29. ágúst 2006
Jónas Kristjánsson, sem er einn mikilhæfasti fjölmiðlamaður landsins, kallar það rokufréttir þegar mikið er sagt í einni frétt og ekkert framhald verður á málinu. Kenning Jónasar leitar oft á hugann þegar þingmenn gapa og garga fullir vandlætingar vegna einhvers. Nú keppast stjórnarandstæðingar við að mála Valgerði Sverrisdóttur hinum verstu litum. Hún á það svo sem alveg skilið, en öll stóru orðin og allt það mikla sem sagt er vegna Valgerðar og hennar málflutnings er dæmi um rokukenningu Jónasar. Sem fyrr munu þingmennirnir stórmæltu ekki gera neitt annað en hafa stór orð um Valgerði.Kannski geta þeir fátt gert. Þingið er hvort eð fyrir löngu hætt að virka. Á Íslandi er búið að afnema þingræðið og framkvæmdavaldið hefur náð öllum völdum. Eða hvenær henti það síðast að ráðherrar hafi ekki komið málum í gegn, að þingið hafi með sinni vinnu, sinni afstöðu fellt mál frá ráðherrum? Það bara gerist ekki. Þó þingmenn tali um vinnuna sína sem hina mestu alvöru og að þeir séu störfum hlaðnir og beri mikla ábyrgð þá getum við hin ekki séð að svo sé. Meira að segja einn af reyndustu þingmönnunum og reyndur ráðherra hefur sagt að sérfræðiálit eigi ekki erindi til þingmanna, það sé ekki þeirra að skilja orð sérfræðinga. Kristinn H. Gunnarsson er eina þekkta undantekningin, og ekki í fyrsta sinn, en það er annað mál, enda ekki sjálfgefið að hann teljist til stjórnarsinna.Þess vegna er alveg sama í hversu vonda stöðu Valgerður hefur komið sér, hver stjórnarsinninn á eftir öðrum mun gera allt til að verja hana og réttlæta gerðir hennar og orð. Þannig er það og þannig verður það. Vel má vera að einstaka stjórnarandstæðingur á þingi fari mikinn þessa dagana, en það býr ekkert að baki, ekkert. Þó fullyrt sé að ráðherrar í öðrum löndum hefðu sagt af sér, þó sagt sé að Valgerður hafi sýnt fádæma hroka og lítilsvirðingu, er það allt. Engin eftirmál verða og stórlega má efast um að alvara sé að baki öllum fullyrðingunum og öllum stóru orðunum. Það má vel vera að engu breyti hver málstaðurinn er, bara að eftir honum verði tekið. Í veigamestu málum hefur Alþingi ekkert að segja. Frumvörp eru samin í öðrum húsum af öðru fólki. Þau eru kynnt þingmönnum sem fjalla um þau og ná kannski fram einstaka breytingum í einstaka málum. Vilji ráðherranna verður alltaf ofan á. Líka þegar verður að verja þá vegna vitleysunnar sem þeir segja eða gera. Liðsheildin heldur.Upplýsingarnar sem var haldið frá Alþingi hefðu svo sem engu breytt. Það er rétt hjá Valgerði. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru búnir að semja sín á milli um Kárahnjúkavirkjun. Það dugði í þá daga. Þeir tóku ákvarðanir og fengu stimpla frá Alþingi. Þannig var það. Allar heimsins upplýsingar hefðu engu breytt.Alþingismenn reka upp rokur svo þeir gleymist ekki. En hvað þeir segja gleymist jafnharðan.