Færsluflokkur: Lífstíll
18. ágúst 2006
Enn og aftur hækkar Davíð Oddsson stýrivexti og enn aftur andmæla talsmenn atvinnurekenda og talsmenn launafólks. Þeir segjast hafa náð fínasta árangri og allt stefndi til betra tíma og öryggis í efnahagsmálum. Mat þeirra og Davíðs er greinilega gjörólíkt. Það er ekki fyrir hvern sem er að skilja hvað er í gangi.Fyrir ekki svo löngu var gert samkomulag. Launin voru hækkuð og ríkisvaldið lagðist á sveif með launafólki og atvinnurekendum. Þeir segjast hafa náð fínasta árangri og allt benti til að verðbólgumarkmið næðust eftir ekki svo langan tíma. Davíð skammaði bankana, þeir tóku það til sín og hlýddu honum, svo mikið að hann var sáttur. Samt gerist þetta aftur, Davíð hækkar vextina og viðbrögðin eru þau sömu og frá þeim sömu. Við hin stöndum hjá og spyrjum, hverjum ber að trúa?Eigum við að trúa þeim sem semja um kaup og kjör eða eigum við að trúa Davíð? Margir höfðu misst traust á Davíð meðan hann var enn í pólitíkinni. Hann virðist sem nýr maður í Seðlabankanum, en þegar gerðir hans þar eru gagnrýndar eins harkalega og nú er gert, er ekki annað hægt en að efast aðeins. Eða er ábyrgðin ríkisstjórnarinnar, hefur hann enga aðra valkosti en að bæta enn við heimsmetið í vaxtaálagi? Þurfa endilega að vera sömu markmið með vexti og matarverð og svo margt annað, allt hæst á Íslandi. Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins segir: Við höfum ekki séð ástæðu til að gagnrýna Seðlabankann til þessa þar sem hann hefur þurft að sitja einn uppi með ábyrgð á sinnuleysi stjórnvalda varðandi hagstjórn. Það hefur náðst sýnilegur árangur í hagkerfinu og ég undrast svona öfgakennda peningamálastefnu. Það var og.Það setur að okkur óhug þegar okkur er sagt að aðgerðir Davíðs kalli fram harkalega lendingu í efnahagsmálum, að allt hafi stefni í mjúka lendingu en nú sé það fyrir bí. Við sjáum þetta sem flugvél sem er að koma inn til lendingar eftir erfitt ferðalag og skömmu áður en brautin er snert, kippi einhver í stjórnklefanum hjólunum upp svo vélin lendir magalendingu og allt fer á versta veg. Til hvers? Ekki er mögulegt að skilja gangrýni Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins á annan veg en þann að Davíð sé að auka vandann en ekki koma í veg fyrir vanda eða draga úr honum. Atvinnuleysi er meira en það hefur verið, verðbólga er mikil og fleira hefur gengið úr skorðum. Þegar víðsjárverðir tímar eru uppi er gott að hafa trú á þeim sem ábyrgðina bera. En enn og aftur gerist það sama. Það er talað í allar áttir, út og suður og jafnvel norður og niður. Má vera að ríkisvaldið hafi lokið sinni þátttöku í stjórn efnahagsmála, eða þarf að gera meira en fresta vegabótum á Vestfjörðum og seinka byggingu Tónlistarhúss og sjúkrahúss, sem sennilega verður hvort eð er blásið af eftir kosningar þegar áhrif pólitískraskyndiákvarðanna Davíðs Seðlabankastjóra fjara út?Krafa okkar borgaranna er að fjármálaráðherra og forsætisráðherra rói okkur sem þurfum að þola óvissuna sem kemur með misvísandi skilaboðum talsmanna atvinnulífsins og launafólks og Seðlabankans. Við viljum vita hver staðan er, hvaða horfur eru og hvernig við munum hafa það á næstu árum. Davíð virðist vera einn á móti öllum, en hvernig er það, ræður hann öllu enn þá?