggstað. Hér á þessum stað var vikið að þessu fyrir fáum dögum. Þá stóð eftirfarandi. “Alþýðusambandið hefur staðið sig vel á verðlagsvaktinni síðustu ár. Sá hængur er á að framkvæmdastjóri sambandsins og helsti talsmaður þess er sjálfur í framboði og hann getur ekki gegnt báðum hlutverkum samtímis og fyrir það geldur Alþýðusambandið næstu vikur og næstu mánuði nái framkvæmdastjórinn árangri í prófkjöri. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Alþýðusambandið hyggist bregða við skertum trúverðugleika. Þetta er alvont þar sem Alþýðusambandið er nauðsynlegur þátttakandi í eftirliti komandi vikna og mánaða.”Nú hefur Gylfi Arnbjörnsson stigið til baka og vonandi tekst honum að leiða sinn hóp áfram í krefjandi verkefnum næstu mánaða. Svo miklu skiptir að eftirgjöf ríkisvaldsins skili sér til þeirra sem eiga að njóta ávinninganna, en hverfi ekki til framleiðenda og seljenda. Takist Alþýðusambandinu og öðrum sem málið varðar að gæta þess að ávinningurinn skili sér alla leið verður hagur fjölskyldnanna í landinu svo mikill. Verðtryggð lán verða hagstæðari á sama tíma og nauðsynlegustu vörur hvers heimilis, það er maturinn, verður á öðru og betra verði.Það skiptir svo miklu máli að allir leggist á eitt, líka að Gylfi Arnbjörnsson geri það af fullu afli. Það munar um minna. Það eru nægir til að berjast um fá þingsæti og völd og áhrif einstakra þingmanna eru ekki mikil. Þingræðið hefur stórskaðast og framkvæmdavaldið hefur eflst af sama skapi. Meðan svo er skiptir miklu að þeir Íslendingar utan þings, sem geta haft áhrif á þróun samfélagsins með störfum sínum og áhrifum, standi í ístaðinu og veiti aðhald, ekki bara ríkisstjórnum, heldur einnig atvinnulífinu. Það eru meiri og krefjandi störf sem bíða utan þings en innan.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband