21. ágúst 2006
Getur verið að flokksþing Framsóknar hafa verið þing um ekkert? Ekkert hafi breyst annað en að Halldór lét af formennsku og við henni tók vildarvinur hans og ráðgjafi í áratugi? Má vera að flokksþingið hafi ekki fært flokkinn eitt fet frá því feni sem hann er í? Má vera að kjarkleysi til breytinga hafi náð völdum af flokksfélögum og að þeir komi frá þinginu í sömu stöðu og þeir komu til þess?Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, var valinn til embættis af Halldóri. Það dylst engum og að flokksþingið lét það yfir sig ganga. Guðni Ágústsson er áfram varaformaður, svo það er engin breyting þar og það er ekki hægt að gera Framsóknarflokknum það til hæfis að tala um stöðu ritara sem alvörupólítiska stöðu. Það skiptir þjóðina bara engu hver gegnir embætti ritara í Framsóknarflokknum. Í forystu Framsóknarflokksins eru tveir karlar, vel á sextugsaldri. Það er sérstaða þeirra meðal stjórnmálaflokka í dag, reyndar lætur nærri að eins sé komið fyrir Frjálslynda flokknum. Aðrir flokkar hafa breidd í sinni forystu.Framsókn er í afleitri stöðu og það veit þjóðin og það vita Framsóknarmenn. Staða þeirra er afleit meðal annars vegna einkavæðingar banka, vegna undirlægjuháttar við Bandaríkjamenn vegna Íraksstríðsins, vegna undirlægjuháttar við Davíð Oddsson vegna fjölmiðlamálsins, vegna stórðiðjustefnu, vegna hryðjuverka gegn náttúrunni og vegna græðgi formannsins fyrrverandi til að verða forsætisráðherra og síðast en ekki síst, vegna hversu illa þeim hefur tekist að flytja mál sitt, verja gjörðir sínar og benda á það sem þeim hefur þó tekist vel með.Kannski átti flokksþingið erfitt val, annar frambjóðandinn til formanns kom úr ráðgjafahirð fyrrverandi formanns, þeirri hirð sem ber mikla ábyrgð á því að æ fleiri kjósa að snúa baki við flokknum og þeirri stefnu sem flokkurinn hefur fylgt. Hinn frambjóðandinn var til dæmis umhverfisráðherra þegar hryðjuverkin gegn náttúrunni voru hvað mest og ber þess vegna mikla ábyrgð. Það þarf kjark til að hafna konu á besta aldri og það þarf kjark til að velja einn af ráðgjöfunum, mann sem er elstur allra til að taka við formennsku í Framsóknarflokknum, aldrei áður hefur flokkurinn valið sér eldri formannn. Það er kjarkleysi að hafa ekki þorað að tala um einkavæðingu, að hafa ekki þorað að tala um Íraksstríðið, að hafa ekki þorað að tala um fjölmiðlaofbeldið, um stóriðjuna og aðförina að náttúrunni. Það eina sem frambjóðendurnir töluðu um og boðuðu breytingar á var að Evrópumálin væru ekki á dagskrá á næstunni. Það er fullyrðing Davíðs Oddssonar og nú Framsóknarflokksins. Þjóðin mun setja Evrópumálin á dagskrá og vel má vera að Framsóknarflokkurinn fylgi þjóðinni ekki, en forræði í Evrópumálunum verður ekki flokkanna, þeir hafa ekki kjarkinn, en þjóðin hefur hann og þjóðin ræðir Evrópumál.