Varla er hægt að bjóða kjósendum upp á fagurgala um það sem gera skal eftir kosningar. Sérstaklega þegar þau sem lofa hafa haft öll tækifæri til að laga það sem ekki er nógu gott. Í kappræðum frambjóðenda í gær var verið að ræða félagsmál. Halda mætti að ráðamennirnir hafi ekki lesið DV í gær. Þar var sagt frá brýnum vanda.
Hjónin Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru á níræðis- og tíræðisaldri. Þau hafa verið gift í 65 ár og búið saman á Selfossi alla tíð.
Þegar hann veiktist var um nokkra kosti að ræða, ég neitaði Kirkjubæjarklaustri vegna þess að það var allt of langt í burtu fyrir okkur. Ég sætti mig hins vegar við að hann fari á Ljósheima, Kumbaravog eða Ás. Einn góðan veðurdag frétti ég það að hann væri á leiðinni austur á Kirkjubæjarklaustur án þess að við fjölskyldan hans vissum af því. Við höfðum gefið samþykki fyrir því að hann færi þangað í stuttan tíma, en við vissum ekki hvenær hann myndi fara. Síðan frétti ég það utan úr bæ að hann hafi verið sendur austur, án þess að ég gæti einu sinni hvatt hann. Þetta sagði Helga Þórðardóttir um örlög mannsins hennar, Gunnars Jónssonar, en hann er heilabilaður. Helga þarf að fara 400 kílómetra leið til að heimsækja manninn sinn. Þetta er afleidd staða þessara öldruðu hjóna og engum til sóma, heldur öllum til háborinnar skammar. Hverslags samfélag höfum við búið til?
Frambjóðendur til Alþingis, hafið hugfast að aðskilnaðurinn tekur mjög á hjónin og segir Helga að Gunnar kalli nafn hennar dag og nótt. Í hvert skipti sem hún hefur heimsótt hann á Kirkjubæjarklaustur hefur hann haldið að hún sé komin til að sækja hann. En svo er ekki og ábyrgðin á hlutskiptum þeirra hjóna liggur ekki hjá þeim, hún liggur hjá þingmönnum og ráðherrum. Með alveg sama hætti og vandi þeirra fjölskyldna sem eru ofursettar úrræðaleysi á barna- og unglingageðdeildinni.
Ekki er ein einasta þörf að fletta skýrslum og skoða meðaltöl til að athuga hag eldri borgara og úrræði fyrir þá veiku. Lesið DV, þar er raunveruleikann að finna. Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru áþreifanleg og örlög þessara öldruðu hjóna segja meira en allar samantektir og útreikningar. Samfélagið fer illa með hjónin og samfélaginu ber að bæta það sem þegar hefur verið gert. Frambjóðendur mega ekki einblína á meðaltöl, skýrslur eða annað sem flækir hugsanir þeirra. Þeir verða að fylgjast með samfélaginu og því sem þar gerist. DV er gluggi að hinu raunverulega lífi. Frambjóðendur, lesið DV og fylgist með.
Það er ágætt hjá Matthíasi að freista þess að rétta hlut sonar síns. Það dugar þó skammt þegar litið er til hvernig sakamálum sem stýrt er af embætti Haraldar hefur lyktað. Það er von að efasemdir um ágæti embættisins vakni og að spurt sé hvort breytingar þurfi að gera. Matthíasi er tíðrætt um fjölmiðla og í gegn skín gamli moggaandinn, það er að á því blaði séu stunduð meiri og betri vinnubrögð en almennt gerist og að Morgunblaðið sé yfir önnur blöð hafið. Svo mikið er víst að Matthías talar talsvert um stöðu annarra blaða í dag og stöðu þeirra áður. Áhugafólk um sanngjarna og heila fjölmiðla geta ekki annað en mótmælt þeim anda sem kemur fram í grein Matthíasar. Morgunblaðið var notað í upphafi Baugsmálsins, um það er ekki deilt, Morgunblaðið hefur valið að Baugsmálið og olíusvikamálið lúti ekki almennum starfsreglum innan ritstjórnar. Það hefur komið fram í Morgunblaðinu sjálfu að það er ákvörðun núverandi ristjóra að þessi tvö mál fara ekki í hefðbundan fréttastjórn, þeim er fréttastýrt af ritstjóranum sjálfum. Vinnubrögð Morgunblaðsins eru sem betur fer sérstök.
Morgunblaðsgrein Matthíasar svarar ekki spurningum einsog til dæmis þeirri sem kom fram í DV í gær, hefur ríkislögreglustjóri sætt þrýstingi stjórnmálamanna í fleiri málum en olíusvikamálinu?
Bloggar | 26.4.2007 | 06:51 (breytt kl. 06:52) | Slóð | Facebook
Fræðimaðurinn sem leiðir málaflokkinn rétt eins og Framsóknarflokkinn, taldi engin áhlaupaverk framundan, þetta sé mál sem verði að nálgast með tíð og tíma. Byggðastefnan hefur beðið skipbrot. Nánast allar aðgerðir hafa brugðist. Tröllslegu framkvæmdirnar á Austurlandi duga ekki til. Fleiri kjósa að flytjast þaðan en þeir sem vilja flytja þangað. Engar áætlanir um byggðaþróun vegna framkvæmdanna virðast ganga eftir. Hvað sem því líður er staða annarra byggðakjarna verri, hún er nánast vonlaus.
