11. ágúst 2006
Mikil ósköp eru það fínar fréttir að Siv Friðleifsdóttir ráðherra sækist eftir formennsku í Framsóknarflokknum. Þetta er ekki sagt sem stuðningur við Siv, heldur vegna þess að Framsóknarflokksins beið alveg fáránleg staða hefði Siv ekki stigið fram og sýnt kjark, metnað og áræðni. Það hefði verið hreint ómögulegt ef Jón Sigurðsson, sem var kallaður til af fráfarandi formanni, hefði sjálfvirkt verið kjörinn formaður.Framsóknarflokkurinn hefur átt bágt og mun eflaust eiga um nokkurn tíma. Flokkurinn getur engum kennt um hvernig komið er nema sjálfum sér. Ef eitthvað getur flýtt fyrir bata Framsóknarflokksins er að á flokksþinginu verði alvöru kosningar um forystuna. Það er ekki nokkur einasti möguleiki fyrir flokksfólk að koma heim af eigin þingi öðruvísi en gera þar upp við þá forystu sem nú er að kveðja, einkum og sér í lagi við stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar og þess vegna hefði verið með öllu ómögulegt að Jón Sigurðsson hefði fengið kosningu átakalaust. Lífsins ómögulegt er að segja til um hvort þeirra, Siv eða Jón, er heppilegri formaður. Þau eru ólík og hafa ólíkan bakgrunn. Framsóknarflokkurinn er nánast klofinn í tvær fylkingar, jafnvel fleiri, og næsti formaður verður að koma flokknum saman. Frambjóðendurnir tilheyra hvor sinni fylkingunni. Jón sækir stuðning til Halldórs fráfarandi formanns og helsta samstarfsfólks, en Siv til þeirra sem hafa ekki verið sáttir með Halldór og hirðina hans. Þau hafa ólíkt bakland.Eftir að Guðni Ágústsson brást stuðningsmönnum sínum og hræddist Jón í formannskjöri hafa augu þeirra sem vilja uppgjör beinst að Siv. Hún hefur svarað kallinu og ljóst er að spennandi kosningar eru framundan. Hirð Halldórs hefur ekki stutt Siv til þessa og mun ekki gera að óreyndu. Þess vegna er framboð hennar gegn sitjandi formanni og hans stuðningsliði. Jón treystir hins vegar á það fólk sem mun ekki styðja Siv. Þess vegna verður uppgjör á flokksþinginu.Framsóknarmenn standa frammi fyrir sérstöku vali. Þeir hafa átt fleiri kvenráðherra en aðrir flokkar og hafa nú möguleika á að sækja enn fram í jafnrétti og gera konu að formanni flokksins.Svo er annað hvort formannsefnanna heppilegri kostur fyrir þann meginþorra þjóðarinnar sem er ekki í Framsóknarflokknum. Kannski skiptir það ekki mestu, kannski er mesta keppikefli Framsóknarflokksins og þjóðarinnar það sama, að Framsóknarflokkurinn fái hvíld frá þjóðstjórninni. Ef sú verður niðurstaðan að loknum kosningum verða komandi formannskosningarnar í Framsókn fyrst og fremst innanbúðarmál og okkur hinum óviðkomandi. Kannski er það best.