2. ágúst 2006
Vissulega er er vont þegar menn berja hver annan og vissulega er það vont þegar rúður eru brotnar og aðrar eigur okkar eru skemmdar af fólki í ölvímu eða vímu annarra fíkniefna. Það er böl hversu illa við látum þegar við höldum okkur vera að skemmta okkur. Hitt er annað að það er engin ástæða til að gera meira úr vandanum en efni standa til. Engin ástæða.Þeir sem hafa ráðið sig, eða hafa verið kjörnir, til að gæta að velferð okkar hinna verða að gæta hófs í því sem þeir segja og því sem þeir gera. Ástæðulaust er að tala sem vandinn sé meiri en hann er, og ástæðulaust er að halda því fram að breytingar hafi orðið til hins verra. Um það er deilt og um það sýnist sitt hverjum. Þess vegna er krafa okkar að þeir sem ábyrgðina bera geri það með reisn, yfirvegun og hófsemi.Alla tíð hefur það verið svo þegar drukkið fólk kemur saman í stórum hópum þá er hætta á að illa fari. Þá skiptir minnstu hvort það er á mannamótum í nafni hátíða eða hvort það er skipulagslaust í miðborg Reykjavíkur. Þannig hefur þetta verið og þannig verður það. Eina sem unnt er að gera, er að reyna að lágmarka skaðann, ofbeldið og hrottann.Þrátt fyrir að borið hafi á ýkjum í umræðunni virðist sem ákveðin firring sé meðal fólks. Bílum og hjólum er ekið á áður óþekktum hraða, máttlitlir smáglæpamenn ógna fólki með bareflum eða öðrum vopnum og láta sem ekkert sé sjálfsagðra en að ryðjast inn á fólk og krefjast peninga, ofbeldisfullir menn leggja leið sína þar sem fólk er samankomið og berja mann og annan. Fæst af þesu er nýtt, því miður. Þetta er þekkt, helst að nú hafi bæst við glæpaakstur vélhjólafólks. Annað hefur fylgt okkur.Krafan sem er hægt að gera til þeirra sem bera ábyrgðina er að almenningur geti farið um í sæmilegri vissu um að verða ekki ógnað af samborgurunum, hvort sem fantar bera hnúajárn eða kraftmikil ökutæki. Það er hlutverk hins opinbera að tryggja frið borgaranna. Þrátt fyrir að margt sé að bætir það ekki stöðuna ef lögregla eða ráðamenn tala um að verr sé fyrir okkur komið en það er í raun. Ýkjurnar skemma.Í langan tíma hefur miðborg Reykjavíkur verið sem yfirgefinn vígvöllur að morgni laugardaga og sunnudaga. Það er ekkert nýtt að yfir götum og gangstéttum sé glersalli, rænulítið eða jafnvel rænulaust fólk á bekkjum eða götum, hópur fólks á stórtækum vinnuvélum að keppast við að koma öllu í betra horf áður en íbúarnir vakna og sorgin og eymdin blasir við öllum sem sjá vilja. Þannig hefur þetta verið og þannig er þetta. Kannski er mesta furða hversu margir komast heilir heim eftir slíka óvissuferð sem það er að fara í mannsöfnuðinn. Þrátt fyrir hversu bagalega er fyrir okkur komið verðum við að forðast að ýkja frásagnir af ólifnaðnum og finna leiðir til að bæta lífið. Staðreyndirnar eru nægar og ýkjur eru þarflausar.