Fyrirmyndarsamfélag

Það er með hreinum ólíkindum að lesa að fólk sem á blind börn neyðist til að flytja frá Íslandi svo börn þeirra fái möguleika til menntunar og þroska einsog ófötluðum börnum er boðið, og öll börn eiga rétt til. DV hefur vakið athygli á málefnum blindra barna og í dag mun umræðan ná einnig til annarra fjölmiðla þegar þeim verður boðið að kynna sér þetta mikilvæga mál. Þá mun umræða um þessa skammarlegu frammistöðu íslensku þjóðarinnar rísa og ná áthygli.
Ekki er bjóðandi að foreldrar blindra barna verði að rífa sig upp, flytja með fjölskylduna til annarra landa til þess eins að barnið fái þá menntun sem er sjálfsögð. Gunnar Már Másson, faðir blinds drengs, sem býr í Lúxemborg af þessum sökum segir ekki sjálfsagt að leggja slíkt á börn og aðra. Blindu börnin, og systkini þeirra, verða að læra ný tungumál, kynnast nýjum vinum og félögum og læra á nýtt umhverfi og nýjar venjur. Allt vegna þess að hér er ekkert fyrir þetta fólk að gera, eitt hundrað og sextíu blind börn bíða þess að fá viðunandi kennslu hér á landi. Ekkert er sem bendir til að við því verði orðið.
Frá stofnun Háskóla Íslands hafa örfáir blindir nemendur útskrifast þaðan. Það segir hluta af sögunni. Það segir meðal annars hversu torsótt er fyrir blinda Íslendinga að verða sér úti um þá menntun sem er sjálfsögð.
"Staðan í málefnum blindra og sjónskertra barna núna er nákvæmlega sú sama og hún var fyrir einni öld," sagði Gunnar Már Másson í samtali við DV. "Það hefur ekkert breyst. Bókakostur Blindrafélagins er úreltur og kennslugögn eru ýmist ekki til eða úrelt. Það er ekki einn einasti kennari á vegum ríkisins sem kennir blindralestur. Menntamálaráðherra státar sig af því að í þau átján ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið menntamálum þjóðarinnar hafi ríkt algjört jafnrétti til náms. Mér er spurn: Er menntamálaráðherra blindur á stöðu blindra barna á Íslandi?  Ég hef lesið flestar ræður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Hún fullyrðir að Ísland standi mjög vel að vígi gagnvart OECD ríkjum hvað varðar jafnan rétt til náms. Það er rangt og það er klárlega verið að brjóta á þessum minnihlutahópi. Menntamálaráðherra segir einnig að Ísland sé "land tækifæranna". Það er ekki land tækifæra fyrir blind börn.” DV hefur ekki náð tali af menntamálaráðherra vegna þessa máls.
Það eru að koma kosningar. Þær verður þjóðin að nota til að minna stjórnmálamenn á að við viljum breytingar. Kjósendur vilja ekki hlusta á endalaust karp um það sem ekkert er. Það eru næg verkefni fyrir velmeinandi stjórnmálamenn. Verkefni sem okkur öll varðar um. Þar á meðal er hagur og heilsa blindra barna.
"Blind og sjónskert börn eiga að hafa tækifæri til þessa að verða fullgildir þjóðfélagsþegnar. Þessháttar tækifæri eru ekki til staðar á Íslandi í andránni," segir John Harris, annar tveggja höfunda skýrslu um tækifæri sjónskertra barna til náms. Skýrslan verður kynnt í dag.
"Þegar börnin, sem ekki hafa fengið þá hvatningu og stuðning sem þau eiga skilið, yfirgefa grunnskólann þá bíður þeirra gríðarlegt óöryggi. Þau hafa nánast enga þjálfun fengið í mannlegum samskiptum úti í samfélaginu og eiga takmarkaða möguleka á atvinnu. Þessir hlutir hafa ekki verið skoðaðir hér á landi. Við mælum eindregið með því að úr þessu verði bætt hið snarasta," segir Harris.
Við skulum kjósa um þetta og sjá til þess að bót verði á, gerum það áður en við höldum áfram að spreða peningum í von um að koma gagnslausum fulltrúa okkur í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sigurjón.

Athugasemd mín er þessu máli ekki viðkomandi.

Um helgina keypti ég DV vegna forsíðufréttar þinnar varðandi DO.

Kom í ljós að þú varst bara að endurbirta kafla úr bók Eiríks Jónssonar.

Viltu ekki vera svo góður næst þegar þú birtir "gleymda" bókarkafla að setja einhverskonar viðvörun nálægt aðalfyrirsögn á forsíður svo ég falli ekki aftur í gildruna?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.2.2007 kl. 15:37

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Stjórnvöld eru alltaf að miklast af ríkidæmi þjóðar okkar.Hver er forgangsröðin þegur kemur að bæta aðstöðu blindra og  sjónskertra barna.Sigurjón þú ert fundvís á að benda á þörf og aðkallandi vandamál í þjóðfélaginu.Það leiðir oft til aðgerða,einkanlega þegar skammt er til kosninga.Við skulum vona,að á þessum málum verði tekið og þau leidd til lykta sem allra fyrst.

Kristján Pétursson, 3.3.2007 kl. 22:58

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband