25. ágúst 2006
Prófkjör stjórnmálaflokkanna eru framundan. Þar munu samherjar herja hver á annan og margir bíða ósigra. Það er svo sem allt í lagi. Hitt er annað, að baráttan fyrir þingsætunum mun kosta mikla peninga, peninga sem frambjóðendurnir eiga ekki sjálfir, heldur snapa upp hér og þar. Og í sjálfu sér getur það verið í lagi, en þó ekki, þar sem stjórnmálamenn hafa slegið skjaldborg um sjálfa sig og peningana.Ólíkt stjórnmálamönnum í alvöru ríkjum þurfa þeir íslensku ekki að segja hverjir gefa þeim peninga, hvorki einstaka stjórnmálamenn né stjórnmálaflokkar. Þetta er sérstaða sem íslenskir stjórnmálamenn hafa búið til fyrir sjálfa sig og sem aðrir komast ekki upp með.Vegna þessa háttalags munu kjósendur aldrei fá að vita hvaða fyrirtæki og hvaða einstaklingar munu kosta framadrauma væntanlegra þingmanna og þess vegna verður ómögulegt að benda á ef þau sem ná kjöri munu í störfum sínum launa greiðann. Líklegast er kerfið einsog það er, einmitt vegna þess að ekki þykir heppilegt að fjölmiðlar eða aðrir geti leitað samsvörunar milli gefendanna og þess hvaða afstöðu þingmenn taka í málum sem snerta gefendurna og hagsmuni þeirra. Með því að fela tekjur flokka og gjafir og styrki til flokka og stjórnmálamanna er verið að strá efasemdum, efasemdum sem samtakamáttur stjórnmálamanna ver með krafti. Svo langt er gengið í hagsmunavörslunni að því er haldið fram af krafti að það styrki lýðræðið að mega þegja yfir því hverjir borga styrkina og gefa gjafirnar. Í öðrum löndum dettur fólki bara ekki í hug að bera aðra eins þvælu á borð. Kjósendur eiga ekki að láta þetta viðgangast, heldur krefjast þess að vitað verði hvaðan peningarnir sem kosta stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka koma. Meðan svo er ekki verða kjósendur að efast um starf stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka; meðan svo er verða kjósendur líka að gera ráð fyrir því að ástæðan fyrir því að þeir gefi ekki upp hver borgar kostnaðinn sé sú að það henti engan veginn að gefa það upp; það gæti ekki skaðað lýðræðið en það gæti skaðað gefendur og þiggjendur.Á næstu vikum munu samherjar takast á um hin eftirsóttu þingsæti. Miklu verður til fórnað, bæði af peningum og krafti. Við munum heyra ótal afsakanir og skýringar á fjáraustrinum og allir þeir stjórnmálamenn sem eiga eftir að tjá sig um eigin baráttu munu fullyrða fullum fetum að gjafirnar muni ekki hafa hin minnstu áhrif, engu breyta í huga stjórnmálamanna. Samt mun ekki koma til greina að skýra frá hverjir gefa.Margir þeir sem sækjast eftir endurkjöri á kostnað huldumanna hafa talað fyrir lagasetningu á annað fólk, til dæmis á fjölmiðla. Þá þarf að eignarhaldið að vera gegnsætt og tryggja frelsi fjölmiðlafólks, en á sama tíma þiggja stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar peninga undir borðið, peninga sem hvergi kemur fram hver gefur og hver þiggur.