17. ágúst 2006
Blaðið hefur sagt fréttir af yfirfullum fangelsum. Þar hefur komið fram að fangelsin eru ekki bara yfirfull, sum standast ekki kröfur og við þau hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir. Svo bág er staðan að fangelsismálastjóri, sem virðist vera hinn vænsti embættismaður, hefur sagt að hann vilji ekki bera ábyrgð á því hvernig komið er og hyggist láta af embætti.Ábyrgðin er ekki bara fangelsismálastjóra. Í áraraðir hefur verið beðið eftir nýju fangelsi. Það hefur hins vegar verið sett til hliðar af nokkrum dómsmálaráðherrum. Þeir virðast eiga það sameiginlegt að hafa sett lausnir á bráðum vanda í bið, kannski þar sem fangar eru ekki í uppáhaldi hjá okkur hinum og mæta ekki sama skilningi og aðrir. Það er samt skylda samfélagsins að búa að öllum með sæmilegum hætti, líka þeim sem hafa brotið gegn okkur hinum. Öllum samfélögum fylgir margbreytileiki, jafnt jákvæður sem neikvæður. Það er hrein og klár skylda okkar að búa betur að refsiföngum en við gerum nú. Dómsmálaráðherra verður að láta til sín taka og þoka brýnu máli áfram. Sú staðreynd ein, að ekki er pláss í fangelsum fyrir fleiri, dugar til að viðurkenna neyðarástand. Við bætist að þau okkar sem brjóta af sér verða að bíða mánuðum saman frá því að dómur er kveðinn þar til unnt er að hefja afplánun. Það er ósanngjarnt og eykur jafnvel á refsinguna, langt umfram það sem dómarar hafa ákveðið.Svo margir eru vistaðir í gæsluvarðhaldi að ekki er unnt að koma fleiri föngum að. Það er afleitt og ekki síður sú staðreynd að við beitum gæsluvarðhaldi af meiri hörku en flestar nálægar þjóðir. Það er ekki bara að við höfum þröng og yfirfull fangelsi, sem jafnvel eru ekki samboðin einum né neinum, heldur höfum við farið þá leið að beita einangrun af meiri fantaskap en aðrar þjóðir.Það er ekki til sóma að bæta ekki úr og það er ekki hægt að ár eftir ár sé jafn sjálfsagt mál og nýtt fangelsi látið mæta afgangi. Auk þess hefur verið bent á að það kostar mikið að hafa gæsluvarðhaldsfangelsi á Litla-Hrauni, fjarri lögreglu, fjarri dómsölum og fjarri lögmönnum. Ferðir fram og til baka kosta peninga og tíma. Rök um peninga eru oftast einföldust og mæta mestum skilningi, jafnvel þau duga ekki hér.Erfiðara er að beita rökum um heill og hag fárra, ekki síst þegar talað er um fanga. Vissulega er staða þeirra slæm og á kannski að vera það. Það er slæmt að vera sviptur frelsi og bara þess vegna er hægt að segja að staða fangans sé slæm, en það er ekki okkar að auka á raunir þeirra og aðstandenda með því að búa að föngum einsog við gerum. Hver og einn sem kemur úr afplánun sem betri maður, tekur virkan þátt í samfélaginu, snýst frá fyrri niðurlægingu, öðlast frið og hamingu er meira virði fyrir okkur öll en svo að við getum sæst á að aðbúnaður fanga sé með þeim hætti að úr fangelsum sé nánast engin von að komi betri einstaklingar en fóru inn. Ef í útreikningana sem ráða frestun úrlausna ár eftir ár hefur gleymst að setja inn sálarheill, lífsgleði og það að gera vafasaman mann góðan, er best að reikna upp á nýtt. Fangar eru nefnilega líka fólk.