5. ágúst 2006
Um verslunarmannahelgi er mikið álag á allt og alla. Þjóðvegirnir verða fullir af alls kyns ökumönnum og tjaldsvæðin mörg hver verða hlaðin af alls kyns fólki. Fátt segir okkur að harmur fylgi ekki mannsöfnuðum helgarinnar. Því miður gerist það á hverju ári.Mótmælendur virkjana hafa verið í gæslu lögreglunnar og í gæslu víkingasveitarinnar. Ekkert er til sparað til að hefta aðgerðir þess fólks. Það er vonandi að fjárráðum lögreglunnar sé vel skipt og hvergi vanti peninga til að gæta að umferð og öryggi fólks, hvort sem það er á ferðalagi eða á einhverri þeirra samkoma sem kallaðar eru hátíðir. Samt má ætla að engir kosti lögregluna jafnmikið og mótmælendurnir. Sennilega verður meira af lögreglu þar en víðast annars staðar á landinu. Allt til þess að mótmælendum takist ekki að valda hugsanlegu tjóni.Hætta er á að margir komi sárir frá hildarleik helgarinnar. Það er stórhættulegt að keyra um þrönga þjóðvegi og sérstaklega þegar innan um verða stórhættulegir ökumenn, þeir sem keyra alltof hratt og þeir sem keyra alltof hægt. Allir óska þess að komast heilir úr umferðinni, en til að það takist verðum við öll að taka þátt. Ef mið er tekið af þeim anda sem ræður hjá ýmsum er barasta engin von til að það takist. Þeir sem eru eftirlýstir vegna glæpaaksturs og þeir sem neita að benda á fantana eru ekki líklegir til að meta líf okkar hinna í dag, ekkert frekar en í gær. Því miður.Hinir sem mæta á skemmtanir til þess eins að meiða eða særa aðra eru ekki síður hættulegir. Nauðganir og aðrir hrottalegir glæpir hafa verið fylgifiskar villtra mannamóta. Ofurdrukkið fólk er hættulegt og þegar við bætist neysla annarra eiturefna, jafnvel dag eftir dag, er algjörlega óljóst hvert það leiðir. Alltof oft til harmleikja, harms sem seint eða ekki grær. Öllu má nafn gefa, líka samkomum helgarinnar. Sumar þeirra standa ekki undir því að vera kallaðar hátíðir. Reynslan, sem af er þessu sumri, sannar að svona er þetta hjá okkur. Írskir dagar og Færeyskir dagar voru með þeim eindæmum að óvíst er að reynt verði að halda slík mannamót aftur. Dauðadrukkin ungmenni ráfandi um vitandi hvorki í þennan heim né annan eru ekki að skemmta sér, kannski skrattanum. Þetta mun allt endurtaka sig um helgina. Það eina sem við getum vonað er að ekki verði framdir alvarlegir glæpir. Við getum vonað það, en því miður er mikil hætta á að vonir okkar rætist ekki. Áfengið slævir dómgreind og þegar margir eru samankomnir í sama ömurlega ástandinu er veruleg hætta á áföllum Það er vonandi að víkingasveitin og óbreyttir lögreglumenn komi í veg fyrir frjálsa för fólks við Kárahnjúka um þessa helgi einsog síðustu daga, hvað sem það kostar.Förum varlega og góða helgi.