Eftir að hafa heyrt til eina yfirlýsta frambjóðandans í væntanlegu formannskjöri í Framsóknarflokknum er kallað eftir að fleiri gefi kost á sér. Ekki er nokkur vafi um að Jón Sigurðsson ráðherra er hinn vænst maður, ekki nokkur vafi, vel menntaður og heiðarlegur. Hann skortir samt margt sem stjórnmálaforingi þarf að hafa til að bera.Jón talar sem fræðari frekar en foringi, hann tjáir sig með þeim hætti að svo virðist sem hann ætlist til að á hann sé hlustað, glósað niður og hlustandinn geri síðan sitt besta með upplýsingarnar, eða réttara sagt fróðleikinn. Er einsog vandaðru en þurr kennari. Við sem erum ekki í flokknum, við sem þurfum ekki að hlusta frekar en við viljum, okkur leiðist og við læðumst út úr tímanum.Framsókn á Guðna Ágústsson sem er eins ólíkur Jóni Sigurðssyni og hugsast getur. Guðni talar kannski ekki í lausnum, veit ekki allt og skilur ekki allt. Guðni talar einsog okkur langar að heyra, og jafnvel einsog okkur langar að tala. Guðni er orðheppinn húmoristi og það hefur dugað honum hingað til. Auðvitað er það svo að orðheppni og skemmtilegheit duga ekki til að verða í fremstu röð áhrifamanna í samfélaginu. Þangað stefnir Framsókn heldur ekki og þá ekki heldur næsti formaður flokksins. Framsóknar hlýtur að bíða það hlutskipti að verða í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili. Þess vegna er val um næsta formann, val um leiðtoga flokks utan ríkisstjórnar.Kannski er það svo að Jón Sigurðsson skorti klækina og leiknina til að komast framhjá því sem mestu skiptir sem gerir hann svo ópíltiskan sem raun er á. Guðni kann leikinn betur, hann kemst upp með að svara í stöku setningum, stundum á skjön við það sem hann er spurður og það er fínt fyrir stjórnmálamenn að komast up með það, það má vel vera að það sé ekki eins fínt fyrir stjórnmálin.Við fjölmörgu sem höfum í raun litlar áhyggjur af því hver verður næsti formaður Framsóknarflokksins getum allavega vænst þess að um flokkinn leiki skemmtilegir og óvæntir straumar. Guðni er liklegri en Jón til að svo verði. Annað sem verður spennandi ef ráðherrarnir tveir berjast um formannsstólinn er hversu ólíka leið þeir hafa farið. Guðni er margreyndur í stjórnmálunum, hefur unnið sig upp skref fyrir skref, kemur úr grasrót flokksins, sonur þingmanns, sveitamaður af guðs náð og er hrókur alls fagnaður, sannur sveitasómi og eftir er honum er tekið hvar sem hann fer. Jón hefur hins unnið fyrir flokkinn störf sem almenningur hefur svo sem ekki veitt eftirtekt, hefur ekki verið í framboði og þess vegna aldrei staðið sjálfur í opinberri baráttu. Hann er ráðherra án þess að hafa verið kosin af neinum, jú af einum, Halldóri Ásgrímssyni fráfarandi formanni. Það er veganesti hans í stjórnmálin. Áður vann hann sér inn meiri menntun en gengur og gerist. Guðni er minna menntaður í skólum, en menntun er svo sem sótt víðar en í skóla. Þeir eiga ólíkan feril að baki. Svo ólíkan að það væri hreint yndislegt að sjá flokksfólk Framsóknar velja á milli þeirra.