Varla er hægt að bjóða kjósendum upp á fagurgala um það sem gera skal eftir kosningar. Sérstaklega þegar þau sem lofa hafa haft öll tækifæri til að laga það sem ekki er nógu gott. Í kappræðum frambjóðenda í gær var verið að ræða félagsmál. Halda mætti að ráðamennirnir hafi ekki lesið DV í gær. Þar var sagt frá brýnum vanda.
Hjónin Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru á níræðis- og tíræðisaldri. Þau hafa verið gift í 65 ár og búið saman á Selfossi alla tíð.
Þegar hann veiktist var um nokkra kosti að ræða, ég neitaði Kirkjubæjarklaustri vegna þess að það var allt of langt í burtu fyrir okkur. Ég sætti mig hins vegar við að hann fari á Ljósheima, Kumbaravog eða Ás. Einn góðan veðurdag frétti ég það að hann væri á leiðinni austur á Kirkjubæjarklaustur án þess að við fjölskyldan hans vissum af því. Við höfðum gefið samþykki fyrir því að hann færi þangað í stuttan tíma, en við vissum ekki hvenær hann myndi fara. Síðan frétti ég það utan úr bæ að hann hafi verið sendur austur, án þess að ég gæti einu sinni hvatt hann. Þetta sagði Helga Þórðardóttir um örlög mannsins hennar, Gunnars Jónssonar, en hann er heilabilaður. Helga þarf að fara 400 kílómetra leið til að heimsækja manninn sinn. Þetta er afleidd staða þessara öldruðu hjóna og engum til sóma, heldur öllum til háborinnar skammar. Hverslags samfélag höfum við búið til?
Frambjóðendur til Alþingis, hafið hugfast að aðskilnaðurinn tekur mjög á hjónin og segir Helga að Gunnar kalli nafn hennar dag og nótt. Í hvert skipti sem hún hefur heimsótt hann á Kirkjubæjarklaustur hefur hann haldið að hún sé komin til að sækja hann. En svo er ekki og ábyrgðin á hlutskiptum þeirra hjóna liggur ekki hjá þeim, hún liggur hjá þingmönnum og ráðherrum. Með alveg sama hætti og vandi þeirra fjölskyldna sem eru ofursettar úrræðaleysi á barna- og unglingageðdeildinni.
Ekki er ein einasta þörf að fletta skýrslum og skoða meðaltöl til að athuga hag eldri borgara og úrræði fyrir þá veiku. Lesið DV, þar er raunveruleikann að finna. Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru áþreifanleg og örlög þessara öldruðu hjóna segja meira en allar samantektir og útreikningar. Samfélagið fer illa með hjónin og samfélaginu ber að bæta það sem þegar hefur verið gert. Frambjóðendur mega ekki einblína á meðaltöl, skýrslur eða annað sem flækir hugsanir þeirra. Þeir verða að fylgjast með samfélaginu og því sem þar gerist. DV er gluggi að hinu raunverulega lífi. Frambjóðendur, lesið DV og fylgist með.
Athugasemdir
Það vill stundum gleymast í þessari umræðu að stjórnmálamenn senda ekki einn eða neinn um langan veg. Til eru fyrirbæri s.s. vistunarmat og þjónustuhópur aldraðra sem fagfólk, læknar, hjúkrunarfræðingar og félagsrágjafar stjórna. Þetta fólk raðar í þau pláss sem á lausu eru hverju sinni. Þetta fólk skal uppfylla m.a. þessi skilyrði sbr. nýsamþykkt lög frá alþingi.. "Nefndirnar skulu skipaðar lækni með sérmenntun á sviði öldrunar- eða heimilislækninga, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu og félagsráðgjafa með þekkingu á félagslegri þjónustu við aldraða".
Auðvitað má deila um hvort næg pláss séu til hverju sinni en blessaðir stjórnmálamennirnir hafa ekkert um það að segja hvernig pláss eru nýtt. Það gerir fagfólkið. Það verður að gera þá kröfu til þeirra aðila sem rita ritstjórnargreinar að þeir hafi einhverja þekkingu á því sem þeir skrifa um. Það vita allir jú að það vantar fleiri pláss en sú staðreynd réttlætir ekki skrif eins og þau sem hér eru til umfjöllunar. Í DV er raunveruleikann ekki að finna, það er næsta víst
Valbjörn (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 18:06