20. september 2006
Ein mesta niðurlæging sem Íslendingar hafa mátt þola frá öðrum þjóðum er fjórtán tvö tapið gegn Dönum fyrir tæpum fjörutíu árum. Margt bendir til þess að niðurlæging okkar í varnarviðræðunum verði enn meiri og verði okkur til aðhláturs um ókomna tíð.Þegar ljóst var að Kaninn ætlaði að fara héðan var fátt gert og Davíð Oddsson treysti lengstum á meintan vinskap sinn við George Bush. Halldór Ásgrímsson sat og horfði á og hefur sagt eftir á að Davíð beri ábyrgðina á því hversu mikið hann treysti á Kanann. Annar foringinn var blindur af dýrkun á Kananum, hinum leist ekkert á en hafði ekki manndóm í sér til að bregðast við.Leyndin yfir gangi viðræðnanna hefur verið undarleg og kallað fram ýmsar efasemdir. Heimamenn á Suðurnesjum hafa ekkert fengið að vita, hvorki ráðamenn sveitarfélaga né talsmenn starfsfólksins. Allir sem hagsmuni hafa bíða þess að fá að fylgjast með, bíða frétta. Á sama tíma þegir forsætisráðherrann núverandi og aðalutanríkisráðherra þjóðarinnar, Geir Haarde. Kannski hefur hann ekki frá neinu að segja og kýs að þegja. Aðstoðarutanríkisráðherrann Valgerður Sverrisdóttir segir ekkert og veit kannski ekkert. Íslenskir fjölmiðlar hafa fylgst með íslensku sendinefndinni þegar hún gengur svipþung á fundi og af fundum með hernaðaryfirvöldum stórveldisins. Engar fréttir fást og þögnin er vandræðaleg og er sennilega ekkert annað en þögn um vandræði, þögn um hallærislega stöðu okkar manna í glímu við andstæðing sem virðist okkur fremri á öllum sviðum.Sennilegast semja okkar menn um viðskilnað Kanans þannig að hann skilur eftir einhver tæki og tól, borgar einhverja aura sem munu hvergi duga til að hreinsa upp alla þá mengun sem eftir verður. Það hefur komið skýrt fram hér í Blaðinu að í áraraðir var versti úrgangurinn urðaður af varnarliðinu og víða er jarðvegur illa mengaður þess vegna. Ekki er minnsta von til þess að gengið verði frá för Kanans þannig að afleiðingarnar af hans eigin umgengni bitni á öðrum en okkur Íslendingum. Allt gegn lágu gjaldi. Reisn okkar er ekki meiri en svo.Meintur vinskapur Bandaríkjaforseta og Davíðs Oddssonar hefur hugsanlega orðið okkur dýr. Í stað þess að bregðast strax við þegar ljóst var að herinn færi var látið reka á reiðanum. Staða okkar er ekki síst þess vegna hláleg. Tómhent kemur íslenska sendinefndin af hverjum fundinum af öðrum. Algjör þögn ríkir um hvað ber á milli, um hvað er talað, hvers við krefjumst, hvers þeir krefjast og meira að segja er engin vitneskja um hverjar varnir landsins eru. Ráðamenn sem sjá andskotann í hverju horni og vilja stofna heri og leyniþjónustur sögðu ekkert, kannski vegna þess að þeir vissu ekki að enginn horfði á ratsjár varnarliðsins, enginn fylgdist með. Varnirnar voru farnar og niðurlæging ráðamanna opinberaðist.