1. september 2006
Mikil tíðindi eru í útgáfu Blaðsins í dag. Upplag þess hefur verið aukið og er því nú dreift í rétt um eitthundrað þúsund eintökum. Framvegis mun Blaðið berast lesendum að morgni og því er treyst að lesendum muni fjölga verulega. Breytingar eru gerðar á útliti Blaðsins og efnistök verða skýrari. Þar með er lokið við að gera þær breytingar sem var talað um þegar breytingar urðu á ritstjórn Blaðsins fyrir tæpum tveimur mánuðum. Þrátt fyrir tímamót mun Blaðið eigi að síður halda áfram að breytast og þroskast.Blaðið hefur nokkra sérstöðu frá hinum dagblöðunum tveimur. Blaðið mun ekki ætla sér að keppa beint við hin dagblöðin tvö, heldur verða skýr valkostur. Sérstaða þess er nokkur. Blaðið verður áfram alþýðlegt, veitir upplýsingar og gætir að hag neytenda. Blaðið verður hófsamt og ákveðið, sanngjarnt og kjarkað og leitast verður við að í hverju tölublaði verði viðbót við allt það efni sem aðrir fjölmiðlar birta.Í nútímasamfélagi er það þannig að velflestir hafa aðgang að ljósvakafréttum að degi til og á kvöldin og aðgangur Íslendinga að tölvum er meiri en almennt gerist. Þess vegna er aðgangur flestra að almennum fréttum nokkur og stundum mikill. Blaðinu er ekki ætlað að endursegja fréttir sem aðrir fjölmiðlar hafa birt. Það hefur þegar skapað sér sérstöðu og áfram verður haldið á þeirri braut.Mikil og sterk viðbrögð hafa verið við þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar og er það von okkar sem störfum við Blaðið að þær breytingar sem nú líta dagsins ljós mælist einnig vel fyrir. Það er þörf fyrir fjölmiðil sem eykur litróf frétta, sem nálgast fréttir með öðrum hætti en allir hinir, sem er í senn alþýðlegur og skemmtilegur fjölmiðill.En fjölmiðill er ekki bara fréttir. Áfram verður lögð alúð við annarskonar efni. Í dag fylgir Orðlaus Blaðinu og verður svo áfram á hverjum föstudegi. Fastir efnisflokkar verða alla daga, svo sem menning, íþróttir og fleira. Ekki verður dregið úr vægi þessara þátta þrátt fyrir að fréttahlutinn hafi verið aukinn. Með annarri uppröðun efnis og fastari efnistökum mun fjölbreytni aukast og meira verður lagt í vinnslu alls efnis. Takmarkið er augljóst. Blaðið á að hafa sérstöðu, Blaðið á að vera skemmtilegt, fræðandi og ábyrgt.Það er fleira sem breytist en aukið upplag, morgundreifing, útlit og efnistök. Í fyrstu verður mánudagsútgáfu Blaðsins hætt. Þar sem sömu blaðberar dreifa Blaðinu og Morgunblaðinu er ekki unnt að bæta á þeirra vinnu á mánudögum, en þá kemur fasteignablað Morgunblaðsins út og því er vinna blaðbera mikil á mánudögum.Það er von okkar sem störfum við útgáfu Blaðsins að breytingar á dreifingu og efnistökum sem og útlitinu verði til þess að styrkja enn frekar ágætt samband Blaðsins og lesenda.