Merkilegt að heyra í ráðamönnum um hátt matarverð og hvað ber að gera til að létta okkur lífið, leyfa okkur að búa við ámóta verðlag og þekkist hjá öðrum þjóðum.Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í gær að alls ekki sé víst þó að ríkið losi um sínar heljaklær og falli frá hluta þess sem það leggur á lífsnauðsynjarnar að það skili sér til neytenda, hann sagði það bara alls ekki víst. Fákeppni í verslun er það mikil að mati ráðherrans að allsendis er óvíst að lækkun skatta og lækkun á álögum hins opinbera skili sér til neytenda. Skilja mátti forsætisráðherrann þannig að fjandans kaupmennirnir myndu hirða allt sem sparast. Hann tók sem dæmi að sælgæti seljist fínt og ef opinberar álögur verða lækkaðar sé allt eins hægt að reikna með að kaupmennirnir lækki nammið ekki, heldur hagnist sjálfir á hugsanlegum breytingum. Það var og. Fleira hefur verið nefnt og sá ótti er uppi núna að ráðamenn geri fátt til að lækka matarverðið, með þeim rökum að kaupmönnum, sem eru sagðir í fákeppni og þá væntanlega ekki í nógri samkeppni, hirði allt sem neytendum er ætlað.Það væri í lagi að reyna, ráðamenn. Reynum kaupmennina, reynum milliliðina, reynum hvert á annað og sjáum til hvort við getum ekki bara treyst hvert öðru. Það er ekki mikils virði að neita að framkvæma bara vegna vissu um að einhverjir muni svindla.Sami tónn heyrist hjá svo mörgum stjórnmálamönnum þegar þeir verjast lögum á fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka. Þeir segja að ekki sé hægt að setja lög einsog þekkjast í öðrum löndum, jú vegna þess að einhverjir muni bara fara í kringum lögin. Með svo rakalausum rökum hefur stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum tekist að verjast lögum um eigin starfsemi. Það setur að mörgum kaldan hroll þegar sama, eða svipuð, hundalógík heyrist þegar verið er að ræða jafn knýjandi mál og lækkun matarverðs. Fyrirfram gefinn ótti um illsku kaupmanna má ekki verða til þess að ekkert breytist. Fólkið í landinu hlýtur að benda ráðamönnum á að þetta er ekki þolandi. Það er augljós krafa um að gera breytingar, svo sterk krafa að aum hundalógík má ekki verða til að þess að ekkert eða alltof lítið verði gert.Engin rök eru heldur nógu sterk til að renna stoðum undir þær umkvartanir, að breytingar á verndartollum og afnám annarra hafta sé aðför að landbúnaði, bara alls ekki. Íslenskur landbúnaður er fínn, svo fínn að frá honum koma kannski fínustu matvæli í heimi. Það mun ekkert breytast, það er frekar að neysluvenjur muni breytast og fari svo að íslenskar vörur verði dýrari en innfluttar er fjarri lagi að halda að við munum ekki oft og iðulega velja íslenskar vörur. Við viljum bara fá að velja, einsog og aðrar þjóðir.Vonin er samt ekki mikil, nánast afar veik. Tóninn í þeim sem mestu ráða er ekki betri en svo að sennilega verður enn aftur kosið að gera ekkert, eða sem minnst. Og að áfram verðum við sætta okkur við að þrengri kost, aðeins vegna kjarkleysis ráðamanna.