29. september 2006
Virkjunarsinnar hafa náð sínu fram. Hálslón er að verða til og í það rennur eyðilegging á hverri sekúndu. Við erum mörg sem vöknuðum of seint, gerðum okkur ekki grein fyrir hversu tröllslegar framkvæmdirnar voru fyrr en um seinan. Í upphafi voru fáir mótmælendur sem stóðu með spjöld en sögðu fátt. Leikurinn hefur æst, fleiri hafa bæst við og þunginn er mikill. En sennilegast er allt um seinan. Hálslón fyllist, landið breytir um svip og rafmagn mun flæða í fabrikkuna á Reyðarfirði. Einhverjir verða ríkir, en það verður ekki allt. Áhrifin verða mikil.Þessi mesta framkvæmd Íslandssögunnar mun halda uppi minningu þeirra sem mest börðust til að allt þetta yrði að veruleika og líka þeirra sem mest hafa lagst gegn framkvæmdunum. Trúlega munu komandi kynslóðir minnast andstæðinga virkjunarinnar af meiri lotningu en þeirra sem vildu virkja. Það segir talsvert um þjóð að hún skuli ekki eiga annars úrkosti til að verða ríkari, en að leggja jafn mikið undir og raun er á.Ekki er laust við að efast verði um framsýni þeirra stjórnmálamanna sem mest áhrif höfðu á að virkjunin og álverið verða að veruleika.Aðrir atvinnuvegir hafa liðið fyrir skekkjuna sem varð í efnahag þjóðarinnar, ekkert hefur gengið eftir af þeim vætningum sem voru um atvinnu fyrir Íslendinga við gerð virkjunarinnar og álversins. Og Hagstofan segir Íslendingum fækka á Austurlandi. Vissulega mun þjóðin fá tekjur af álverinu í langan tíma, en það eitt getur ekki lengur réttlætt allt sem gert hefur verið. Þau rök dugðu áður fyrr, rétt einsog áður viðgekkst að mengun væri urðuð í jörðu og altalað var að lengi tæki sjórinn við og í hann var settur allur fjandinn. Nú eru aðrar kröfur og þær munu meðal annars verða til þess að aldrei aftur verður leitað lausna til að bæta fjárhag þjóðarinnar eða einstakra byggða með öðru eins og gert var á Kárahnjúkum.Með afli þeirra sem hafa frá upphafi mótmælt virkjuninni og því afli sem því fólki hefur bæst á leiðinni hefur orðið til stífla, stífla sem stjórnmálamenn framtíðarinnar komast ekki yfir. Aldrei aftur skal verða gripið til eins róttækra aðgerða til reddingar, ekki til að bæta þjóðarhag, ekki til að bæta hag einstakra sveitarfélaga og ekki til að auka fylgi stjórnmálaflokka, jafnvel þó ömurlega standi á hjá þeim.Það sem lærist af því sem gert hefur verið verður vonandi að hér eftir verði farið hægar, gert minna og litið meir til framtíðar. Fari svo að andmælin nú komi í veg fyrir fleiri svo stórtækar aðgerðir má segja að stríðið vinnist en orrustan hafi tapast. Fórnarkostnaður verður mikill en hugsanlega verður ávinningur fyrir aðrar perlur í náttúru Íslands einnig mikill. Þeir sem njóta munu mest í efnalegu tilliti af tröllslegum framkvæmdum á Austurlandi geta ekki látið einsog tugþúsundir Íslendinga hafi ekkert um málið að segja, að þeim komi þetta ekkert við.