4. ágúst 2006
Það er ekki sól og yndi framundan hjá Framsóknarfólki. Aðeins tvær vikur eru til flokksþings þar sem ný forysta verður valin. Enn sem komið er hafa þrír gefið kost á sér til formanns og þar af er aðeins eitt framboðið alvöruframboð, hin eru vitavonlaus. Innan Framsóknarflokksins eru samt raddir sem gera ekki ráð fyrir að Jón Sigurðsson eigi greiða leið í stól formanns. Siv Friðleifsdóttir hefur ekkert viljað gefa upp hvað hún hyggst fyrir, en kunnugir segja hana ekki skorta metnað og ef hún láti ekki verða að framboði nú, geri hún það ekki síðar. Þetta sé hennar síðasti séns.Kunnugir gera ráð fyrir framboði Sivjar til formanns og gangi það eftir sé fjarri því víst að Jóni Sigurðssyni veitist eins létt að komast til æðstu metorða innan flokksins eins og hingað til hefur verið talið. Þó Siv sæki ekki stuðning í sama bás og Halldór Ásgrímsson hefur gert og Jón Sigurðsson mun gera, er vitað að hún hefur víðtækan stuðning meðal flokksmanna og fáir stjórnmálamenn hafa verið duglegri við að byggja upp sitt bakland og Siv. Hún fer víða, talar við marga og hefur þess vegna náð að treysta sig mikið í sessi. Þetta segja samherjar jafnt sem andstæðingar innan flokksins. Ef Siv býður sig fram til formanns verða spennandi formannskosningar.Barátta Jónínu Bjartmarz og Guðna Ágústssonar um varaformanninn kann að verða hörð. Fleiri gera ráð fyrir sigri Guðna. Hann hefur fylgi víða í flokknum en kunnugir segja Jónínu helst vera sterkari innan þingflokksins og þess fólks sem næst þeim hópi starfar. Meðal almennra flokksmanna er staða Guðna talin mun sterkari. Það vinnur á móti Guðna að hafa ekki þorað að fara í formannsslag. Þar sýndi hann á sér veika hlið sem getur skemmt fyrir honum í varaformannskjörinu. Sjálfur hótar Guðni og segir að ósigur muni kalla á sundrung í flokknum.Önnur embætti eru ekki mikilsvirði. Framsóknarmenn hafa lengið tjaldað embætti ritara sem það skipti einhverju máli, en auðvitað gerir það það ekki. Þess vegna verða átökin í mesta lagi um tvö veigamikil embætti, embætti formanns og varaformanns.Félagar í Framsóknarflokknum skilja að það er mikilsvert fyrir stöðu flokksins í komandi framtíð að þeim takist að velja sér forsytu með sóma, bæði að barist verði af sóma og að sómi verði af nýju forystunni. Halldór Ásgrímsson hefur hrökklast frá landsstjórninni og nú flokksstjtjórninni. Það eru ekki glæsileg lok á löngum ferli. Fráfarandi formaður verður að þola gagnrýna umræðu um stöðu flokksins, ákvarðanir og gjörðir síðustu ára. Ef flokksþingið gerir það ekki er sú hætta framundan að flokkurinn hjakki í sama djúpa farinu. Það er ekki glæst framtíð.