10. ágúst 2006
Ómar Rag narsson hefur boðið ellefu manns, áhrifafólki, eins og hann nefnir það, í skoðunarferð að Kárahnjúkum. Hann segir í opnu boðsbréfi að gestirnir hafi það hlutverk að þjóna allri þjóðinni. Ómar býður forseta Íslands, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, iðnaðarráðherra, umhvefisráðherra, ritstjórum dagblaðanna þriggja og stjórnendum eða fréttastjórum Ríkisútvarpsins, NFS og Skjás 1.Þrátt fyrir að sá sem þetta skrifar hafi það meginmarkmið að þiggja aldrei neitt í starfi, ekki boðsferðir, ekki málsverði eða nokkuð annað ætlar hann að gera undantekningu og þiggja boð Ómars.Í bréfi Ómars segir að hann geri ráð fyrir að allir sem hann bjóði nú hafi þegið ferðir að Kárahnjúkum. Það á ekki við um alla. Ómar hefur hins vegar reynslu af skoðanarferðum. Gefum honum orðið:Ég hef sjálfur farið sem leiðsögumaður í tveimur vönduðum boðsferðum í þessum dúr þar sem í boði voru glæsilegar veitingar og viðurgjörningur allan daginn, flogið í Boeing 757 millilandaþotum austur með göngu í gegnum sérstak VIP-tollhlið á Reykjavíkurflugvelli; síðan farið í fimm rútum með sérstakri útvarpsstöð, setinn gala-kvöldverður í Valaskjálf með skemmtiatriðum og flogið til baka um kvöldið.Fræg var ferðin sem fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins fóru að Kárahnjúkum þar sem gestgjafi var Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi varaformaður flokksins, og gestirnir voru Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður flokksins, Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður og nú ritstjóri og fjórði ferðafélaginn var Styrmir Gunnarrsson ritstjóri.Viðleitni Ómars er eftirtektarverð og það verður eftirtektarvert hverjir þiggja boð hans. Ómar lofar ekki flottheitum á við þau sem Landsvirkjun og aðrir jöfrar bjóða: Ég get ekki boðið ykkur svona þjónustu, heldur aðeins leiðsögn mína, samlokur og gosdrykki og beðið ykkur að hafa meðferðis góða skó og sæmilegan útifatnað. Undanfarin sumur hef ég farið með fólki gangandi, akandi og fljúgandi um svæðið á tveimur litlum flugvélum og gömlum jeppadruslum. Hoppað hefur verið á milli lendingarbrauta á völdum útsýnisstöðum þar sem stuttar gönguferðir hafa verið í boði. Lengd gönguferðanna hefur fólk ráðið sjálft. Á Sauðármelsflugvelli við Brúarjökul er hægt að setjast að snæðingi í gömlum húsbílsgarmi. Margt af þessu fólki hafði áður farið í hefðbundnar ferðir með endastöð á útsýnispalli Landsvirkjunar. Ég hef ráðið af viðbrögðum þess við því sem það upplifði í ferðunum með mér að þær hafi veitt því nýja og dýrmæta sýn, bæði á mannvirkin og áhrifasvæðin. Ég veit að þið eruð önnum kafið fólk og hver dagur dýrmætur. Þið gátuð þó séð af degi eða jafnvel lengri tíma til að kynna ykkur með eigin augum allvel aðra hlið málsins en að litlu leyti hina hliðina.Ekki hafa allir væntanlegir gestir Ómars þegið ferð að Kárahnjúkum til að kynna sér aðra hlið málsins. Það er í valdi Ómars að kynna því fólki það sem því er hollast að vita og þekkja. Honum er betur treystandi til þess en flestum öðrum gestgjöfum.