Það er komið nóg

Mikil ósköp er að lesa innlegg alþingismannsins og skólameistarans fyrrverandi, Jóns Bjarnasonar, til hugsanlegra breytinga á matarverði. Hann undrast að Alþýðusamband Íslands skuli styðja lækkun matarverðs með lækkun verndartolla og afnámi hafta. Jón skilur ekki um hvað er tekist og um hvað er fjallað. Hann hefur áhyggjur af þeim sem starfa við matvælaframleiðslu og að lífskjör þeirra hrynji og að það sé hlutverk allra að halda starfsemi gangandi, hvað sem hún kostar, til þess eins að þeir sem starfa við matvælaframleiðslu missi ekki atvinnu sína og öryggi.Málið snýst barasta ekkert um það. Það er merkilegt að alþingismaðurinn skuli ekki vera víðsýnni. Það er aldeilis undarlegt að heyra fólk tala með þessum hætti. Fyrir Jón Bjarnason og þá sem eru sama sinnis er þarft að hlusta eftir því sem mestu skiptir. Matvælaverð á Íslandi er með því hæsta sem gerist, vextir eru hærri hér en víðast annarsstaðar og svona er hægt að telja áfram. Aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnmálamanna eru helstu orsök þessa alls. Almenningur veit það og mönnum einsog Jóni Bjarnasyni er best að finna leiðir til að bæta lífskjörin en ekki vera uppteknir af því einu að viðhalda því sem stenst ekki kröfur samfélagsins.Svo er alls ekki að nokkur einasti maður vilji leggja niður landbúnað á Íslandi og svo er alls ekki að nokkur maður vilji leggja niður matvælaframleiðslu. Hitt er annað að það er til fólk sem óttast ekki breytingar og það er til fólk sem hefur fulla trú, að þó járntjöld verði felld, og okkur verði gert mögulegt að borga minna fyrir matinn verði áfram landbúnaður á Íslandi og áfram verði unnin matvara. Það er hreint út sagt galið að tala einsog þingmaðurinn og fleiri sem hafa látið til sín taka í þessari umræðu. Það er bara komið nóg.Segja má að við höfum lagt af stað til lækkunar matarverðs og þingmenn stoppa ekkert þá ferð. Skriðþungi þjóðarinnar er meiri en svo að þröngsýni fárra dugi til að stoppa skriðuna. Þegar fólkið hefur sigur í matarverðinu verður lagt af stað í næstu árás gegn þröngsýni og afturhaldi og svo koll af kolli. Það er komið nóg.Þeir sem verjast því að við fáum að kaupa matinn, á ámóta verði og fólk í næstu löndum, hafa gripið til raka sem ekki halda, strá jafnvel efasemdum hingað og þangað. Til dæmis að kaupmönnum sé ekki treystandi og að þeir muni hirða allan ávinninginn. Þeir mótmæla eðlilega og þykir að heiðri sínu vegið. Svo koma einstaka menn og segja að verja beri landbúnaðinn og jafnvel hvað sem það kostar. Það gerir landbúnaðinum ekki gott, það gerir neytendum ekki gott og það gerir þeim sem þannig tala heldur ekki gott.Það er meira en skiljanlegt að Alþýðusamband Íslands vilji breytingar á matarverði. Það er skylda sambandsins að vilja bæta kjör fólks. Mikill ávinningur verður fyrir marga þegar þröngsýnin verður hrakin úr vörninni. Það væri áfellisdómur yfir forystu launafólks óskaði hún ekki eftir að verð á helstu nauðsynjum verði lækkað. Þeir sem ekki skilja, eru úti móa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband