3. október 2006
Eitt ár er síðan Fréttablaðið hóf að birta fréttir, sem að mestu voru byggðar á tölvupóstum sem höfðu gengið milli fólks sem kom að aðdraganda Baugsmálsins, og þær fréttir höfðu veruleg áhrif á samfélagið. Í þeim fréttum kom fram að fólk sem ekki var beinn þátttakandi í málinu eða hafði beinna eða sérstakra hagsmuna að gæta hafði setið á fundum og undirbúið kæru til lögreglu. Það er rétt um eitt ár síðan þetta mál skók samfélagið. Flestum er enn í minni allt það sem fylgdi á eftir, svo sem lögbann sýslumanns á gögn blaðamanna, málarekstur Jónínu Benediktsdóttur gegn Fréttablaðinu og ótvíræður sigur vandaðrar blaðamennsku á tveimur dómstigum. Reyndar er ekki að sjá að Fréttablaðið muni þessi tímamót, allavega er þeirra ekki getið í blaðinu.Fjölmiðlum er mikils virði að geta unnið í friði fyrir ofbeldi hins opinbera, sama hver fær valdið í lið með sér, og þess vegna er tölvupóstsmálið og eftirmál þess mikilsvert í sögu nútímafjölmiðlunar. Lögbanni sýslumannsins var hafnað á tveimur dómstigum. Þó Fréttablaðið kjósi að láta sig þessi tímamót engu skipta er ekki sjálfgefið að aðrir geri það. Oft hefur verið sótt að fjölmiðlum og þeim sem þar starfa. Í þessu máli var það gert og upp risu allskyns málsverjendur þeirra sem við sögu komu. Það gáfu sig líka fram málsverjendur sem sögðu ekkert að því að helstu trúnaðarmenn þáverandi forsætisráðherra hafi átt fundi um Baugsmálið nokkru áður en það var kært til lögreglu og það risu upp verjendur sem fannst ekkert merkilegt þótt þáverandi forsætisráðherra hafi verið nefndur sérstaklega og ekki heldur þó núverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra hafi einnig komið til tals hjá þeim sem mest og best unnu að því að gera Baugsmálið að opinberu refsimáli.Þrátt fyrir að vönduð og góð blaðamennska hafi farið með sigur af hólmi fyrir dómstólum eimir enn eftir af hinni sérstöku vörn þeirra sem stýrðu aðdraganda kærumálsins, að í tölvupóstsmálunum hafi ekkert sérstakt komið fram. Það er rangt að halda því fram. Einkum og sér í lagi þegar skoðað er hvaða útreið þetta sérstaka mál, það er Baugsmálið sjálft, hefur fengið hjá dómstólum. Málið hefur nánast verið berstrípað fyrir dómstólum og tölvupóstsmálið reyndist þegar upp er staðið vera minnisvarði um getu, kjark og festu fjölmiðils til að halda áfram með gott fréttamál, þrátt fyrir ótrúlegan andbyr og ónot.Í fyllingu tímans mun Baugsmálið verða rannsakað með öðrum hætti en gert hefur verið, það verður gert af opinberum yfirvöldum eða öðrum, og þá mun skýrast betur hvernig var staðið að kærunni sem varð að þessu stóra og sérstaka máli, þá mun skýrast hver aðdragandi Baugsmálsins var og þá munu fleiri staðreyndir um undirbúning málsins verða staðfestar og þær munu hafa áhrif. Þá verður gott að hafa fjölmiðla sem hafa kjark.