22. september 2006
Senn líður að því að þing komi saman eftir sumarfrí. Þingmenn eiga enn eftir tvær vikur í eirðarleysi eða til annarrar ráðstöfunar, að eigin vali. Sumir þeirra eru duglegir og þurfa undirbúning áður en þingstörfin hefjast. Aðrir eru það ekki og taka lífinu því rólega þessar tvær vikur sem enn lifa af fríinu, rétt einsog þeir hafa gert í svo margar vikur. Þingið hætti óvenju snemma í vor vegna byggðakosninganna og kom saman í fáa daga að þeim loknum. Þannig hefur sumarfrí þingmanna varað í mánuði.Þingmenn munu eflaust verða á einu máli um að hafa þingstörfin í vetur í styttra lagi. Nýtt þing verður kosið í vor og kosninganna vegna munu þingmenn samþykkja að fara snemma heim, sennilega seint í mars eða snemma í apríl. Með jólaleyfi, páskafríi og öðrum hléum mun þingið starfa í um hálft ár að þessu sinni. Það hefur svo sem oft gerst áður.Við sem ekki eigum sæti á Alþingi veltum fyrir okkur hvað þingmenn aðhafist mánuð eftir mánuð án þess að hafa neinar starfsskyldur. Sumir þeirra hafa haft mörg orð um allskyns undirbúning og að stjórnmálamenn eigi helst aldrei frí; aðrir þingmenn tala bara ekkert um starfið í frítímanum og aðrir hafa játað að ekki sé við margt að vera drjúgan hluta ársins. Löngu er tímabært að færa starfstíma Alþingis að nútímanum. Enn er miðað við sauðburð og réttir. Sú var tíðin að fjöldi bænda sat á þingi; eignaðist bóndi sæmilegt bú var leiðin greið. Hann varð Framsóknarmaður og síðan þingmaður. Þá varð þingið að taka mið af aðstæðum fjölda þingmanna. Þetta hefur gjörbreyst. Í svipinn kemur aðeins einn þingmaður í hugann sem jafnframt er alvöru bóndi, en það er Drífa Hjartardóttir sem ólíkt bændum og þingmönnum fyrri ára er hvorki karl né framsóknarmaður. Ekki er mögulegt að sættast á að þingstörfin taki mið af aðstæðum Drífar einnar, enda ótrúlegt að hún ætlist til þess. Kannski kunna þingmenn því vel að fara í frí snemma vors og mæta aftur snemma vetrar. Sauðburður og sláturtíð hafa hvort eð er lengi ekki skipt máli hjá þingheimi. Þarfir þingmanna virðast bara vera þær að þeir kjósa að vera utan starfsskyldna í langan tíma ár hvert.Prófkjör og aðrar leiðir til að velja frambjóðendur fyrir þingkosningarnar eru framundan. Þá munu margir stíga fram og sækjast eftir þingsetu. Sumir frambjóðendanna vilja láta til sín taka, aðrir ekki, hugsa frekar um þingstarfið sem huggulega vinnu. Lottóið hefur búið til persónu, Lýð Oddsson, sem er fullur iðjuleysis. Hann á að hafa unnið mikið í lottóinu og veit ekki hvað hann á af sér að gera. Stundum minnir hann á þingmann, einkum og sér í lagi þingmann að sumri. Lýður vaknar snemma á morgnana, bara af því að honum þykir svo gott að sofna aftur. Ef hægt væri að kjósa sumarþingmenn og vetrarþingmenn væri Lýður kjörinn.