12. september
Valgerður Sverrisdóttir baðst einhverra hluta vegna undan helsta verkefni utanríkisráðherra þegar hún tók við embættinu. Valgerður Sverrisdóttir er þess vegna aðeins hálfur ráðherra, en á fullum launum. Varnarmálin eru á borði forsætisráðherra sem er manna snjallastur í að þegja og fela upplýsingar. Nú hefur komið í ljós, nánast öllum að óvörum, að enginn hefur fylgst með loftferðum við Ísland í nokkurn tíma. Forsætisráðherra hefur vonandi vitað af þessu, en þó kosið að segja ekki frá. Sú krafa er ekki gerð til Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra að hún hafi vitað af varnarleysinu. Enda er það ekki á hennar borði. Hún afþakkaði stærsta verkefni ráðuneytisins.Hvers vegna ætli það líðist að utanríkisráðherra fari ekki með varnarmál og hvers vegna gengur það í langan tíma að utanríkismálanefnd viti ekki af varnarleysinu? Svörin eru augljós.Til að byrja með sannar staða Valgerðar að í raun skiptir það eitt mál að halda ríkisstjórninni saman. Ráðherrar koma og ráðherrar fara af meiri krafti en dæmi eru um. Framsókn er svo illa leikin að flokkurinn hafði engan til að gegna embætti utanríkisráðherra; bekkurinn er bara of þunnt skipaður og þess vegna varð úr að Valgerður var sett í utanríkisráðuneytið til að flokkurinn teldist halda því embætti, en þar sem hún treysti sér ekki til verksins var fundin þessa sérstaka leið að fela öðrum að fara með eina málið sem skiptir verulegu máli. Eftir situr Valgerður í embætti til þess eins að vista það fyrir Framsóknarflokkinn, til að draga úr eða til að fela niðurlæginguna.Utanríkismálanefnd var ekki sett inn í stöðu varnarmála vegna þess að hún skiptir engu máli, alla vega ekki miklu. Á Íslandi er ráðherraræði og það er í mesta lagi fyrir kurteisissakir sem þingnefndir eru settar inn í mál, og þá helst ef einstaka þingmenn hafa kvartað sáran. Meiningin með því að setja þingið inn í einstök mál er í sjálfu sér engin. Ekki nokkur. Það er bara þannig að það þarf að gera ýmislegt til að halda friðinn, til að láta hlutina líta sem best út. En í erli valdsins getur það svo sem gleymst og lái forsætisráðherra hver sem vill þó hann upplýsi þingið ekki um þetta mál. Það hefði engu breytt. Stjórnarandstæðingar hefðu kannski hrópað á torgum. Ekki hafa þeir þingið til þess. Það er enn í sumarfríi og hefur verið síðan snemma í vor. Stjórnarsinnar hefðu hvort eð er sagt þetta allt í besta lagi, ráðherrana alla vera að gera rétt. Þannig er það og þannig verður það. Þingmenn ganga oftast lengst allra í að lítillækka eigin störf og eigin stöðu.Staða þjóðarinnar væri örugglega ekki verri og ekki betri þó Valgerður væri alvöru ráðherra og sinnti öllum störfum utanríkisráðherra. Það skipti sennilega engu. Varðveisla hennar á embættinu fyrir Framsóknarflokkinn sýnir betur en flest annað að stjórnmálin eru fyrir flokkana og ráðamennina en ekki öfugt.