4. október 2006
Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sagði í ljósvakaviðtali að mál eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar, hefði haft áhrif á að hún hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri til Alþingis. Kristinn var einn helsti gerandinn í olíusvikamálinu. Annað sem Sólveig sagði er merkilegt og verður að ná eyrum lögregluyfirvalda og ákæruvalds, en það er sú staðreynd að olíusvikamálið hefur ekki fengið eiginlega afgreiðslu og á meðan verða sakborningar, fjölskyldur þeirra og aðrir sem málið snertir að sæta því að hafa lok málsins yfir sér, án þess að vita hvenær og hvernig málinu lýkur, það er hvort forráðamenn olíufélaganna frá svikatímanum verði sóttir til saka og þá hvernig og hvaða sakir verða hafðar uppi í hugsanlegum refsimálum. Þetta er ekki þolandi, allra vegna. Vegna sakborninganna, vegna fjölskyldna þeirra og okkar hinna vegna, okkar sem erum sannfærð um að illa hafi verið farið með okkur, að á okkur hafi verið brotið, og við viljum að þeir sem bera sakir fái makleg málagjöld.Það er ekki verjandi að hafa mál óútkljáð í áraraðir, síst af öllu mál þar sem fyrir liggur að blekkingum og svikum var beitt til að hafa fé af öllum almenningi í landinu. Þess vegna á allur almenningur óuppgert við það fólk sem fremst fór í þessu mikla svikamáli. Almenningur er ekki dómsvald og getur þess vegna ekki dæmt þá sem sekir eru. Það er hlutverk dómstóla, en þeir geta heldur ekkert gert fyrr en lögregla og ákæruvaldið hafa lokið sínum störfum. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Málið hefur verið alltof lengi í rannsókn og það bitnar á svo mörgum. Ef málalok væru fengin væri andrúmið allt annað, þátttakendur ýmist dæmdir eða sýknaðir og málið tekið frá dómstóli götunnar. Meðan það er þar bitnar það sem fyrr segir á þeim sem ekkert geta gert. Meðal annars á Sólveigu Pétursdóttur sem nánast segir að hún eigi ekki frekari framtíð í stjórnmálum vegna málsins. Það er eina dæmið sem við þekkjum af hliðaráhrifunum, en auðvitað eru þau miklu fleiri.Þegar afbrot er framið er öruggt að fórnarlömb þess verða mörg, þau sem eru svikin eða meidd og aðstandendur glæpamanna verða oftar en ekki þolendur. Svo virðist sem afbrotamenn ýmist geri sér ekki grein fyrir óhamingjunni sem þeir kalla yfir sína nánustu eða að þeim sé bara alveg sama.Enn er bið á að olíusvikamálið verði til lykta leitt. Meðan til þess skipuð yfirvöld ná ekki að ljúka málinu þurfa þolendur þess að búa við óvissu og dómhörku borgaranna. Það er því okkur öllum nauðsynlegt að málinu ljúki og þeir sem sannarlega brutu af sér fái sína dóma og ljúki refsingum og þeir sem eru saklausir verði sýknir saka eða þeim sleppt án eftirmála. Þá mun þjáningum margra linna og þjóðin hættir vonandi að dæma þá sem brutu af sér, og ekki síður ástvini þeirra.