15. september 2006
Davíð Oddsson og klappliðið hans í Seðlabankanum komu ekki á óvart. Stýrivextir voru hækkaðir eins og ráð var fyrir gert. Utan bankans er ekki klappað. Aðrir sem bera ábyrgð á velferð þjóðarinnar, svo sem talsmenn launafólks, eiga varla orð til að lýsa hagstjórninni. Rússíbanahagstjórn, segir hagfræðingur Alþýðusambandsins.Í sumar gerðu deilendur á vinnumarkaði og ríkisstjórn með sér samkomulag til að slá á verðbólguna. Vonast var til að Davíð léti af eða að minnsta kosti drægi úr hækkun vaxta meðan árangur af aðgerðum deilendanna og ríkisins kæmi í ljós. Þeim varð ekki að ósk sinni, ekki vinnuveitendum, ekki launþegum og ekki ríkisvaldinu. Davíð hirti ekkert um óskirnar og hækkaði vextina. Hann ræður. Þó svo allir aðrir væru sammála skorti það sem mestu skiptir á Íslandi og hefur gert lengi. Það vantaði samþykki Davíðs og því eru vextir enn hækkaðir og aðrir sem eiga að teljast gerendur í hagstjórninni sitja máttvana hjá.Þeir segja þetta merkilegt af hálfu Seðlabankans, að hækka enn vexti við lok hagsveiflunnar þar sem það kallar á harkalegri lendingu en annars hefði verið. Draga mun úr lánsfé og draga mun úr framkvæmdum hjá litlum sem stórum. Það bætist við að stórframkvæmdir verða minni og hagvöxtur fellur og kaupmáttur hækkar minna en hann hefur gert, jafnvel ekkert. Þau sem hafa áhyggjur af efnahagsstjórninni kalla á stöðugleika, stöðugleika og aftur stöðugleika. Vont er fyrir alla að lifa í rússíbanahagkerfi. Fyrirtækin búa við það að á einum tíma gengur ótrúlega vel og á næsta þveröfugt og það án þess að stjórnendurnir fái nokkru um ráðið. Þetta ástand hefur mikil áhrif á afkomu okkar þegnanna. Rússíbanahagstjórnin hefur á sér margar myndir. Til dæmis kvelur hún sprotafyrirtæki sem leita til annarra landa þar sem meiri ró er og rekstrarforsendur eru meiri og betri.En hverjum eigum við að trúa? Davíð sem gefur ekkert eftir og herðir tökin eða hinum sem segja hann og hans fólk vera haldið fítonskrafti í vaxtahækkunum sem geri fátt annað en að kalla fram harkalega lendingu úr efnahagsflugi sem reyndar Davíð hóf sem forsætisráðherra, og sem hann vill núna ljúka með brotlendingu, eftir því sem aðrir segja.Á sama tíma kemur fram að fleiri Íslendingar en áður vilja kanna aðild að Evrópusambandinu. Þar blasir við okkur margt spennandi, svo sem lægri vextir, lægra matarverð og meiri stöðugleiki. Vissulega spennandi, en áður en til greina kemur að við sækjum um aðild að evrunni einni eða Evrópusambandinu verðum við víst að laga til heima fyrir og ræða saman af alvöru og ekki af heift stjórnmálanna. Það eru kostir og gallar við hvorutveggja, evruna og aðild að Evrópusambandinu. Orð eru til alls fyrst, það á við ef við óskum aðildar og ef við ætlum saman að reyna að komast úr rússíbananum. Eins og ráðendur í hagstjórninni töluðu og gerðu í gær eru vonirnar litlar. Því miður.