28. ágúst 2006
Valgerður Sverrisdóttir getur ekki annað en hugleitt stöðu sína alvarlega. Það er eitt að hún sé sökuð um að hafa leynt Alþingi mikilvægum gögnum, gögnum sem höfðu mikið að segja þegar meirihluti Alþingis ákvað að ráðist yrði í gerð Kárahnjúkavirkjunar. Hitt er ekki síður alvarlegt að Valgerður sér ekkert að því sem hún gerði, segir þingmenn bara ekkert hafa haft með gögnin að gera, gögn sem fólu í sér varnaðarorð um ágæti stíflugerðarinnar.Það eru gríðarleg ósköp af upplýsingum og sérfræðiálitum sem eru til um þetta mikla mannvirki og þau gögn geta ekki öll komið fyrir Alþingi. Niðurstaðan er sú að það þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum atriðum í skýrslu Gríms Björnssonar nema einu atriði og það er atriði sem Alþingi fjallar ekki um, segir Valgerður í Blaðinu í dag. Þingmenn eru sumir hverjir ósáttir við hversu lítið álit Valgerður hefur á þingheimi.Þetta er svo alvarlegt hjá Valgerði að ferill hennar hlýtur að taka breytingum hér með, er jafnvel á enda. Það eru tvennskonar yfirsjónir í sama máli, feluleikurinn með gögnin og svo hitt að tala einsog hún gerir. Ráðherra má aldrei vera svo sjálfumglaður að hann ráði því hvaða gögn Alþingi fær og meti hvað þingheimur fær skilið og hvað þinginu getur gagnast við ákvarðanatöku. Það er svo hrikaleg aðför að þingræðinu að ekki er við það unandi. Þetta var ekki gert í neinu smámáli, Kárahnjúkavirkjun er risavaxið verk og fara verður með málið samkvæmt því.Valgerður var í vondum málum 2002 þegar ákvörðunin var tekin. Framsóknarflokkurinn stóð verulega höllum fæti, ekki síst í kjördæmi Valgerðar. Flokksmaskínan kunni engin ráð önnur en að ganga frá samningum um virkjun og iðjuver. Það var gert í flýti og með þeim ósköpum sem nú eru að koma fram. Flokkurinn átti enga innistæðu, bjó sér í haginn meðal annars með því að fela gagnrýni á stóru fyrirætlanirnar. Nú er komið að öðrum kosningum og að skuldadögum. Hvað nú, Valgerður? Og hvað nú, Framsókn?Stutt er til kosninga og ekki fer Framsókn vel af stað. Formaðurinn hrökklaðist frá, flokksmenn kusu helsta ráðgjafann í hans stað, Valgerður er í nauðvörn og þannig hefur mætti flokksins hefur verið ráðstafað. Valgerður Sverrisdóttir er ekki ein Íslendinga þeirrar skoðunar að Alþingi sé ekki alltaf treystandi. Fullyrðingar á þá leið heyrast víða og oft. En að ráðherrar haldi að hægt sé að skammta þinginu upplýsingar þegar það stendur frammi fyrir eins mikilli ákvörðun og það gerði þegar fallist var á gerð Kárahnjúkavirkjunar er algjörlega galið. Ráðherrann má ekki komast upp um slíkt. Sennilega eru þetta endalokin hjá Valgerði. Kannski hrekst hún heim rétt einsog þeir hinir ráðherrarnir sem frekastir voru.