28. september 2006
Þau tímamót hafa orðið að varnir Íslands eru óþekktar. Áður gátum við deilt um nauðsyn þeirra varna sem voru, en ekki lengur. Aðeins tveir Íslendingar eru sagðir vita hvaða varnir eru til staðar eftir að bandaríski herinn fór héðan, að mestu. Hann er ekki farinn að fullu, heldur eftir landspildu í Grindavík og hefur áskilið sér rétt til að koma hingað endrum og sinnum til æfinga. Og herinn fékk sínu framgengt.Það er ekki beint notalegt tilhugsunar að framundan er samstarf íslensku löggunnar og bandaríska hersins, jafnvel svo náið að af og til verði skipst á mönnum. Bandaríkjaher hefur ekki það orðspor að hann sé endilega heppilegur félagsskapur. Herinn hefur stundað miklar símahleranir án dómsúrskurða og starfrækir vond fangelsi, svo sem Abu Ghraib og Guantanamo. Um mestallan heim óttast fólk bandaríska herinn og með fullri virðingu fyrir íslensku löggunni er þessi her sennilegast ekki sá félagsskapur sem við viljum að löggan okkar sæki í.Það er eðlilegt að Íslendingum standi ekki á sama. Ef leita verður samstarfs við aðrar þjóðir er mýkri ásýnd og vinalegri víðast annars staðar. Þegar þarf að endurgera varnir landsins, bæði hvað varðar hernað og ekki síður aðgengi að landinu í flughöfnum og við strendur landsins, er ekkert eðlilegra en að almenningur efist um framferði stjórnmálamanna og embættismanna. Nýleg dæmi um persónunjósnir fyrri ára kalla á að heimildir til handa yfirvöldum á hverjum tíma verða að vera þröngar og tryggja verður að ekki sé mögulegt að misnota þær heimildir. Það er ekkert að því að efast um heilindi þeirra sem munu fara með heimildir til að fylgjast með náunganum. Og það er enn frekar ástæða til að hafa áhyggjur ef lærimeistarar íslenskrar leyniþjónustu koma frá þeim her sem nýverið var tekinn í bólinu fyrir að hafa stundað meiri persónunjósnir en áður þekktust, og allt án þess að hafa dómsúrskurði til verkanna.Við verðum að fara varlega á þessum tímamótum. Það er vandaverk að spila úr þannig að traust haldist og ekki verði ástæða til frekari efasemda. Um árabil hefur hluti þjóðarinnar ekki borið traust til lögreglu og saksóknara og nýverið bættist Davíð Oddsson við, og bætti reyndar um betur og sagði dómskerfinu hér svo ábótavant að það ráði aðeins við gæsluvarðhaldsúrskurði og sjoppurán. Meðan sá maður sem mest völd hefur haft hér í áraraðir talar þannig er eðlilegt að aðrir Íslendingar hafi efasemdir. Þess vegna er mikil ábyrgð lögð á stjórnvöld að fara varlega í að breyta lögum á þá leið að leiðir hins opinbera, hvaða nafni sem það nefnist, verði þannig að persónunjósnir verði stundaðar hér. Uppljóstranir um áratuga eftirlit með einstaka þegnum eiga það sameiginlegt, að aldrei var ástæða til aðgerða, hvorki til að handtaka menn eða ákæra. Leyniþjónustan var rekin áfram af þrjósku og án nokkurs árangurs. Það er saga sem ekki má endurtaka.