6. september 2006
Fari svo að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur nái ekki meirihluta á þingi í komandi kosningum, á þá ekki að vera augljóst að þeir sem nú eru í minnihluta geri allt sem hægt er til að mynda ríkisstjórn? Má vera að forystufólk stjórnarandstöðuflokkanna telji erfitt að ráða þannig í úrslitin, verði þau með þeim hætti?Eftir tólf ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á að vera augljós krafa til stjórnarandstöðunnar að hún sverji að mynda ríkisstjórn eftir kosningar hafi hún stöðu til þess. Það er ekki spennandi til þess að hugsa að einhverjir stjórnarandstæðingar þori ekki að taka af skarið og segja það blákalt að það verði forgangsverkefni eftir kosningar að mynda nýja ríkisstjórn fái þeir afl til þess, og að þeir segi jafnframt að breytingar eða endurlífgun á núverandi stjórn verði þrautalending sem einungis verði reynd takist ekki að ná saman um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.Margt þakkar núverandi ríkisstjórn sér og eins benda helstu talsmenn hennar á margt sem miður hefur farið. Síðast gekk Davíð Oddsson lengra en aðrir hafa gert. Hann segir rangt haldið á varnarmálum, hann hefur áhyggjur af ríkum Íslendingum og af gagnslitlu dómskerfi. Efnahagsmálin hafa komið á hans borð með öðrum hætti en áður var. Af þeim hefur hann áhyggjur. Allt það sem hann hefur sagt, og einhverjir fleiri stjórnarsinnar, eru kjörin vopn fyrir stjórnarandstöðuna og ef hana skortir ekki kjarkinn á hún að hefja baráttuna strax. Það er fínt fyrir kjósendur að hafa klára valkosti. Núverandi ríkisstjórn verði áfram eða að við taki ríkisstjórn þeirra flokka sem nú eru valdalausir; sem hafa setið á áhorfendabekkjunum og sem hafa einstaka sinnum náð að hafa nógu hátt til að eftir þeim væri tekið og gagn hafi orðið af. Þar má nefna björgun fjölmiðlafrumvarpsfárs Davíðs Oddssonar.Fari svo að stjórnarflokkarnir haldi meirihluta er líklegast að þeir starfi saman að loknum kosningum. Undantekningarlítið eða jafnvel undantekningarlaust mæra allir stjórnarsinnar samstarf flokkanna. Þess vegna er ekki hægt að sjá hvers vegna það haldi ekki áfram eftir kosningar verði flokkarnir með meirihluta á þingi. Útlit er fyrir að Framsóknarflokkurinn verði aumur eftir kosningar, en það hefur ekki truflað Sjálfstæðisflokkinn til þessa eins og sjá má á núverandi samstarfi þeirra í ríkisstjórn og byggðastjórnum hér og þar um landið.Með sama hætti er ábyrgð lögð á stjórnarandstöðuna ef ríkisstjórnin fellur. Ábyrgðin er falin í því að þá ætla kjósendur núverandi stjórnarandstöðu að taka við landsstjórninni. Þá er uppi klár afstaða kjósenda og það er kominn tími til að stjórnmálamenn virði vilja kjósenda og taki hann fram yfir eigin hag. Sjaldan eða aldrei hafa verið eins fínir möguleikar á skýrum valkostum í kosningum sem nú. Eina sem vantar er hreinskilni og kjarkur forystufólksins. Það verður að tala skýrt, bæði þau sem nú eru ríkisstjórn og eins þau sem eru utan stjórnar. Kjósendur eru eflaust reiðubúnir að gera upp hug sinn; núverandi ríkisstjórn eða ríkisstjórn núverandi stjórnarandstöðu. Svör óskast frá flokkunum.