31. ágúst 2006
Aðgerðaleysi er duglegu fólki hættulegt. Eins ef það finnur sér ekki verkefni þó nóg sé að gera. Þannig virðist komið fyrir Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Hann lætur einsog hann hafi ekkert þarft að gera og talar fyrir her og leyniþjónustu.Ekki er það svo að af því sem heyrir undir Björn sé allt með þeim ágætum að ráðherrann hafi tíma til dekurverkefna. Flokkur Björns hefur fært honum völd sem eru vandmeðfarin. Meðal þess sem honum er ætlað er ábyrgð á lögreglu og fangelsum. Þar virðist margt í kalda koli. Olíusvikamálið hreyfist á hraða snigilsins, annað hvort vantar getu eða áhuga til að koma málinu á þann hraða sem þarf. Ekki vantar peninga til rannsókna, það hefur sannast í öðrum málum. Sama er að segja um nánast allt sem snýr að fangelsum, þar er vægast sagt allt í kalda koli. Þau er of fá, of þröng, of gömul og fangarnir hafa aðgang að fíkniefnum einsog hvern listir. Í stað þess að taka á því sem brýnast er virðist ráðherrann sitja og móta í huga sér framtíðarmyndir af leyniþjónustum og herjum.Eflaust hefur ráðherrann þungar áhyggjur af Baugsmálinu. Hið opinbera hefur sennilega eytt meira af peningum í það mál en nokkurt annað meint sakamál. Hið opinbera hefur reynt aftur og aftur og engar sakir fengið viðurkenndar, allavega ekki enn. Í stað eirðarleysis og aðgerðaleysis getur Björn látið til sín taka þar sem þörf er á að hann leggi málum lið.Fangelsismálastjóri hefur fengið nóg og hótar að hætta störfum sökum þess hversu illa er staðið að málum. Hann segist hreinlega ekki geta verið ábyrgur fyrir því sleifarlagi sem er á öllu í þeim málaflokki, hefur fengið nóg. Þarna eru ærin verkefni fyrir Björn.Það þarf að styrkja rannsóknina á olíusvikamálinu. Þó ekki væri nema vegna sakborninganna. Þeir eru menn og þeir eiga líka rétt. Það er ekki hægt að gera nokkrum manni það að ganga ár eftir ár meðal fólks og vera sífellt dæmdur af samfélaginu. Til að dæma þá sem breyta rangt eru dómstólar og til að þeir geti dæmt þarf að rannsaka mál, ákæra og dæma. Sakborningar eiga rétt á því að reglur samfélagsins séu virtar og að dómar verði felldir yfir þeim sem hafa brotið af sér. Svo eiga þeir sem eru ítrekað sýknaðir af ákærum hins opinbera líka rétt. Kannski felst sá réttur í því að ráðherrann axli ábyrgð og sjái til þess að þeir valdsmenn sem undir hann heyra virði fólk og fari vel með vald sitt. Allt eru þetta brýn verkefni sem dómsmálaráðherra þarf að taka á og koma áfram. Það er nóg að gera fyrir dómsmálaráðherra og kannski fer best á því að hugmyndir um leyniþjónustu og her bíði þar til ekkert annað er á borði ráðherra.