7. september 2006
Las í blaði að lögregla hefði þurft að beita kylfum í átökum við hóp unglinga. Ef það er rétt þá er það væntanlega mat lögreglu að svo hafi verið. Líklega eru unglingarnir á öðru máli en lögreglan. Það er allsendis óvíst að unglingarnir, eða allir aðrir en lögreglan, hafi sama mat á hvort lögregla þurfi að beita barefli á borgarana.Umræðan um lögregluna snýst mest um að efla þurfi lögreglu, stofna nýjar deildir sem hafi víðtækari heimildir en nú er og svo bætast við fullyrðingar um að beita þurfi bareflum. Er ekki rétt að hinkra aðeins við? Vissulega koma upp aðstæður þar sem fólki og þar á meðal lögreglu stafar ógn af framferði einhverra glæpamanna. En það er ekki hið dæmigerða og drukknir unglingar réttlæta ekki barsmíðar lögreglu nema þeir hafi brotið harkalega af sér. Barsmíðar lögreglu hafa ekki verið rökstuddar.Halda mætti að þeir sem stýra lögreglunni séu herskáir. Í stað þess að efla traust á milli lögreglu og borgaranna er nær einungis rætt um meira vald og meiri ógn af lögreglu.Almennt ber að hræðast ef lögregla hefur of víðtækar heimildir, bæði til vopnaburðar og beitingar vopna, sem og til meðferðar upplýsinga um borgarana. Jónas Kristjánsson hefur áhyggjur af hugsanlegri íslenskri leyniþjónustu og skrifar á vef sinn: Patrick Gray játaði fyrir bandarískri þingnefnd að hafa eytt gögnum til að verja Nixon Bandaríkjaforseta falli. George J. Tenet gerði það sama fyrir George W. Bush forseta, en var frægastur fyrir að segja það vera piece of cake" að finna gereyðingarvopn í Írak. Þetta eru frægustu forstjórar CIA, ágæt dæmi um, að leyniþjónustur fara úr böndum, þótt þær séu vel meintar. Hið sama mun gerast með leyniþjónustu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Hún mun gefa rangar upplýsingar, verða staðin að svínaríi og hafa afskipti af innlendum stjórnmálum, til dæmis með njósnum um stjórnarandstæðinga.Það er mikið til í þessu. Vel má vera að þeir sem undirbúa leyniþjónustu hafi ekkert af þessu í huga, en heimildir til persónunjósna verða til og allsendis óvíst er hverjir fara með heimildirnar næst og hvernig samfélagið verður. Það er ástæða til að óttast. Kannski sýna símahleranir fyrri ára það einmitt. Varist er af krafti til að fela upplýsingarnar. Það mun endurtaka sig ef hér verður leyniþjónusta.Best er að fara varlega. Fyrir ekki svo löngu hefði þótt ótækt að lögregla notaði barefli á drukkna unglinga án þess að það drægi dilk á eftir sér. Í dag er það tekið svo gilt að fyrirvaralaust er talað um að það hafi þurft að beita ofbeldi. Engin gagnrýni, ekkert athugavert. Sama mun væntanlega gerast með leyniþjónustu, hægt og bítandi verður hún fyrirferðarmeiri, meira ógnandi, verri og verri. Vinsamlegast hinkrum við.