31. júlí 2006
Oft geta fáir komið óorði á marga. Á þá leið eru viðbrögð vélhjólaökumanna vegna glæpaaksturs í þeirra hópi. Við sem bæði sjáum og er ógnað af þessum sama glæpaakstri getum ekki samþykkt að aðeins fáir vélhjólaökumenn stundi glæpaakstur. Við sjáum til svo margra, bæði í Reykjavík og eins á þjóðvegunum. Það eru ekki bara fáir ökumenn sem ógna okkur hinum, þeir eru margir. Ómögulegt er að vita hversu fjölmennur hópur glæpaökumanna þetta er eða hversu hátt hlutfall vélhjólaökumanna haga sér með þessum hætti, en þeir eru margir, alltof margir.Ekki dugar lengur að tala sem örfáir fremji glæpi með glæfraakstri, aki á hundrað og fimmtíu til tvö hundruð kílómetra hraða, og jafnvel enn hraðar. Lögregla leitar nú einhverra fanta og þar fyrir utan þekkjum við þetta öll. Hver kannast ekki við að vélhjólum sé ekið á milli bíla á tveggja akreina vegum, hver kannat ekki við að þegar beðið er á rauðu ljósi komi vélhjól á milli bíla og það stöðvað framan við stöðvunarlínuna og þegar græna ljósið gefi ökumaðurinn allt í botn, rétt einsog hann sé á ráspól í kappakstri og hverfi öðrum nánast sjónum á örfáum sekúndum? Hver kannast ekki við að hafa séð vélhjóli ekið framúr á þjóðvegunum á svo miklum hraða að lyginni er líkast?Hörmuleg slys vélhjólamanna virðast virka þveröfugt, meðan sorgin er sem mest virðast einhverjir hafa það að markmiði að brjóta lögin eins mikið og framast er kostur, sjálfum sér, og það sem meiru skiptir, öllum öðrum til stórkostlegrar hættu. Þetta einfaldlega gengur ekki.Til eru menn sem eiga auðvelt með að selja sjálfum sér óhæfuna: Það er vissulega leiðinlegt að lesa um þessa vitleysinga sem eru að stinga lögguna af og keyra eins og brjálæðingar, segir viðmælandi Blaðsins í blaðinu í dag. Sá vill ekki koma fram undir nafni, engum er alsvarnað. Þessi maður hreykir sér af því að hafa ekið á þrjú hundruð kílónmetra hraða og á 240 með farþega. Það var hún sem vildi keyra svona hratt, segir hann um kærustuna sem var með honum á hjólinu í glæpaakstrinum. En fyrir okkur sem ekki skiljum, hvers vegna menn láta svona: Hjólin eru gerð fyrir þennan hraða. Það var og.Þessi viðhorf eru stórkostleg og lögreglu verður að takast að koma föntunum af hjólunum. Okkar hinna vegna.Ungir ökumenn hafa lengi verið þeir sem mestu tjóni hafa valdið. Nú bætast vélhjólamenn í þennan varasama hóp. Það er mikilsvert að breyting verði á, ekki er treystandi á að hún komi frá glæpamönnunum sjálfum, upphaf hennar verður að koma frá okkur sem viljum fara um með friði og virðingu fyrir öðru fólki. Takmarkið verður að vera að ná glæpamönnunum af hjólunum áður en skaðinn verður meiri.