Samkvæmisleikur Fréttablaðsins

Skoðanakönnun Fréttablaðsins segir ekkert og hefur ekkert erindi í fréttir. Fréttablaðið verður að vekja athygli á hversu ónákvæm og óáreiðanleg könnun blaðsins er. Þegar átta hundruð eru spurð og rétt rúmur helmingur tekur þátt í leiknum verða fyrirvararnir yfirþyrmandi. Til að mynda er vonlaust að hafa gagn af framlagi Fréttablaðsins þegar meta á hver staða flokkanna er í einstaka kjördæmum og þess vegna er ekkert gerandi með niðurstöðurnar þegar leitast er við að segja til um hversu marga þingmenn hvert framboð fær.
Þrír formenn stjórnmálaflokka leiða lista í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ekkert í starfi Fréttablaðsins segir okkur nokkuð um átök eða hvernig fylgi einstakra framboða er. Sama er að segja um önnur kjördæmi. Hvert er hægt að sjá hver staðan milli flokkanna er. Þeim, sem hafa gaman af þjóðfélagsmálum, veldur Fréttablaðið miklum vonbrigðum. Það er sama hvað það ágæta fólk sem komst að þessari niðurstöðu reynir, það getur aldrei sagt okkur hvaða fimm þingmenn Framsóknarflokkur fær kjörna, samkvæmt þessu, og sama gegnir um alla aðra útreikninga.
Fréttablaðið státar af því að vera stærsti fjölmiðill landsins. Þannig vegtyllum fylgir ábyrgð. Gera verður kröfur til þeirra sem telja sig stærsta, einkum þegar svo skammt er til kosninga. Fréttablaðið verður að leggja meira á sig, kosta meiru til og taka þátt í umræðunni með því að gera alvöru kannanir. Skipta verður svörum betur milli kjördæma þannig að unnt verði að mæla og fylgjast með því sem er að gerast.
Vel má vera að samkvæmisleikir dugi til að mæla með ónákvæmni stöðu milli framboða þegar lítið er að gerast. Svo er ekki nú. Rúmir tveir mánuðir eru til kosninga og það ber að taka alvarlega. Nú reynir á að hægt verði að sýna hver átökin eru milli flokka og hvar. Hvaða frambjóðendur virðast ná kjöri og hverjir ekki.
Áður var getið um Reykjavíkurkjördæmi syðra, forvitnileg átök eru víðar. Spennandi er að vita stöðu milli flokka í einstaka kjördæmum. Fyrir þau sem hafa gaman af stöðu stjórnmálamanna er ekkert að annað að gera en bíða eftir Þjóðarpúlsinum. Vont er til þess að hugsa ef fleiri ætla ekki að gera alvöru kannanir nú þegar svo skammt er til kosninganna.
Vinstri grænir áttu sviðið þessa helgina og virðast ætla að komast á lokasprett kosningabaráttunnar í fínu formi. Það sem getur skemmt fyrir þeim flokki er nýtt framboð sem mun leggja áherslu á umhverfismál, en hvað sem sagt verður og gert er ekki nokkur vafi að vinstri grænir hafa forskot í þeim málaflokki og hafa lengst allra talað fyrir umhverfismálum. Það er þeirra að verja forystu sína í þeim málaflokki. Fleiri vilja sneið af grænu kökunni og ekki er ólíklegt að fólk sem hefur ekkert sagt eða gert til þessa til að tjá vilja sinn í umhverfismálum stökkvi á vagninn og freisti þess að gera sig marktækt í umræðunni. Mikið los virðist vera í stjórnmálunum eftir langt samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og þess vegna er trúlegt að tækifæri nýrra framboð séu mörg.
En hvar tækifærin eru og hvar ekki er ómögulegt að segja. Eitt er víst, samkvæmisleikur Fréttablaðsins hefur engu svarað um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Þetta er hárrétt hjá þér,svona skoðanakannanir eru ekki marktækar.Það þarf að setja löggjöf um framkvæmd kannanna,heildarfjölda og lágmark virka þátttakenda.Fulltr.frá stjórnmálafl.hafi eftirlit með framkvæmd þeirra.

Kristján Pétursson, 26.2.2007 kl. 17:25

2 identicon

Til að mynda er vonlaust að hafa gagn af framlagi Fréttablaðsins þegar meta á hver staða flokkanna er í einstaka kjördæmum og þess vegna er ekkert gerandi með niðurstöðurnar þegar leitast er við að segja til um hversu marga þingmenn hvert framboð fær.“

Í fyrsta lagi þarf skoðanakönnun ekki að vera sundurgreind niður á kjördæmi til að hægt sé að finna út hversu mörg þingsæti hver flokkur fær. Jöfnunarsætin ná nefnilega að leiðrétta misræmi milli kjördæma að fullu (nema í algerum extreme tilfellum kannski). Má orða sem svo að það sé fullt jafnræði á milli flokka í þingkosningum en misræmi á milli kjósenda í mismunandi kjördæmum (með þeim fyrirvara þó að kosningakerfið okkar hentar betur stærri en minni flokkum). Auðvelt að sjá þetta með því að skoða t.d. síðustu kosningaúrslit, sjá kosning2003.is, vona bara að þú kunnir á Dhond't. ;-)

Í öðru lagi er 800 manna úrtak á landsvísu eiginlega allt of lítið til að hægt sé  sjá fylgið í hverju kjördæmi. Miðað við 50-60% svarhlutfall værum við því með um 50 manna úrtak í minnstu kjördæmunum sem myndi þýða allt of hátt skekkjuhlutfall, sérstaklega þegar kemur að litlu flokkunum. Þess utan væri nauðsynlegt að nota þjóðskrána en ekki símaskrána sem grunn fyrir slíka könnun þar sem fjöldi fólks býr í einu kjördæmi en er skráð í öðru. Ef ég man rétt er Gallup einmitt með fyrirvara á sínum könnunum þegar kemur að sundurgreiningu niður á kjördæmi því þeir vita að úrtakið er ekki nógu stórt til að gefa almennilega niðurstöðu.

En það er alveg rétt að það er skemmtilegra að sjá fylgi flokka niður á þingsæti en það þýðir ekki að  kannanir Fréttablaðsins (eða Blaðsins) séu alveg ónýtar eða séu einhver samkvæmisleikur.

Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 20:29

3 identicon

Það sem mér finnst verst við skoðanakannanir Fréttablaðsins og raunar aðrar sem ég hef séð nýlega, er að þeir sem vinna úr þeim hafa greinilega lítilinn skilning á tölfræði.  Í könnunum eins og þessum eru til vikmörk, en vegna þess að ekki er reynt að greina niðurstöðurnar.  Að taka úrtak upp á 800 manns, þar sem aðeins 55% svara þýðir að niðurstöðurnar eru mjög óáreiðanlegar. Marktækir stafir (annað tölfærði hugtak) eru alveg örugglega ekki upp á fyrsta aukastaf heldur miklu fremur upp á fyrsta tug.  Í þessu tilfelli er t.d. líklegast að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé á bilinu 30 - 45%, Samfylking og Vinstri græni á bilinu 20 - 30%, Framsókn á bilinu 5 - 15% og Frjálslyndir 2 - 12%.  Með 34% óákveðin og svo má ekki gleyma þeim sem ekki ætla að kjósa (því það er atkvæði).  Að þessu leiti eru niðurstöðurnar eki nothæfar til að meta þingmannafjölda.

Marinó (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 23:41

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband