5. september 2006
Kastljósþáttur sunnudagsins hlýtur að skipa sér í sérstöðu. Davíð Oddsson var gestur þáttarins og virtist yfirvegaður og friðsæll. Þrátt fyrir það skilur hann eftir svo margar spurningar að varla verður tölu á komið.Orð Davíðs um stöðu dómsvaldsins voru ótrúleg. Hann sagði dómstólana vera svo slaka að þeir ráði aðeins við gæsluvarðhaldsúrskurði og sjoppurán. Annað ekki. Ótrúleg orð manns sem hefur haft eins mikil völd og raun ber vitni. Í stjórnartíð Davíðs dró sífellt úr valdi Alþingis, það varð afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið, þannig að lengur er varla hægt að tala um þrískiptingu valdsins. Löggjafarvaldið hefur aldrei verið aumara, og samkvæmt fullyrðingum Davíðs er dómsvaldið gjörsamlega vanhæft til allra stærri mála.Kannski er ekki ástæða til að gera svo mikið úr því sem Davíð segir. Allavega hirtu flestir ekkert um það þegar hann sagði Hrein Loftsson hafa ætlað að bera á sig fé. Þeir höfðu setið saman við drykkju og Hreinn segir Davíð hafa hótað innrás í Baug, og til að jafna leikinn bar Davíð á Hrein að hafa komið með mútuboð í umboði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Fáir trúðu Davíð. Í Kastljósþættinum upplýsti hann að hann hafi stundað það sem hann kallaði smjörklípuaðferðina. Þegar á hann var sótt átti hann til að kasta fram einhverju allt öðru og þannig rembdust andstæðingarnir við að verjast fullyrðingunum en gleymdu sókninni sem þeir voru í. Líklegt verður að telja að mútumálið hafi aldrei verið mál, bara smjörklípa. Án þess að þjóðin þekkti nokkuð til smjörklípuaðferðar Davíðs, tók hún samt aldrei mark á mútumáli Davíðs, fannst þetta vera eins og óþægilega klípa, smjörklípa.Það er svo sem hægt að brosa af þessu. En það var annað sem Davíð sagði sem er ekki broslegt. Er frekar óþægilegt. Hann sagði Bandaríkjaforseta, vin sinn, hafa breytt ákvörðun ríkisstjórnar til að þóknast Davíð Oddssyni, vini sínum. Má það vera að þannig gerist hjá ráðamönnum? Að þeir láti stjórnast af vinskap við hina og þessa? Vissulega varð vinátta Davíðs og Bush til þess að herþoturnar voru lengur á Íslandi, en til hvers? Hvað vannst með því? Frestur? Fyrst Bush er svona góður vinur Davíðs, er þá vináttan ekki gagnkvæm? Má vera að það sé skýringin á því hvers vegna Davíð blandaði hinni friðsælu íslensku þjóð í hernaðaráðtök? Allavega nefndi Hannes Hólmsteinn Gissurarson eina af bókum sínum: Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Má það vera að Davíð hafi verið að endurgjalda Bush greiðann, eða var það öfugt? Það er sama hvort er, jafn ógeðfellt er hugarfarið.Davíð á fleiri vini en Bush. Kári Stefánsson kom í tvígang fram í þættinum sem sérlegur vinur Davíðs. Sami Kári og allt ætlaði vitlaust að gera vegna ríkisábyrgðar sem Davíð vildi að hann fengi, en Kári afþakkaði vegna andstöðunnar í samfélaginu og sami Kári og hafði það í gegn með aðstoð Davíðs að Alþingi samþykkti lög um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Sem aldrei varð úr og var kannski aldrei annað en umbúðir. En vináttan hélt, kannski er það aðalatriðið.