Fyrir okkur sem búum hér í þéttbýlinu er erfitt að setja sig í spor þeirra sem hafa takmarkaðan eða jafnvel engan aðgang að internetinu, hafa ekki vegi með slitlagi og búa við það að eignir seljist ekki, ekki einu sinni fyrir lítinn hluta þess verðs sem fæst fyrir samskonar eignir hér. Fyrir það fólk sem býr við þessar sérstöku aðstæður getur ekki verið nóg að heyra ráðherrann tala um aðgerðir sem langtímamarkmið. Það er uppgjöf gagnvart erfiðri stöðu sem hluti þjóðarinnar býr við. Ísland er borgríki. Það stór meirihluti þjóðarinnar býr á sama svæði og mikill minnihluti býr í fámenni og dreifbýli. Varla er bjóðandi að skella skollaeyrum við vanda þess fólks sem þar býr eða gera svo lítið úr honum að teljandi hann hæggengt framtíðarverkefni.
Stóra pólitíska spurningin er hvað ber að gera. Verst af öllu er að gera ekki neitt; stjórnvöld verða að bretta upp ermarnar og kveða upp dóm um hver nánasta framtíð byggðanna og íbúanna verður. Á að halda lífi í byggðunum með einhverjum hætti eða ekki? Það ástand sem nú varir er vonlaust, byggðirnar veikjast og þeir íbúar sem eftir eru eiga sífellt erfiðara með að eiga samfélag sem stenst þær kröfur sem gerðar eru, hafa varla mátt til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Þess vegna geta þeir sem hafa sjálfir kosið að vera í forystu skotið sér undan ábyrgðinni og sent hana á komandi kynslóðir.
Því fylgir ábyrgð að taka að sér að leiða þjóðina áfram. Þá ábyrgð verður byggðamálaráðherrann að taka. Ekki er við það búandi að íbúar á stórum hluta landsins sjái ekki fram á nein tækifæri sér og byggðinni til bjargar. Kvótinn var tekinn og ekkert hefur komið í hans stað. Eignir, í áður blómlegum sjávarbyggðum, eru seldar langt undir verði sumarbústaða. Á þessi þróun að halda áfram, eða ætla stjórnvöld að gera eitthvað?
Svör óskast hið fyrsta.
Ekki er bjóðandi að foreldrar blindra barna verði að rífa sig upp, flytja með fjölskylduna til annarra landa til þess eins að barnið fái þá menntun sem er sjálfsögð. Gunnar Már Másson, faðir blinds drengs, sem býr í Lúxemborg af þessum sökum segir ekki sjálfsagt að leggja slíkt á börn og aðra. Blindu börnin, og systkini þeirra, verða að læra ný tungumál, kynnast nýjum vinum og félögum og læra á nýtt umhverfi og nýjar venjur. Allt vegna þess að hér er ekkert fyrir þetta fólk að gera, eitt hundrað og sextíu blind börn bíða þess að fá viðunandi kennslu hér á landi. Ekkert er sem bendir til að við því verði orðið.
Frá stofnun Háskóla Íslands hafa örfáir blindir nemendur útskrifast þaðan. Það segir hluta af sögunni. Það segir meðal annars hversu torsótt er fyrir blinda Íslendinga að verða sér úti um þá menntun sem er sjálfsögð.
"Staðan í málefnum blindra og sjónskertra barna núna er nákvæmlega sú sama og hún var fyrir einni öld," sagði Gunnar Már Másson í samtali við DV. "Það hefur ekkert breyst. Bókakostur Blindrafélagins er úreltur og kennslugögn eru ýmist ekki til eða úrelt. Það er ekki einn einasti kennari á vegum ríkisins sem kennir blindralestur. Menntamálaráðherra státar sig af því að í þau átján ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið menntamálum þjóðarinnar hafi ríkt algjört jafnrétti til náms. Mér er spurn: Er menntamálaráðherra blindur á stöðu blindra barna á Íslandi? Ég hef lesið flestar ræður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Hún fullyrðir að Ísland standi mjög vel að vígi gagnvart OECD ríkjum hvað varðar jafnan rétt til náms. Það er rangt og það er klárlega verið að brjóta á þessum minnihlutahópi. Menntamálaráðherra segir einnig að Ísland sé "land tækifæranna". Það er ekki land tækifæra fyrir blind börn. DV hefur ekki náð tali af menntamálaráðherra vegna þessa máls.
Það eru að koma kosningar. Þær verður þjóðin að nota til að minna stjórnmálamenn á að við viljum breytingar. Kjósendur vilja ekki hlusta á endalaust karp um það sem ekkert er. Það eru næg verkefni fyrir velmeinandi stjórnmálamenn. Verkefni sem okkur öll varðar um. Þar á meðal er hagur og heilsa blindra barna.
"Blind og sjónskert börn eiga að hafa tækifæri til þessa að verða fullgildir þjóðfélagsþegnar. Þessháttar tækifæri eru ekki til staðar á Íslandi í andránni," segir John Harris, annar tveggja höfunda skýrslu um tækifæri sjónskertra barna til náms. Skýrslan verður kynnt í dag.
"Þegar börnin, sem ekki hafa fengið þá hvatningu og stuðning sem þau eiga skilið, yfirgefa grunnskólann þá bíður þeirra gríðarlegt óöryggi. Þau hafa nánast enga þjálfun fengið í mannlegum samskiptum úti í samfélaginu og eiga takmarkaða möguleka á atvinnu. Þessir hlutir hafa ekki verið skoðaðir hér á landi. Við mælum eindregið með því að úr þessu verði bætt hið snarasta," segir Harris.
Við skulum kjósa um þetta og sjá til þess að bót verði á, gerum það áður en við höldum áfram að spreða peningum í von um að koma gagnslausum fulltrúa okkur í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.