13. september 2006
Ögmundur Jónasson stóð sig vel þegar hann gekk af fundi þar sem útdeilt var upplýsingum sem þegja á um. Það er rétt hjá þingmanninum að afþakka upplýsingar sem hann má ekki segja frá. Hann, einn þingmanna, gerði sér grein fyrir hver staða hans er, hvert hann sækir umboð sitt. Aðrir þingmenn létu ósómann yfir sig ganga. Fengu upplýsingar sem eru þeim með öllu gagnslausar þar sem ekkert er með þær að gera. En Landsvirkjun tókst enn frekar en áður að láta hluta þingheims taka þátt í þögninni gagnvart þjóðinni, gegn eigendum fyrirtækisins.Hver arðsemin verður af Kárahnjúkavirkjun er meðhöndlað sem hernaðarleyndarmál og sama er að segja um stöðu okkar gagnvart Bandaríkjamönnum vegna varna landsins. Merkilegt hvernig ráðamenn láta; þeir þegja um sjálfsögðustu hluti og þá sjaldan þeir tjá sig þá er það í smáskömmtum eða jafnvel með enn verri hætti. Þingnefnd fær einhverskonar upplýsingar gegn loforði um að halda sannleikanum frá umbjóðendunum. Og flestir þingmenn þiggja. Þetta er merkilegt.Þess vegna var það gott hjá Ögmundi að ganga af fundi. Eflaust líður honum betur á eftir; þarf ekki að ganga um með upplýsingar sem hann fékk sem þingmaður en má ekki tala um við þá sem kusu hann, við þá sem veittu honum umboð.Öll sú leynd sem verið er að búa til um alla hluti er sérstök. Meira að segja var upplýsingum um fáránlegan rekstur strætisvagna haldið frá eigendunum, og það var sagt gert til að draga ekki úr gleði yfir misheppnaðasta leiðakerfi sem sögur fara af, leiðakerfi sem hefur valdið miklu ósætti og óánægju.Nú búa nokkrir þingmenn að upplýsingum um endurskoðaða arðsemi af Kárahnjúkavirkjun, en það er allt. Þeir hafa gengist undir skilyrði; þeir mega ekkert segja um það sem þeir fengu að vita. Landsvirkjun setti skilyrði og þau halda. Á sama tíma segja stjórnarmenn í Landsvirkjun fyrirtækið ekki vera rekið sem fyrirtæki, frekar sem pólitískan klúbb. Bæjarstjórinn á Akureyri, sem á sæti í klúbbnum, sagði í viðtali að við þetta kerfi væru kostir. Það er ekki víst að þeim sem eru utan við klúbbinn finnist það sama, að eitt stærsta fyrirtæki landsins sem er í opinberri eigu lúti ekki eðlilegum lögmálum, heldur stjórnist af stjórnmálum. Það þarf ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að helst eru stjórnmálamenn, ekki síst þeir sem eru hættir, valdir til stjórnarsetu.Allt þetta á að kalla á viðbrögð. Það sem Ögmundur gerði breytir eitt og sér kannski ekki miklu. Það vekur samt athygli á hvernig farið er með þingið og hvernig þingmenn eru reiðubúnir að fara með þjóðina. Þiggja það sem að þeim er rétt, bara fyrir sig, en hirða minna um fólkið sem veitir umboðið. Þess vegna var þetta fínt hjá Ögmundi. Það er enginn tilgangur með því að búa yfir upplýsingum sem ekki má fjalla um.