29. júlí 2006
Hversu oft koma fram fréttir um að opinberir sjóðir hafi verið notaðir til að draga úr eða koma í veg fyrir áfall einhverra fárra, oftast vina þeirra sem ráða? Í Blaðinu var frétt þar sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífins lét 35 milljónir í fyrirtæki sem stefndi ákveðið í þrot, samt var ákveðið að fórna miklum peningum frá sjóðnum í fyrirfram dauðadæmt fyrirbæri.Það fór sem flesta grunaði, reksturinn stöðvaðist, eignir og peningar urðu að engu. Nýsköpunarsjóður sat eftir með iðnaðarhús, sem af góðum mönnum var metið á sextíu milljónir króna í opinberum bókum en eftir margar tilraunir og mikla þrautargöngu fannst kaupandi. Hann var tilbúinn að borga 100 þúsund krónur fyrir bygginguna, byggingu sem metin var á sextíu milljónir. 100 þúsund krónurnar runnu til Nýsköpunasjóðs, nánast sem háð. Tapið minnkaði um þessar 100 þúsund krónur. Nýsköpun er þeim ósköpum gædd að stundum tapar maður og græðir stundum, sagði fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs um fjárfestinguna í dauðadæmda fiskeldinu í Skagafirði. Hann sá ljósið. Hann sagðist dauðfeginn að losnað við húsið, þó ekki hafi fengist nema 100 þúsund krónur fyrir það, enda hafi löng þrautarganga verið að baki þar sem kaupendur fundust ekki lengi vel og auk þess hafi byggingin kallað á viðhald.Þetta er ekki versta tilfellið og fjarri því það dýrasta. Það sem er merkilegt við þetta allt er að það er öll virðist standa á sama, forsvarmönnum Nýsköpunarsjóðs er bara létt og engin viðbrögð hafa komið annars staðar frá. Reyndar hefur þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson látið málið til sín taka og sagði í Blaðinu að ódýrara hefði verið að slátra seiðunum strax en ala þau í sláturstærð. En sá var yfirlýstur tilgangur aðkomu Nýsköpunarsjóðs, að ala barraseiði í sláturstærð. Peningana, sem notaðir voru, fékk Nýsköpunarsjóður við sölu á Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki og þeir áttu eflaust að fara til að efla atvinnulífið eftir að verskmiðjan lokaði. Svo fór ekki.Ekkert benti til annars en að um glórulausa fjárfestingu með opinbert fé hafi verið að ræða. Sagan endurtekur í sífellu og aftur og aftur er opinbert fé notað með þessum hætti. Fyrir ekkert svo mörgum árum voru til svokallaðir skussasjóðir. Þeir voru aflagðir og lofað var að sértækar aðgerðir heyrðu sögunni til. Þrátt fyrir fyrirheit og fagurgala endurtekur sagan sig. Grunur er um að ástæðulaust með öllu hafi verið að freista þess að rétta fiskeldisfyrirtækið í Skagafirði við, það hafi bara verið gert til að lina þjáningar í skamman tíma og án þess að ætlast til að þess að Nýsköpunarsjóður fengi nokkru sinni til baka það sem lagt var til. Þessi sami sjóður hafði ekki í langan tíma getað lagt nýsköpun lið þar sem peningarnir voru búnir, höfðu verið notaðir í ýmis verkefni, vonandi happadrýgri en barrabjörgunin í Skagafirði. Að lokum snýst samfélagið okkar svo oft um það sama, að standa saman, einkum á kostnað annarra.