14. ágúst 2006
Mestu eiturvaldar á Íslandi eru stórðiðjuverin. Það kemur ekki á óvart og kannski á engan að undra að Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði skuli eitra nánast jafnmikið og álverið í Straumsvík, margfalt stærra fyrirtæki. Ekki leynir sér að frá Járnblendiverksmiðjunni stígur svartur og ljótur reykur, reykur sem getur ekki annað en verið fjandsamlegur umhverfi og mönnum. Eina vörn talsmanns fyrirtækisins er skelfileg, tugga sem alltof oft er notuð, að eitrið yrði meira ef verksmiðjan nyti ekki raforku. Kol eru vissulega verri, en það breytir því ekki að við höfum hér til þess að gera lítið fyrirtæki sem látlaust eitrar og skemmir langt umfram önnur fyrirtæki, þegar miðað er við stærð og hag.Í samanburði má geta þess að í álverinu á Grundartanga, sem er næsti nágranni Járnblendiverksmiðjunnar, er allt annað uppi á teningnum. Eftir stækkun mun sú fabrikka senda frá sér 450 þúsund tonn af útblæstri á ári en Járnblendiverksmiðjan sendir frá sér 665 þúsund tonn á ári hverju. Þetta er alltof mikið og haldlítil rök að segja að þetta yrði enn verra færi eitrunin fram í öðru landi. Þeir sem ekki geta heft eitrunina verða að játa uppgjöfina.Blaðið hefur fjallað talsvert um umhverfismál síðustu daga og vikur og mun halda því áfram. Í Blaðinu á laugardag var fjallað um eiturverksmiðjurnar á Íslandi. Þar sagði forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar: Landamæri hafa lítið að segja þegar kemur að útblæstri þessara lofttegunda. Stóriðja á Íslandi er mun skilvirkari og við skilum mun minna af koltvísýringi út í andrúmsloftið á hverja framleidda einingu borið saman við annars staðar í heiminum, og bætti við að útblástur gróðurhúsalofttegunda sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þessa iðnaðar. Talsmaðurinn hélt áfram. Betri tækni þýðir minni útblástur, auk þess sem hagkvæmnin eykst. Forsenda þess að járnblendi er framleitt á Íslandi er að við verðum að vera miklu skilvirkari, með hærra tæknistig og þróaðri framleiðslu en til dæmis verksmiðja í Kína eða Rússlandi. Talsmaður Alcan í Straumsvík hreykir sér af árangri þess fyrirtækis, segir það hafa náð að draga úr eitruninni. Það er vonandi rétt, en slæmt samt. Ljóst er að okkar bíða frábær tækifæri til að draga sem mest úr eitrun stóriðjuvera, ekki er raunhæft að ætla að þau hætti eða fari til annarra landa. Sú vakning sem hefur orðið hér í umhverfismálum mun vonandi halda áfram og aukast og verða til þess að við gætum okkar betur hér eftir en hingað til. En það er fleira ógert. Í Blaðinu í dag er fjallað um annan mesta mengunarvaldinn í landinu, bílana. Útblástur gróðurhúsalofttegunda af völdum bíla og tækja hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Útblástur koltvísýrings hefur aukist. Ýmislegt hefur verið gert en það er ekki nóg, meira þarf að gera og tækifærin eru okkar.Hvað varðar útblástur frá bílum getum við ekki með sama hætti bent á aðra. Þar ráðum við almenningur nokkru og það er okkar að vanda okkur til að við getum af einhverjum sóma ekið um á bílunum okkar. Ráðamenn og talsmenn eiturfarbrikka verða að hysja upp um sig, og við líka.