15. ágúst 2006
Það er ekki rétt sem Siv Friðleifsdóttir, formannsframbjóðandi í Framsóknarflokknum, segir í Morgunblaði gærdagsins að farsæll foringi sé að kveðja. Halldór Ásgrímsson var foringi, en ómögulegt er að taka undir með Siv og segja Halldór hafa verið farsælan foringja. Kannski var hann það á einhverjum tíma, en vegna þess hvernig hann spilaði síðustu mánuðina og árin er ómögulegt að taka undir með Siv og segja að farsæll foringi sé að kveðja. Það er bara ekki rétt og það er alls ekki rétt af Siv að halda þessu fram með þessum hætti. Bara alls ekki.Stjórnlaus metnaður Halldórs varð til þess að Siv var sett út úr ríkisstjórn á sínum tíma. Það var gert til þess að Halldór kæmist í stjórnarráðið. Þá var sagt að það yrði Framsóknarflokknum mikil lyftistöng, það myndi lyfta flokknum upp úr ládeyðu og til sóknar og sigra. Það gekk heldur betur ekki eftir. Snemma í forsætisráðherratíð Halldórs tók að gæta óþreyju innan flokksins. Árangurinn sem stefnt var að lét ekki bara á sér standa, hann kom aldrei. Flokknum hélt áfram að blæða út og honum blæðir enn. Þess vegna er nánast galið að tala um Halldór sem farsælan foringja. Kannski sagði Siv þetta til að styggja engan á síðustu dögum fyrir flokksþingið. Kannski verður hennar metnaður til þess að hún kýs að tala með þeim hætti sem styggir fæsta.Framsóknarflokkurinn var um langan aldur langtum stærri flokkur en hann er nú. Hann hafði um og yfir tuttugu prósenta kjörfylgi og hafði mikið að segja í landsmálunum. Þrátt fyrir smánarlega útreið í kosningum og endurteknar vondar mælingar í skoðanakönnunum hefur flokknum tekist að viðhalda völdum, eða hvað? Situr hann kannski víða í skjóli Sjálfstæðisflokksins og getur ekki beitt sér af alvöru sökum þess hversu fáa fulltrúa hann á og hversu veikt hann stendur? Sennilega er það svo.Halldór Ásgrímsson leiddi flokkinn frá moldinni á mölina, eða ætlaði það allavega, en fylgi flokksins í þéttbýli er ekki merkilegt, með einstaka undantekningum. Staðan er augljós, Halldóri tókst ekki að vera nema skamma stund í draumastarfinu, starfi sem hann hafði fórnað svo miklu fyrir, meðal annars Siv Friðleifsdóttur, og Halldóri tókst ekki einu sinni að enda formennsku í Framsókn með glæsibrag. Hann hrökklaðist frá landsstjórninni og flokksstjórninni. Þannig er það og þannig hljóðar það, hvað sem Siv eða aðrir segja.Halldóri Ásgrímssyni hlýtur að vera mikið í mun að eftriskriftin verði sem best, en til að það takist verður hún að vera sönn. Það er ekki hægt að falsa söguna. Halldórs er fyrst og fremst minnst fyrir tröllslegan vilja í virkjunarmálum, vilja til innrásar í Írak, að vera leiðitamur fylgisveinn Davíðs Oddssonar, einkavinavæðingu ríkisbanka og að hafa tapað um helmingi af fylgi eigin flokks. Þetta er eftirskriftin núna. Hún kann að breytast, enda eflaust margt sem Halldór gerði á aldarþriðjungi til heilla. Það man það enginn núna nema kannski Halldór. Foringi Framsóknar kveður, en það er ofmælt að segja hann farsælan.