26. september 2006
Forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, hefur tekið upp nýja og áður óþekkta siði í samskiptum við fjölmiðla. Þjóðsögur segja reyndar að ámóta viðhorf hafi verið meðal ráðamanna um og eftir miðja síðustu öld. Forsætisráðherrann núverandi veitir helst ekki viðtöl nema vita nákvæmlega um hvað verður spurt og hvernig. Hann gengst jafnvel undir að hafa viðtal við fjölmiðlamenn með þeim skilyrðum að einungis verði spurt um það sem hann hefur samþykkt og ekki um annað. Undir þetta gangast íslenskir fjölmiðlamenn, hver af öðrum. Því miður.Reyndar hafa samskipti fjölmiðla og stjórnmálamanna tekið miklum breytingum á löngum tíma ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Áður var aðgengi að æðstu embættismönnum allt annað og betra. Þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra var Steingrímur skráður í símaskrá, rétt einsog flestir þeir sem höfðu síma. Ef ég man rétt var heimasími Steingríms á þeim tíma 41809. Ráðamenn síðustu ára hafa almennt fært sig fjær fjölmiðlum, þó hafa margir þeirra gefið kost á viðtölum, ýmist á vettvangi, á blaðamannafundum og einkum að loknum ríkisstjórnarfundum, þó þeir séu ekki viljugir til að virða óskir fjölmiðlamanna og svari helst ekki skilaboðum.Geir H. Haarde hefur tekið upp nýja siði. Almennir fjölmiðlar ná undantekningarlítið ekki sambandi við ráðherrann. Síðast þegar Blaðið freistaði þess að ná tali af forsætisráðherra var blaðamaður í stjórnarráðinu að loknum ríkisstjórnarfundi og óskaði eftir samtali við ráðherrann. Úr varð að aðstoðarkona ráðherrans spurði við hverju blaðamaður vildi fá svör, sneri inn til fundar og kom út aftur með afsvör. Spurningarnar voru þess efnis að forsætisráðherra vildi ekki svara. Hann beitti ritskoðun, hann hafnaði að eiga samskipti við fjölmiðil sem fjallaði um mál sem var ráðherranum ekki þóknanlegt þá stundina. Í þessu tilfelli þyrsti blaðamanninn í að fá svör við því hvort forsætisráðherra gæti svarað hverjar varnir Íslands væru nú eftir þær breytingar sem orðið hafa á háttum Bandaríkjahers á Miðnesheiði. Flóknara var það ekki.Á sama tíma og ráðherra leyfir sér að reyna að stjórna því hvað sé í fréttum og hvað ekki segir Baldur Þórhallsson prófessor frá því að hann hafi sætt hótunum vegna starfa sinna, eða öllu heldur vegna þess að einstaka stjórnmálamönnum hefur ekki líkað niðurstöður úr rannsóknum fræðimannsins og þess vegna hafi hann verið varaður við. Ekki eru það bara munnmæli, því Baldur á bréf frá háttsettum embættismanni sem spurði hvernig Baldur vogaði sér að fjalla um Ísland og Evrópusambandið og að hann væri kominn út í helmyrkur öfga. Í helgarviðtali við Blaðið sagði Baldur: Ég held líka að margir stjórnmálamenn á Íslandi séu haldnir þeim misskilningi að bæði fræðimenn og blaðamenn hafi pólitískan tilgang með öllu sem þeir gera. Það er eðlilegt að stjórnmálamenn hafi pólitísk markmið en það er misskilingur að halda að aðrir hafi það. Þetta eru góð orð og lýsa svo vel því andrúmi sem nú er ráðandi.