Þreytandi fólk

18. júlí 2006

Þau sem nú sitja í meirihluta í borgarstjórn virðast nota flest tækifæri sem þeim gefst til að finna að öllu sem forverar þeirra gerðu, benda á þetta og benda á hitt, allt til að gera hlut sinn meiri og hinna minni. Þetta eilífa tuð um þau sem voru á undan er þreytandi og reyndar ekki bjóðandi. Stjórnmálamenn verða að nota lokaða sali til að rífast um það sem ekkert er og hlífa okkur hinum við karpinu.Gísli Marteinn Baldursson hefur hugsanlega verið manna duglegastur við þessa iðju. Hann virðist ekki komast úr kosningahamnum. Í Blaðinu í gær er hann spurður, í annars merkilegri frétt, um bensínstöðvarklúðrið mikla. Öllum er ljóst að fulltrúar R-listans bera ábyrgðina á vandanum, það hefur margsinnis komið fram. Gísli Marteinn er fastur í kosningafarinu, hann segir ekki hægt að hætta við framkvæmdina og orðrétt segir hann: “Ég hef verið á móti þessu máli frá upphafi. Mér finnst þetta ákaflega vond staðsetning og að mínu mati er það algjörlega óskiljanlegt hvað gamla meirihlutanum gekk til þegar þetta var ákveðið. Vegir R-lsitans virðast órannsakanlegir en við sitjum uppi með þetta og ef við ætluðum okkur að breyta þessu gætum við átt yfir höfði okkar stórt skaðanbótamál.”Vissulega ber að benda á alla þá óhæfu sem gerð hefur verið. En samt sem áður þurfa þeir, sem hafa verið kjörnir til að stjórna og hafa gengist við hlutverkinu, að horfa fram á við án þess að vera sífellt að tuða um það sem liðið er. Reykjavíkur bíður margt. Ekki síst að sem flestir finni til þess að borgin er eign allra borgarbúa og um leið allra landsmanna. Margt er ógert og þaðer  full ástæða til að þeir sem stjórna borginni hafi glögga framtíðarsýn og láti til sín taka í þeim verkum sem þarf að vinna, og hætti að líta eilíft um öxl.Kosningaloforðin voru mörg og mikil og reyndar er það svo að borgarbúar almennt ætlast ekkert til að við þau verði staðið, það er ekki vaninn, enda flest gleymd. Gagnslaust er að rifja upp flugvöll á Lönguskerjum, hraðbraut undir Sundin og fleira tröllslegt. Þeir sem lofuðu vissu að kjósendur trúðu fáu, þannig hefur það verið og þannig er það og þannig verður það.Kjósendur láta eitthvað óþekkt ráða afstöðu sinni. Ekki trúverðugleika og oðrheldni. Þess vegna geta frambjóðendur lofað og lofað, enginn ætlast til þess að við orðin verði staðið, hvorki þeir sem lofa né þeir  sem lofað er.Meirihlutafólkið í Reykjavík verður að hætta líta að til baka, bæði til þess sem þreyttur R-listi gerði og gerði ekki. Verkefnin eru næg og þau sem voru kosin voru kosin til að vinna að því sem þarf að leysa, ekki til að vera upptekin af því sem klaga má upp á þá sem fengu langþráða hvíld.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband