23. ágúst 2006
Það getur ekki verið hátt risið á saksóknaranum í Baugsmálinu eftir að hann varð að játa sig sigraðan með helsta kafla eigin ákæru, kafla sem dómstólar hafa ítrekað vísað á bug, en það tók saksóknarann alltof langan tíma að viðurkenna stöðu sína og gefast upp. Þegar hann gerði það loks varð hann samt að leggjast svo lágt að strá efasemdum um Jón Ásgeir Jóhannesson og hvort hann sé raunverulega sekur eða saklaus af þeirri ákæru sem saksóknarinn er nú neyddur til að viðurkenna að hefur ekkert með refsilög að gera.Hið opinbera hefur rannsakað nóg í Baugsmálinu og hefur gert meira en gott þykir. Eftir alla þá fyrirhöfn og alla þá peninga sem varið hefur verið til málsins er það býsna snautlegt sem eftir stendur og verði saksóknaranum að góðu að berjast með leifarnar af Baugsmálinu í dómsölunum. Verst er að hann getur ekki útkljáð málið einn síns liðs, hann þarf sakborninga og það er verst fyrir þá að þurfa að taka lengur þátt í þessum ótrúlega farsa sem Baugsmálið er.Hvort Baugsmenn hafi tekið lán, flutt inn bíla eða sláttuvélar og svo framvegis er smámál miðað við þörfina á að rannsakað verði hvernig Baugsmálið varð eins stórt og raun ber vitni um og ekki síður hver aðdragandi málsins var og hvers vegna það fékk forgang á flest annað. Frá upphafi hafa fleiri en Baugsmenn fundið að málsmeðferðinni. Dómstólar hafa ítrekað smánað vinnu saksóknaranna beggja og það hlýtur að vera rannsóknarefni hversu lengi málinu var framhaldið, ekki síður en hvers vegna það upphófst.Það er alkunna að upphaf kærunnar á hendur Baugsmönnum er hjá fólki sem síðar hefur ekki komið formlega við sögu málsins. Annað er ómögulegt en að þeir sem hafa verið bornir sökum af hálfu hins opinbera geri allt sem þeir geta til að kanna hvað varð til þess að veik kæra eins manns leiddi til alls þess sem á eftir fylgdi. Það er þörf á að Baugsmálið verði þeim sem fara með hið mikla vald saksóknara minnisvarði um að valdinu fylgir alvara og því verður að beita af varúð og skynsemi.Rannsakendur hafa alla tíð brugðist illa við þegar þeir hafa verið sakaðir um að taka við tilskipunum um framgang Baugsmálsins, en margir hafa sakað lögregluna um að vera undirlægju í málinu. Það er þess vegna óskandi að lögreglan vilji sanna sakleysi sitt og taki þátt í að skýra hvers vegna málið varð að þeim óskapnaði sem raun hefur orðið á.Tilgátur um pólitísk afskipti af Baugsmálinu hafa alltaf verið uppi. Þær verða það þar til annað sannast, þannig er það. Ekki má gleymast að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, svaraði á þann veg, þegar hann var spurður um hvort pólitík hafi haft áhrif á Baugsmálið, að ef svo væri myndu dómstólar einfaldlega vísa málinu frá. Það hafa þeir gert, ekkert er eftir nema bragðlausar leifar, sem eru nánast níð um þá sem hafa talað fyrir sök í málinu, fórnað ómældum peningum og krafti í mál sem nánast ekkert er og fjöldi manns hefur varað við þeim málalokum sem nú eru orðin að veruleika.