21. september 2006
Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, hefur ákveðið að vera ekki í kjöri til Alþingis næsta vor. Hún ætlar að draga sig út úr stjórnmálunum. Sjálf segir hún best að hætta meðan eftirsjá sé að sér. Ekki skýrði hún hver sæi eftir henni né hvers vegna. Sólveig hefur aldrei risið hátt sem stjórnmálamaður. Bara alls ekki og þess vegna er engin eftirsjá að henni. En best er að hún haldi að svo sé.Það má segja um fleiri sem nú ætla að láta af afskiptum af stjórnmálum eða hafa hætt á liðnum mánuðum. Jóhann Ársælsson er einn þeirra. Hann hefur setið á Alþingi í sextán ár og eftir þetta langan tíma er hann samt ekki þjóðþekktur maður. Svo lítið hefur farið fyrir Jóhanni og hans málstað að þjóðin hefur almennt ekki veitt honum athygli. Þannig að ekki er víst að eftirsjá sé að Jóhanni.Svipað er ástatt um marga aðra þingmenn, frá þeim hefur fátt eftirtektarvert komið og margir þeirra ná aldrei að verða þjóðþekktir, þrátt fyrir að sitja árum saman á Alþingi. Segja má að það sé svo sem ekki endilega rétti mælikvarðinn. Þeir eru ekki endilega bestir sem hæst láta, en samt er sérstakt að gegna veigamiklu embætti í langan tíma án þess að vekja athygli. Staða hins almenna þingmanns er sennilega ekkert sérstök. Verði hann ekki vinsæll í spjallþætti og sé hann ekki þess duglegri að leggja fram mál, spyrjast fyrir og gera annað sem vekur eftirtekt, dagar hann uppi einsog hver annar embættismaður. Án allrar athygli og án þess að honum sé veitt eftirtekt.Sólveig Pétursdóttir náði ekki að spila vel úr þeim spilum sem hún fékk á höndina. Hennar verður minnst sem ráðherrans sem lét innrétta fyrir sig einkasalerni og ráðherrans sem lét gera pappalöggurnar. Vel má vera að Sólveig hafi gert annað og merkara, en sennilega muna það fáir nema hún og hennar nánustu. Olíusvikamál eiginmannsins hefur eflaust skemmt fyrir Sólveigu og ráðið mestu um að hún hafi metið stöðuna þannig að engir möguleikar væru á endurkjöri og frekari þátttöku í stjórnmálum. Það er örugglega rétt mat, hitt er örugglega ekki rétt mat, að eftirsjá sé að Sólveigu. Henni hefur ekki tekist að mynda eftirspurn og þess vegna er engin eftirsjá. Það er heldur engin eftirsjá að Jóhanni Ársælssyni og það var engin eftirsjá að Tómasi Inga Olrich þegar hann var gerður að sendiherra í París. Sama er hægt að segja um marga aðra þingmenn sem hafa látið af störfum. Sumra er saknað, ekki endilega vegna þess hversu miklir þingskörungar þeir hafa verið, heldur vegna einhvers annars. Kannski vegna framkomu, greindar, orðheppni eða vegna annarrar skemmtilegrar framgöngu. Það verður ekki sagt um Sólveigu Pétursdóttur, ekki um Jóhann Ársælsson og ekki um svo marga aðra þingmenn. Að þeim hefur ekki verið nein eftirsjá og engin eftirspurn.